Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Þeir eru vér og vér erum þeir: Vér rifnum úr stolti

Það má máski fullyrða að þeir sem fengu það hlutskipti að fæðast á landi ísa, álfa og Gylfa Ægissonar hafi aldrei verið eins nálægt því að rifna úr stolti. Örsök þess er auðvitað frammistaða þeirra og boltasparkaranna í Frakklandi. Það er enda meiriháttar afrek að vera frá sama landi og knattspyrnukarlarnir knáu og ekkert að því að baða sig í dýrðarljóma hinna dyggðugu og fótfráu drengja.

Já, sannlega segi ég yður að margir, með réttu eða röngu, tengja við liðið, telja sig jafnvel Lilju kveðið hafa og sjá sig sem hluta liðsheildarinnar. Er það eitthvað sem undirritaður á bágt með að skilja en engu að síður getur hann vel unað fólki þess að gleðjast yfir árangursríku boltasparki, fyllast þjóðarstolti, sem hann er reyndar lítt hrifinn af og má alveg viðurkenna það þar sem hann mun seint bjóða sig fram til forseta, og álíta Frón, allavega tímabundið, stórasta land í heimi.

Í stuttu máli má fótboltinn vel vera ópíum landans um hríð. Það er alveg gott og blessað og örugglega má finna einhver haldbær rök fyrir því að eigna sér hlutdeild í liðinu þó ekki sé nema með því að notast við Íslendingabók til að finna mægðir aftur í ættir. Nú svo mætti og fara þá leið segja að skattpeningarnir vorir og Palla feita hafi farið í að reisa fótboltahallirnar sem svo aftur á móti stuðluðu að því að auðveldara var í landi vetrarhörku að æfa og þar af leiðandi hafa íslenskir tuðrusparkara tekið stórstígum framförum og náð einkar frambærilegum árangri á sparkvöllum víðsvegar um heim. Also við borgðuðum í þessu, við erum þeir, þeir eru við.

Árángur þessi hefir svo sannlega kveikt mikinn sameiningareld þannig að fólk sem veit vart hvað snýr upp eða niður hvað íþróttina varðar er uppfullt af eldmóði og myndi vafalítið fylgja drengjunum niður til heljar hérumbil. Svo mikill er þessi eldur að úr þeim hefir orðið eitt allsherjar VIÐ og undirstrika sumir þetta VIÐ með hjárænulegum höfuðfatnaði og andlitsmálningu í litum þjóðfánans. 

Þetta allt er gott og blessað og gaman að landinn geti barið sér á brjóst og þóst vera víkingur eða hetja. Það er bara hluti af þeirri afþreyingu sem fótbolti er.

Það væri þó vissulega gaman ef þetta VIÐ ætti við á fleiri stöðum og væri ekki eingöngu notað til að upphefja sjálfan sig. Til að mynda mætti örugglega lyfta grettistaki á mörgum sviðum þjóðlífsins ef við myndum sameinast um að bæta hag fólks og huga að náttúru landsins nú eða þá bara til að bæta árangur landsliðsins í boccia.

Raunar hlýtur að mega færa þetta stórkostlega VIРyfir á öll svið þjóðlífsins.

Bara svona pæling.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni