Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Slagsmálatíkur

Auðvitað  er alltaf viðeigandi að skrifa baráttuóð og leitast við að benda á hvar pottur sé brotinn í samfélagi voru. Einnig mætti vel hnoða saman textadeig sem hvetur verkalýðinn og aðra launþega til dáða í baráttu sinni fyrir bætum lífskjörum. En sennilega hefi ég það bara of gott til að láta mig það þema einhverju varða og máski er ég barasta eiginhagsmunaseggur. Samt hugnast mér ekkert sérstaklega að græða á daginn og grilla á kvöldin. Reyndar er ég, að eigin mati, voðalega lélegur kapítalisti þrátt fyrir að ég sé ekki svo gjarn á að láta mig heildina einhverju varða.

Og þó. Mér er dálítið umhugað um tungumálið. Langar mig því að prjóna smá við pælingar sem ég hefi stundum gælt við. Pælingar sem daðra við þann möguleika að stuðla mætti að breytingum á íslenskri tungu. Breytingum sem gætu ef til vill gert hana kvensamlegri.

Hvað sem því líður er í þessu samhengi ótækt að hugsa til þess að neikvæð hugtök eins og kynþáttahatari eða rasisti, nauðgari, fasisti, nasisti, slagsmálahundur og fjölmörg önnur orð (nenni ekki að kafa í heilabúið til að leita fleiri orða enda fæ ég ekkert borgað fyrir þessi skrif) sem fela í sér ofbeldi eða framkalla neikvæða mynd, í hugum flestra, séu karlkyns. Væri því ráð, til að gæta jafnvægis, að málið byggi einnig yfir kvenkynsútgáfum þeirra og það þótt karlpeningurinn kunni að vera stórtækari á þessum sviðum.

Í Þýskalandi, sem er framarlega í því að kynjafna málið hafa menn flaskað á þessu enn sem komið er og ekki lagt sig í líma við að kvengera neikvæðu orðin. Er því einvörðungu til Antisemit ekki Antisemitin, Faschist en ekki Faschistin og Gewalttäter (ofbeldismaður) en ekki Gewalttäterin og þannig mætti áfram telja. Eða orðin sem slík fyrirfinnast öllu heldur, enda er ekki erfitt að mynda þau með endingunni -in. Þau eru bara ekki brúkuð neitt sem heitið getur.

Mætti því ekki á Íslands orðaslóðum einnig kynjafna þar sem það fyrir finnast sannlega fasistínur, rasistínur eða kynþáttahatarínur sem og slagsmálatíkur. Hugsanlega hefir þetta ójafnvægi að einhverju leyti stuðlað að því að karlmenn tengi fremur við ofangreind orð en konur (þótt valdastaða hafi líkast til meira að segja).

Ekki mælist ég til þess að kvenþjóðin gerist stórtækari á þessu sviði. Þvi fer fjarri. En það er barasta ósanngjarnt að karlmenn sitji uppi með neikvæða byrði þessara orða bara af því að þeir eru með lim.

Hér ætti líka að deila byrði og jafna.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu