Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Aðalskipulagið okkar

Aðalskipulagið okkar

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010 - 2030 er lögformlega bundin stefna borgarstjórnar. Það er leiðarljósið sem vísar okkur veginn í átt að eigin markmiðum um sjálfbærni og bætt lífsgæði. Það er verkfæri sem stýrir öllum fjárfestingum og allri uppbyggingu innan borgarmarkanna. Þar er skilgreint hvað á að vernda og hvað á að nýta. Einnig er þar fjallað um réttindi og skyldur bæði borgarinnar og íbúa hennar.

Þekking og þátttaka í skipulagsmálum ætti að byrja á fyrstu stigum menntunar og vera hluti af lífi okkar allra. Það er grundvallaratriði að við þekkjum öll þetta skjal sem hefur svo mikil áhrif á líf okkar. Skjalið er bindandi og skapað til þess að vita í hvaða átt á að sigla og hvernig á að komast þangað. Hvort sem um er að ræði vegi, skóla, eða íbúðarhúsnæði. Þar eru teknar grundavallarákvarðanir líkt og fyrir hversu marga við byggjum, hvar við byggjum og hvernig við búum.

Eitt af grunngildum Pírata fjallar um að það eigi allir að hafa rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem þá varða og er sá réttur tryggður t.d. með styrkingu beins lýðræðis og eflingu gagnsærrar stjórnsýslu.

Að baki aðalskipulags liggur vandaður og faglegur ferill, en því miður er þar takmarkað samráð haft við íbúa. Samráðið uppfyllir þó með öllu skipulagslög nr. 123/2010. Samráðið er gert með íbúafundum og skilgreindum auglýsingartíma. Skýrt er tekið fram í lögunum að aðalskipulag sé „skipulagsáætlun fyrir tiltekið sveitarfélag þar sem fram kemur stefna sveitarstjórnar[...]“. Vegna þess að aðalskipulag er einungis samþykkt af sveitarstjórn eða borgarstjórn getur það eðli málsins samkvæmt einungis verði stefna stjórnarinnar en ekki íbúanna allra.

Hér er hægt að opna ferla og auka aðkomu almennings. Með nútíma upplýsingatækni er lítið mál að efla til rafrænna kosninga. Ef aðalskipulag þyrfti einnig að vera staðfest af íbúum í bindandi kosningu  myndi það valdefla íbúa borgarinnar og gera skýrari kröfu á upplýsingagjöf og rökstuðning af hálfu hins opinbera. Þannig væri aðalskipulagið stefna okkar allra. Því aðalskipulag á að vera sáttmáli milli Reykjavíkurborgar og íbúa hennar um framtíðina.

Einnig þarf að endurskoða aðferðafræði og form aðalskipulags með það að markmiði að auka almenna notkun þess, skilvirkni og gagnsæi í ákvarðanatöku. Aðalskipulag á að vera notendamiðað, þ.e.a.s. hannað og skipulagt út frá þörfum og sjónarhorni notenda. Þannig verður auðvelt að nálgast allar upplýsingar, skilmála og gögn, hvort sem notuð er tölva, bók eða sími.

Með aðalskipulagi sem íbúar hafa tekið þátt í að móta og samþykkja er skapaður grundvöllur til sameiginlegrar framfylgni íbúa og borgaryfirvalda. Þannig sköpum við skemmtilegri, öflugri og sjálfbærari borg.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni