Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Síðasta þorskastríðið

Síðasta þorskastríðið

Mér leiðast þau rök fyrir gagnsleysi Davíðs Oddssonar, að hann sé gamall. Ég hef þá kenningu að við ákveðinn aldur, fari fólk að feta sig eftir einum af tveim stígum. Annar þeirra liggur í átt að biturð, óþoli og þröngsýni – hinn færir fólki hamingju, þolinmæði og næstum ótakmarkaða víðsýni. Fyrir mína parta veit ég ekki vísara fólk og hollara en það sem ferðast upp seinni stíginn; fólk sem hefur varpað af sér sérhverri kröfu um undirgefni og hollustu gagnvart hinum ýmsu klíkum - og er líklegast frjálsasta fólkið í hverju samfélagi.

Og þetta á við um þá sem teljast til Sjálfstæðismanna, rétt eins og aðra. Ég gleymi t.d. seint viðtali sem Egill Helgason átti við Jónas Haralz, sem þá var rétt um 90 ára. Jónas bjó yfir víðsýni og visku sem finnst ekki hjá fólki á mínum aldri, nema kannski í undantekningartilfellum. Styrmir Gunnarsson lofar einnig góðu, þó tvístígandi sé varðandi hvora leiðina hann ætlar.

 

RANGUR STÍGUR

Davíð er sem sagt ekki gagnslaus sökum aldurs, heldur vegna þess að hann valdi rangan stíg. Hjá honum má hvorki greina visku né víðsýni, að mínu mati. Davíð er bitur og skapbráður – og saga hans á seinni tímum, sýnist mér samfelld saga klúðurs og klíkuskapar. 

Vel má vera Davíð hafi einhvern tíma þótt hæfur stjórnandi og verið Íslandi til gagns – en upp úr aldamótum varð ljóst að hollusta hans liggur ekki hjá þjóðinni, heldur því auðvaldi er hann flúði til eftir hlálegan feril sem seðlabankastjóri. Við þekkjum þessa sögu allt of vel og flestir fundið afleiðingarnar á eigin skinni.

Að mínu mati var lágpunkti náð með lista hinna viljugu – því hugleysið var svo algert; svo yfirþyrmandi. Tony Blair er vissulega ómerkileg mannleysa, en öfugt við hann þurftu Davíð og Halldór hvorki að óttast fréttamyndir af heimflutningi stríðsdauðra ungmenna, né gagnrýni í þá veru að íslenskir hermenn væru að slátra saklausum borgurum. Ákvörðun Davíðs og Halldórs var ákvörðun dusilmenna, sem engu þurftu að fórna, tóku enga áhættu, en höfðu það markmið eitt að festa tungur sínar rækilega við afturenda George Bush, svo Ísland gæti hugsanlega grætt eitthvað á þessum sóðaskap öllum. Niðurlæging Íslands var svo fullkomnuð þegar Davíð sat með Bush í beinni útsendingu, sótrauður og undirgefinn, líkt og á fyrsta stefnumóti með Guði almáttugum, og muldraði eitthvað í þá veru að nú væri von. 

 

GAMALDAGS TUDDASKAPUR

Við sjáum sama hugleysið í dag, í kosningabaráttu manns sem skilur lítið í nútímanum – en áttar sig þó á að hann hefur lítið fram að færa. Í kringum Davíð safnast síðan menn á ákveðnu þroskastigi, sem sjá glitta í eitthvað sem þeir sakna – gamla tíma, þegar það dugði karlmönnum til virðisauka að berja hnefa í borð, hækka róminn og væna aðra um hitt og þetta. Gamaldags tuddaskapur sem þótti kannski eðlilegur hinum megin við aldamótin.

En þó tígrisdýrið sé tannlaust í dag, skal viðurkennt að það er áhugaverð bíræfni af Davíð að hengja sig í Icesave og þorskastríðin líkt og þar sé eitthvað sem hann getur notað til eigin upphafningar. Fólk þarf að vera nokkrum skrefum neðar en „fávís lýður“ til að sjá ekki gegnum þá svívirðu. Davíð, eins og allir vita, framleiddi flesta þá íhluti sem þurfti í vítisvélina Icesave – og um þorskastríðin skal það eitt sagt að síðasta orrustan tapaðist í upphafi árs 1984. Síðan þá hafa fáir menn gengið harðar fram í að halda gæðum hafsins frá þjóðinni, en einmitt Davíð Oddsson. 

 

HUNDTRYGG ATKVÆÐI

Þegar Davíð ræðst svo á þann sem segir söguna eins og hún gerðist, sést glögglega að hann rær á þau mið sem oft gagnast örvæntingarfullum frambjóðendum, sem ekkert hafa fram að færa; fylgi frá vitgrönnum þjóðernissinnum. Þar eru ávallt hundtrygg atkvæði.

Þjóðernissinnar skilja sjaldnast að þjóðrækni snýst ekki um flótta frá sögunni – og þeir enda því oftast á að valda þjóðum sínum töluverðum skaða. Í raun er þetta þó einfalt; ef þú vilt elska Ísland – elskaðu það þá allt, og kannski sérstaklega það slæma í sögunni. Allt það sem læra má af, svo þjóðin endurtaki ekki sömu mistökin aftur og aftur.

Davíð og hans hirðmenn eru eins og bresku sérvitringarnir sem halda því fram að heimsveldi Breta hafi aðeins átt sér góðar hliðar og heimurinn sé alfarið betri á eftir. Hver sá sem bendir á augljós göt í þeirri kenningu hlýtur að stjórnast af hatri – það hlýtur að vanta upp á föðurlandsástina. 

 

BETRI TÍÐ ÁN DAVÍÐS

En aðdáendur Davíðs verða að sætta sig við að skynsamur meirihluti er ekki að kaupa svona áróður – jafnvel ókeypis, er þessi draugur fortíðar verri en enginn. Ámátlegar tilraunir Davíðs til draga atkvæði upp úr ræsinu, eru honum og fylgjendum hans til minnkunar. 

Á þessum tímapunkti væri líklega best fyrir hann að flýja aftur í faðm útgerðarmafíunnar, hvar hann fær næði til að skrifa um allar vindmyllurnar sem hann hefur barist við – og sigrað glæsilega – milli þess sem hann upplýsir ört fækkandi lesendur um þröngsýnið af stígnum sem hann valdi sér að ferðast eftir. 

Við hin getum leyft okkur töluverða bjartsýni um betri tíð. 

Fyrst Davíð Oddsson er sá hæfileikaríkasti sem útgerðarmafían gat fengið til útréttinga fyrir sig í forsetakosningum 2016, þá mun veldi þeirra senn á enda.

Ef kjósendur haga sér skynsamlega í kjörklefunum í sumar og haust gæti vel hugsast að næsta kjörtímabils verði minnst með velþóknun í sögubókum framtíðar.  Tímabilið þar sem síðasta þorskastríðið vinnst og þjóðin fær loks það sem Bretar og Sjálfstæðisflokkur hafa haldið frá henni áratugum saman. 

Sjálfa fiskveiðiauðlindina.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni