Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Neyðarlög á skattaskjól

Neyðarlög á skattaskjól

Forsætisráðherra er óviss um skattaskjól. Í fyrradag voru þau eðlilegt viðbragð ríkra, sem flýja vilja almúgakrónu - í dag einskonar óeðli sem best væri að banna - og hann myndi líklega banna - ef ekki væri fyrir jafnræðisreglu EES-samningsins.

Ég er ekki sannfærður.

Í ljósi þess fjölda fólks og fyrirtækja sem skjölin draga fram í dagsbirtuna (heimsmet?), að viðbættum nöturlegum afleiðingum fyrir míkróskópískt efnahagskerfi, gæti ég best trúað að lög sem banna skattaskjól myndu falla undir einhvers konar neyðarrétt - sem áður hefur verið notaður, Íslendingum til heilla. 

Þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Samtakanna færði landhelgina  í 50 mílur, var það gert einhliða og þvert á samninga; hið sama gilti árið 1975, þó meðbyr væri meiri í alþjóðasamfélaginu. Neyðarlögin, svokölluðu, voru fyrirfram talin brot á EES samningum (sem reyndist svo rangt) - og núverandi höft eru andstæð samningunum, að því ég best veit.
Fleira mætti telja til - en samnefnari ofangreindra mála, er að Íslendingar gerðu það sem þeir þurftu til að lifa af, burtséð frá því hvort hendur þeirra þóttu bundnar í upphafsskrefunum.

En nú, þegar bjarga skal hinum fátæku á kostnað ríkisbubba sem (skiljanlega) vilja hlaupa undan almúgakrónu, er aldeilis annað hljóð í strokknum - "ekki hægt", segir Sigurður Ingi, á ögurstundu.
Meira að segja ég, blautgeðja klappstýra Icesave samninganna, er hugaðri en svo að ég sitji þegjandi undir svona gráti og gnístran tanna.

Því auðvitað er þetta hægt - eða að minnsta kosti fráleitt að reyna ekkert; setja enga pressu. Gera ekkert! 

Fyrsta skref gæti verið opinbert lettersbréf til ESB, hvar sambandinu er gefin tiltekin tími til að samþykkja viðunandi löggjöf gegn skattaskjólum, ellegar áskilji íslensk þjóð sér rétt til einhliða lagasetningar. 
Svona bréf gæti orðið liður í að hreinsa mannorð framsóknarmanna eftir síðustu bréfaskifti við téð samband, hverra tilgangur var að hafa af þjóðinni kosningar - en þá sögu þekkjum við flest. Svona bréf gæti jafnvel skilað fleiri atkvæðum í kjörkassann þegar þar að kemur (það eitt að vera með derring við útlönd, mun festa ófáa á öngulinn)!

En opinbert yrði bréfið að vera, og rækilega kynnt í erlendum fjölmiðlum; það er nefnilega stemming fyrir slíkri lagasetningu í Evrópu, meðal hennar sem á hátíðarstundum er sögð uppspretta valdsins - sem sagt alþýðunni.

Í rökstuðningi má vísa til íslensku krónunnar og hve viðkvæm hún er fyrir stórfelldum flótta fjármagns í aflandsfélög - og þau eyðileggjandi áhrif sem gengisfall hefur á allan almenning, í formi hækkaðs verðlags og vaxta. 
Tiltaka má að þjóð sem samþykkir skattaskjól (jafnvel bara með þögninni), samþykkir þar með allt það versta sem þeim fylgir - svo sem barnaklám, mannsal, eiturlyfjasölu, kúgun, þjófnað frá þróunarlöndum og aðra viðlíka glæpastarfsemi. 

Í stuttu máli virkar það svona. Sigurður Ingi og félagar mynda varnarvegg "fína fólksins", sem úrhrökin njóta skjóls af. Þið, Sigurður Ingi og félagar, eruð nefnilega samsek í því öllu - og dragið þjóðina með ykkur í þann forarpytt.

Skattaskjól eru ein stærsta ógn gegn félagslegu réttlæti sem til er - og að margra mati sú stærsta. Ef Tortólustjórn aflandsráðherra leggur ekki í baráttu gegn óværuni, hefur hún ekkert hlutverk. Henni þarf að varpa á dyr. 

Það er ekki nóg að segjast þurfa vaka yfir batnandi tíð með blóm í haga; þá má allt eins sleppa milliliðunum og gera þá konu að einræðisherra, sem gert hefur meira fyrir íslenskt efnahagslíf en ráðherrarnir allir til samans.

Sem sagt, Carolyn McCall.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu