Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Kjósendum að kenna

Kjósendum að kenna

Stöku sinnum eftir hrun - ef hugrekkið var mikið þann daginn - átti ég til að segja almenning samsekan í þeim óförum sem dundu yfir Ísland, síðla árs 2008. 

Slíkar kenningar voru yfirleitt kaffærðar í fúkyrðaflaumi, enda vel þekkt um víða veröld að almenningur getur aðeins verið gerandi ef góður árangur næst - en að öðrum kosti erum við fórnarlömb. Þegar fallegir ræðustúfar segja okkur að eitthvað í þjóðarsálinni sé ástæða mikillar velgengi, tökum við því sem heilögum sannleika – en ef halla fer undan fæti er það líklega öðrum að kenna.

Flatskjárkenningin

En skortur á sjálfsskoðun var þó ekki alger á árunum eftir hrun, því margir vildu skilja hvernig sæmilega menntuð þjóð og móðins gat klúðrað undirstöðum samfélags svo rækilega sem raun bar vitni. Haldin var þjóðfundur og ákveðið að gildi á borð við jafnrétti, ábyrgð, heiðarleika og réttlæti skyldu vísa veginn fram á við. Það var falleg tilraun hjá aðstandendum.
En horfi maður til baka, lítur ferlið út eins og blómvöndur fyrir lúbarða þjóð – ekkert af þessu festi rætur og vöndurinn visnaði.
Að lokum varð svo til samheitið flatskjárkenning, sem notað var til að þagga niður í hverjum þeim sem vogaði sér að impra á þeim möguleika að íslensk þjóð - almúginn - þyrfti að horfa í eigin barm og hugsa hlutina upp á nýtt. Gildin gleymdust og með þeim allir tilburðir til sjálfsskoðunar.

Almenningur benti á fjölmiðla, fjölmiðlar bentu á kaupsýslumenn, kaupsýslumenn bentu á löggjafarvaldið og alþingi benti á ráðherra. Allir bentu á alla og allt varð óskaplega vandræðalegt í litlu samfélagi, hvar flestir þekkja flesta.
Á endanum varð þegjandi samkomulag um að benda á Breta.

Sektin endaði sem sagt þar, að frátöldum nokkrum bankamönnum og einum ráðherra, sem refsa þurfti í auglýsingaskyni fyrir yfirburði hins íslenska lýðræðis. Flestir fengu útrás fyrir reiðina og viss tegund réttlætis náðist fram. Þann árangur má eflaust þakka einhverju í íslenskri þjóðarsál.

Ekki einu sinni byssur

Í dag sjáum við hins vegar að almenningur bar sannarlega ábyrgð á hruninu – eða, svo maður sé nákvæmur, nógu stór hópur til að valda verulegum skaða með sturlaðri hegðun í kjörklefa.

Af hverju látið þið þetta viðgangast, Baldur?“, spurði Ntando mig, á því tímabili að fyrrum forsætisráðherra ríghélt enn í stólinn. Ntando er vinnufélagi minn, fæddur og uppalinn í Simbabve. Svo bætti hann við „þeir eru ekki einu sinni með byssur við höfuð ykkar“.

Ég hafði ekkert svar þá – en veit það núna.

Þetta er nefnilega spurning um framboð og eftirspurn – og þó það kunni að hljóma ótrúlega um vestrænt lýðræðisríki, þá er beinlínis eftirspurn eftir spillingu á Íslandi. Merkilega stór hópur vill hafa vanhæft fólk í forsvari – valdsmenn sem misnota allar þær aðstæður sem þeir komast í, sér og sínum til hagsbóta. Þessi hópur kjósenda hefur afsakað ógeðið í áratugi og sakað hvern þann er upplýsir, um annarlegar kenndir og sitthvað í þeim dúr.
Í dag virkar þetta auðvitað ekki – óværan er of augljós og of útbreidd. Ísland er klárlega komið í hóp spilltustu landa vesturheims. Þetta veit hópurinn sem um ræðir.

En eftirspurnin er enn til staðar - og stjórnarflokkarnir tveir eru óheppilega færir um að sinna framboðshliðinni.

Sem sagt – þegar rætt er um tengsl almennings við hrunið 2008, er greiningin auðveld. Sá hópur sem ver núverandi stjórnarflokka og þann hroða sem við horfum upp á varðandi þeirra athafnir, er ígildi þess hóps sem (samhliða öðrum) olli hruninu 2008, með sofandahætti sínum og aðdáun á valdasjúku, hæfileikasnauðu fólki. Þessir kjósendur hefðu getað fengið öll leyndarmálin fyrir hrun, beint í æð, þeir hefðu í engu breytt skoðunum sínum eða kosningahegðun. Þeir hefðu afsakað og útskýrt spillinguna – og varið sitt fólk gegnum hverja raun.
Þetta er jafnframt fólkið sem grét hæst og orgaði mest um upplýsingaskort og ábyrgð „hinna“, skömmu eftir hrun.

Ísland til sölu, kostar eina tölu

Staðan á Íslandi í dag, er svona:

Landið Ísland og gæði þess eru í útsöluferli; velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfið eru á hraðri niðurleið og yfir öllu voka al-íslenskir hrægammar. Þeir græddu óheyrilega á hruninu, en vilja meira. Miklu meira.
Berjast þarf gegn valdinu sem sér tekjulind í veiku fólki og dauðvona – valdinu sem vill að þeir einir geti upplifað fullnægju og frelsi menntunar, sem eiga nóg af fjármunum – valdinu sem finnst sjálfsagt að nánir vinir og fjölskylda fái bestu bitana af þjóðarkökunni - valdinu sem krefst þess að gjafir íslenskrar náttúru, sem engum dylst eru eign almúgans, rétt eins og hinna ríku, séu framseldar og fullnýttar af þeim er síst skyldi treysta fyrir fjöreggi þjóðar. Þetta ógeðfellda innlenda vald sem ævinlega reynist Íslendingum skaðvænlegra en nokkur sú manngerða plága sem frá útlöndum kemur.

- Í dag er hugrekkið mikið.

En ég ætla þó ekki að segja þjóðina samseka í hruninu.

Kjósendur sem verja þá spillingu sem liggur nú nakinn fyrir augum allrar heimsbyggðar - kjósendur Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, sérstaklega - eru hins vegar sekir, nú, rétt eins og þá. 

100% sekir.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni