Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ísland í tætlum

Ísland í tætlum

Sigmundur Davíð ætlar ekki að segja af sér - hefur ekki einu sinni íhugað það.

Eftirleiðis verður auðveldara fyrir okkur sem búum utan landsteinanna að útskýra af hverju jákvæðar fréttir frá Íslandi eru í 99% tilfella tilbúningur, eða misskilningur (og stundum bæði). Sigmundur Davíð hefur fært okkur sjálfan tímann að gjöf - og fyrir það ber að þakka.

Það sem hefur reynst mér erfiðast, hingað til, er að útskýra dýptina í samspili spillingar og blindrar leiðtogadýrkunar - og hvernig jafnvel óhæfasta fólk fær að hanga í embættum mun lengur en nokkurs staðar gæti tíðkast. Dæmin eru auðvitað mörg, en hafa sjaldnast verið jafn afgerandi og í máli Sigmundar. 

Sigmundur hefur fært okkur landráðamönnum rothögg; Ísland kýlt niður í gólfið á 2 mínútum, hvar áður þurfti að hamast í fimmtán. 

Þeir sem enn styðja Sigmund eiga vissulega sinn þátt í gjöfinni, ég geri ekki lítið úr því. Hollusta ykkar við siðvilling og raðlygara eru rúsínan í pylsuendanum. Rök í poka, hvar maður teygir sig ofan í sekkinn, dregur upp hvaða setningu sem er - hefur hana eftir á enskri tungu og hlær svo dátt að molbúahætti þeirra sem Ísland byggja.

Fyrir það ber að þakka.

En svo.

En svo, mitt í allri gleðinni - mitt í þakklætinu fyrir góða gjöf, örlar dálítið á samviskubiti. Jafnvel sorg.

Því Ísland er þrátt fyrir allt ágætt land, í réttu ljósi - og meirihluti íbúa er saklaus af þeirri blygðunarlausu aðdáun á siðleysi, sem sést hjá þeim er enn styðja ríkisstjórnina. Hvað er það annað en sorglegt, að meirihluti landsmanna skuli ár eftir ár þurfa lifa við ofríki hinna fáu? Ofríki peningavaldsins, sem aldrei fær nóg, sama hvað gefið er og látið af hendi?

Get ég látið það eftir mér að úthúða svona landi - öllu þessu saklausa fólki, sem ég veit innst inni að á það ekki skilið?

En svo átta ég mig á hve auðvelt þetta er, í raun og veru.

Ég get notað allt það efni sem Sigmundur Davíð hefur alið af sér - en ég mun nota það til að útskýra hvernig Ísland var. Hér áður fyrr.

Því meirihluti þjóðarinnar - þessi meirihluti sem ævinlega hefur þurft að þola ofríkið, mun að sjálfsögðu rísa upp; nú reynslunni ríkari.

Vitandi það í dag sem þau vissu ekki í gær - fyrir sólarupprás þarf að þola myrkur.

Nýtt Ísland verður ekki byggt....

.... fyrr en búið er að tæta hið gamla í öreindir.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu