Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Uppgjör í KÍ: „Það er horft til okkar í húsinu.“

„Það er horft til okkar í Kennarahúsinu.“

Eitthvað á þessa leið hljómuðu fyrstu fréttir um möguleg framboð til formanns Kennarasambands Íslands. Sá sem talaði var formaður Félags grunnskólakennara. 

Síðan gerðist ekkert frekar lengi. Ég sjálfur sat spenntur og beið eftir framboði sem sprottið væri utan Kennarahússins. Það kom ekki. Loks lýsti formaður Félags framhaldsskólakennara yfir framboði. Til að langa sögu stutta benti allt til þess á síðasta degi að formaðurinn og ég yrðum ein í framboði. Þar til kom að kvöldi hins síðasta dags. Þá lýsti formaður Félags grunnskólakennara líka yfir framboði.

„Það er horft til okkar í Kennarahúsinu.“

Þessi ummæli vöktu athygli mína á sínum tíma. Þarna var talað eins og fyrir munn hóps. Eins og fólkið í húsinu væri eitt. 

Í því samhengi hlýtur framboð Ólafs Loftssonar á síðustu stundu að þykja athyglisvert. Það var þegar komið framboð úr Kennarahúsinu. Guðríður Arnardóttir var komin fram. Í framboði gegn henni virðist felast vantraust. 

Ég vissi auðvitað að ég, og einhver fjöldi (það á eftir að koma í ljós hve mikill) vildum alls ekki fela formanni Félags framhaldsskólakennara baráttulaust æðstu völd félagsins. Mig grunaði ekki að formaður Félags grunnskólakennara væri sama sinnis.

Þeim mun meira kemur þetta á óvart í ljósi þess að framboðshugmyndum Ólafs hefur aðeins verið hreyft. Þær hafa ekki beint verið að vekja lukku. Á stærsta vef grunnskólakennara kom á hann andvana fædd áskorun. Ég held hún hafi fengið innan við 20 læk. Það var allavega ekki úr þeirri átt sem þrýstingurinn á framboðið kom.

„Það er horft til okkar í Kennarahúsinu.“

 Það er doldið magnað við íslenska tungu hvað hún er margræð. Ég hef nefnilega ekki orðið var við þessa umræðu um að félagsmenn KÍ horfi til fólksins í Kennarahúsinu. Fylgist ég þó býsna vel með.

Skýringin gæti legið í hinni merkingu setningarinnar. Það er, að það sé alls ekki verið að horfa utanfrá til þeirra sem starfa í Kennarahúsinu – heldur að áhorfið eigi sér stað inni í Kennarahúsinu. Starfsfólk þar sé að horfa á mögulega frambjóðendur innan eigin raða.

Ef við skiljum þetta þannig þá er framboð Ólafs líklega alls ekki til marks um vantraust á Guðríði. Þá er allt eins líklegt að hann sé að reyna sitt besta til að tryggja henni gott gengi. Hann bíður fram á síðustu stundu til að sjá hvort framboðum fjölgi og býður sig svo fram í von um að með því klofni atkvæði grunnskólakennara. Það þýðir auðvitað að hann á sjálfur ekki endilega mikla möguleika á kjöri  – en hann getur í raun ekkert annað gert til að auka líkurnar á að manneskja í Kennarahúsinu geri það. 

Ef ég á að vera alveg heiðarlegur er mér alveg sama um ástæður Ólafs fyrir framboði. Hefði staðan verið sú á síðasta degi að hann og Guðríður hefðu verið í framboði hefði ég ekki hikað við að bjóða mig fram. Það hefði ekki einu sinni þurft áskoranir til. Þetta er slagur sem einhver verður að taka og undirstrikar aðeins enn frekar þann kjarna kosninganna að hér er tekist á um breyttar áherslur eða áframhald þess sama – með ábót.

Ég er ánægður. Þetta er gott fyrir lýðræðið. Ég hefði viljað hafa þrjátíu frambjóðendur en ekki þrjá. Því fleiri frambjóðendur, þeim mun meira máli skiptir embættið félagsmenn. Ég vona að þetta sé aðeins byrjunin og að við fáum ennþá fleiri frambjóðendur í þau embætti sem losna á næstunni.

Um mína kosningabaráttu breytir þetta engu. Ég vil gera Kennarasambandið að innblásnara, betra og lýðræðislegra félagi. Ég vil að forystumenn þess geri ríkar kröfur til sín og séu prinsippfastir. Kosningabarátta mín verður heiðarleg. 

Eitt það fyrsta sem ég gerði eftir að ég lýsti yfir framboði var að segja mig frá störfum trúnaðarmanns á vinnustað mínum. Trúnaðarmaður er tengiliður skólans vegna kosninganna. Hann gæti jafnvel þurft að kynna þær með einhverjum hætti. Þar getur skapast hagsmunaárekstur og þess vegna steig ég til hliðar strax. Það var létt verk. Núverandi trúnaðarmaður er frábær.

Þegar mér varð síðan ljóst að stærsta spjallsíða grunnskólakennara ætti að verða vettvangur þess að spurningum væri safnað saman sem lagðar yrðu fyrir frambjóðendur lét ég vita af því að ég yfirgæfi hópinn í bili. Bæði vegna þess að ég teldi óeðlilegt að ég hefði forskot á aðra frambjóðendur varðandi slíkar spurningar – en þó aðallega vegna þess að spjallsíðan er eðlilegur vettvangur til að ræða frambjóðendur og málflutning þeirra og best fer á því að slíkt spjall fari fram án nærveru frambjóðendanna. 

Næsta verk var að segja stjórnendum í skólanum mínum að ég myndi að sjálfsögðu rækja allar mínar starfsskyldur þótt ég væri í framboði – og ekki vanrækja þau verkefni sem ég hef tekið mér á hendur.

Á föstudag talaði ég við útgáfustjóra Kennarasambandsins í síma. Hann var ósköp alúðlegur og við áttum notalegt spjall. Hann baðst afsökunar á því að opinber síða sambandsins hefði í hugsunarleysi lækað framboðstilkynningu Guðríðar. Hann nefndi einnig að hún hefði tilkynnt um framboð sitt til framhaldsskólakennara í tölvupósti. Sá póstlisti væri auðvitað trúnaðarmál en hann myndi beita sér fyrir að ég gæti kynnt mig þar einnig. 

Nú hef ég ekki séð umræddan tölvupóst en ég afþakkaði eftir skamma umhugsun tækifæri til slíkrar sendingar. Ég sagði að mér þætti í sjálfu sér ekki endilega óeðlilegt þótt formaður í félagi léti félagsmenn sína vita af áformum sínum. Fyrst og fremst hef ég þó barasta ekki nokkurn áhuga á að taka einn hóp kennara út fyrir sviga. Í félaginu eru margir hópar og mér er það kappsmál að þeir séu allir upplýstir með sama hætti. Þess vegna ætla ég ekki heldur að reka áróður í lokuðum spjallgrúppum sem aðrir frambjóðendur hafa ekki aðgang að vegna inntökuskilyrða. Það er ekki lýðræðislegt.

Útgáfustjórinn sagði mér einnig að starfs síns vegna bæri honum að sjá um kynningarmál frambjóðenda vegna kosninganna – en auk þess þyrfti starfsfólkið í húsinu að þjóna formönnunum með ýmsum hætti t.d. með aðstoð við greinaskrif. Ef ég vildi slíka þjónustu líka stæði mér hún til boða.

Ég afþakkaði það snarlega. 

Ég sagðist ætla að treysta fagmennsku starfsfólks hússins og því að kosningarnar og baráttan færu heiðarlega fram. 

Og það ætla ég mér að láta gerast.

Mér skilst að fyrsta mál á dagskrá sé kynningarmyndband. Þar verða frambjóðendur spurðir spjörunum úr. Þeir fá að vísu að velja spurningarnar sjálfir. Ég spurði ekki hvort þeir fengju hjálp við að velja spurningar.

Mér hreinlega óar við því að fara í slíkt viðtal – þar sem ég gef stoðsendingar á sjálfan mig og reyni að skalla í samskeytin – og mun þess vegna aðeins svara einni spurningu: „Hvers vegna býður þú þig fram?“ Ég ábyrgist ekki að svarið verði stutt.

Ég skal alveg viðurkenna að ég hef mjög sterklega á tilfinningunni að ég sé ekki í kosningabaráttu gegn tveimur einstaklingum – heldur kerfi. Og meira að segja kerfi sem er nokkuð áfjáð um að viðhalda sjálfu sér. 

Ég veit að meðal grunnskólastarfsmanna hefur ekki verið horft mjög stíft til þeirra í Kennarahúsinu með lausn á þeim vanda sem við höfum ratað í. Þvert á móti höfum við öll verið að leita lausna utan þess. 

Því er kannski öðruvísi háttað meðal leikskólakennara, framhaldsskólakennara, tónlistarskólakennara og stjórnenda. Ég bara veit það ekki. 

En lýðræðið er til að fá skorið úr slíkum málum. 

Nú hefst rússíbanareið. Ég mun gera mitt besta til að kynna mig og afstöðu mína. Fjöldi fólks hefur þegar boðið mér aðstoð. Mér þykir vænt um það. Það eru allir velkomnir um borð. En fyrst og fremst mun ég eiga við mína eigin samvisku og reyna að sofna sáttur á kvöldin. 

Ég veit líka að kennarar og stjórnendur skilja að sé kennslu sinnt eins og á að sinna henni þá gefast ekki tækifæri til mikillar fjarveru frá vinnu. Þess vegna er ekki von á mér hringferð um landið að reyna að heilla starfsfólk skólanna. Ef kennarar eru margir að liggja á slíkum sjóðum að þeir geti tekið sér ítrekuð eða löng launalaus leyfi – þá starfa þeir líklega eftir öðrum kjarasamningum en ég; og barátta mín er þá líklega helber misskilningur.  

Þess vegna skrifa ég þetta á sunnudagsmorgni.

Að þessu leyti grunar mig að ójafnt sé komið á með frambjóðendum. Bæði Ólafur og Guðríður geta – kjósi þau það – sinnt kosningabaráttu sinni á vinnutíma og jafnvel gert sér upp erindi út í skólanna eða til sendinga á trúnaðarpóstlista kennaranna. Þau geta jafnvel látið undirmenn sína í Kennarahúsinu semja fyrir sig ræður og greinar, eða bóka viðtöl í fjölmiðlum, á meðan þau sinna öðru. 

Ég myndi ekki gera það. Þannig ætti Kennarasambandið ekki að virka. 

En það er svosem ýmislegt bogið við það hvernig Kennarasambandið virkar.

Þess vegna er ég jú í framboði.

 


________________________________________________________________________
Lestu framboðstilkynningu mína hér

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni