Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Takk fyrir stuðninginn en...

Ég er hrærður yfir þeim stuðningi sem framboð mitt til formennsku í KÍ hefur hlotið. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er nánast við ofurefli að etja. Ég er einn af um tíu þúsund óbreyttum kennurum á landinu og ég er að keppa við tvo þrautreynda frambjóðendur sem hafa þéttriðið net á bak við sig. Ég hef mína rödd og ég hef mína hugsjón.

Síðustu daga hefur mér þó bæst liðsauki úr ýmsum áttum. Fólk vill vita hvort það geti lagt mér lið. Það vill gefa mér ráð. Það vill taka þátt.

Ég mun þiggja hjálp þar sem hún býðst.

Að því sögðu, og að gefnu tilefni, vil ég þó benda á þetta viðtal við mig úr Silfrinu frá því í mars síðastliðnum:

Þarna er ég að lýsa stöðunni sem upp var komin í kjaramálum okkar grunnskólakennara.

Ein af þeim meinsemdum sem ég ræði í viðtalinu er sú að samskipti kennara og sveitarfélaga hafa ítrekað verið dregin niður á hið pólitíska plan.

Ég er þeirrar skoðunar að pólitíkin á Íslandi sé bæði meingölluð og skaðleg. Þar viðgengst samskiptamynstur sem elur á sundrungu og óheiðarleika. Því miður hefur umræða um menntamál liðið fyrir það. Nú þegar sjáum við t.d. þess skýr merki að allrahanda spunameistarar eru tilbúnir með pólitíska þrætubókarlist til að spilla áliti almennings á kennurum í komandi kjaraviðræðum.

Kennarasamband Íslands á að vera faglegt en kraftmikið. Það á ekki að starfa eins og auglýsingastofa sem dælir frá sér andlausum sterílíseruðum auglýsingum í tilraun til að selja menntamál eins og þau séu tegund af mjólkursúkkulaði.

Menntapólitík er alvöru pólitík um grundallarmál. Hún verður að einkennast af staðreyndum og sanngirni. Hún má alveg vera ástríðufull og hún felur alltaf í sér átök. En hún á að vera laus við óheiðarleika og skrum.

Þess vegna vil ég að það komi skýrt fram að ég afþakka allan stuðning sem snýst um að leita að höggstað á persónum meðframbjóðenda minna. Ég mun ekki sökkva niður á það plan sjálfur og ég vil ekki að aðrir geri það heldur. Ef einhver heldur að hann geti hjálpað framboði mínu með því að draga fram eitthvað neikvætt í fari keppinauta minna þá er það misskilningur. 

Kennarar þurfa næstu vikur að fá að heyra hvaða framtíðarsýn þessir þrír frambjóðendur hafa. Þeir þurfa að heyra fyrir hvað þeir standa – og svo þurfa þeir að standa undir þeirri lýðræðislegu skyldu sinni að velja sér forystu.

Ég þakka öllum fyrir stuðninginn sem hann vilja veita, og mun finna einhverja leið til að fólk geti hrint stuðningnum í framkvæmd, en ég afþakka undantekningalaust allan stuðning sem felst í að grafa undan öðrum. Það verður ekki gert með mínu samþykki eða í mínu nafni.

Það stendur upp á mig að sannfæra meirihluta kennara um það að mín framtíðarsýn verðskuldi tækifæri. Hið sama ber hinum frambjóðendunum að gera. Það mun taka alla okkar orku. Ef við ætlum að eyða þessum dýrmæta tíma í að grafa hvert undan öðru, þá erum við um leið að grafa undan þeim stoðum sem tilvonandi formaður þarf að standa á í þeim verkefnum sem framundan eru. 

Á meðan stjórnmálastéttin á Íslandi eys skít í allar áttir ættum við kennarar að sýna að lýðræðið í okkar félagi er yfir slíkt hafið. Og þegar við förum að takast á við stjórnmálamennina í framhaldinu eigum við ekki að leyfa þeim að draga okkur niður í svaðið. Menntamálin eiga einfaldlega betra skilið.

Að lokum vil ég að það komi skýrt fram að ég skuldbind mig til að gangast fullkomlega við úrslitum kosninganna. Hljóti annað hinna kosningu mun ég viðurkenna þau úrslit greiðlega og hvetja stuðningsmenn mína til að gera hið sama. Markmið mitt er að KÍ komi sterkara út úr þessum kosningum en það fór inn í þær. Það er hagur okkar allra.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu