Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Stjórnmálafundur í skólanum

Stjórnmálafundur í skólanum

Fyrir nokkrum dögum gekk ég fram á rökræður í námsstund. Tvær stúlkur í 10. bekk voru að rökræða pólitík.  

Rökræðurnar héldu áfram næstu daga og svo fór á endanum að nokkrar stúlkur tóku sig til og buðu öllum flokkunum sem bjóða fram að mæta til fundar við nemendur og kynna sig. Þær vissu sem var að þar sem grunnskólanemendur hafa ekki kosningarétt gæti vel verið að einhverjir flokkar hefðu ekki áhuga á umræðum. Þær vildu vita hverjir það yrðu.

Þær fóru á fund skólastjóra og fengu stofu lánaða, pöntuðu kaffi og ávexti og fóru svo í að hringja í þá sem ekki höfðu svarað tölvupóstinum. Þær ákváðu að 10. bekkur þyrfti að mæta á fundinn en að 8. og 9. mætti það líka. Við kennararnir stóðum bara hjá og fylgdumst með. Réðum engu.

Allir flokkarnir sögðust koma. Fjórir þeirra skrópuðu. Það voru Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Flokkur fólksins og Dögun. Aðrir mættu. 

Fundurinn var góður og upplýsandi. Nærri helmingur nemendanna vildi ekki fara heim þegar skóladeginum var lokið og hélt áfram að yfirheyra frambjóðendur. Það vakti athygli mína hve málefnalegir og skýrir frambjóðendurnir voru. Ef stjórnmálamenn höguðu sér alltaf svona væri Ísland í betri málum.

Að lokum voru kosningar. Skrópagemlingarnir fengu engin atkvæði, enda var reglan sú að meta málflutninginn á fundinum. Bannað væri að kjósa bara þann sem maður hefði „haldið með“ fyrir fundinn.

Niðurstöðurnar eru þær að ef unglingarnir fengju að ráða færu kosningarnar þannig:

Píratar 24,4%

Samfylkingin 18,6%

Vinstri græn 16,3%

Viðreisn 14%

Björt framtíð 9,3%

Framsóknarflokkurinn 7%

Alþýðufylkingin 1,2%

Auðir og ógildir 9,3%

Samkvæmt þessu má búast við ríkisstjórn Pírata, Samfylkingar og Vg

Það ætti kannski að færa kosningarétt niður í 14 ár?

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni