Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Smalamenn Sjálfstæðisflokksins

Þegar lesnar eru erlendar fréttir um ástandið á Íslandi rennur manni kalt vatn milli skinns og hörunds. Þær eru flestar á þessa leið: „Ríkisstjórn Íslands fellur vegna barnaníðinga.“ 

Hér heima ríkir algjör glundroði. Að hluta til vegna þess hve grautarleg viðbrögð nærri allra stjórnmálamanna eru. Vegna þessa glundroða virka hrokafull og einstrengingsleg viðbrögð Bjarna Ben, þar sem hann byrstir sig undir gunnfána flokks síns með þingflokkinn allan andaktugan á áhorfendapöllum, nánast róandi. Einhverjir fyllast öryggiskennd – og vonast skömmustulega til þess að mega hvíla undir væng ránfuglsins að loknum næstu kosningum.

Ef við þysjum út eru viðbrögð Sjálfstæðisflokksins ömurleg. Sjálfstæðisflokkurinn sér ekki eftir neinu – ekki frekar en barnaníðingurinn sem steig fram í dagsljósið og studdi hann í þessum öldusjó. Erlendis staðfesta þessi viðbrögð hið vanþróaða og sjúka eðli íslenskra stjórnmála. „Ríkisstjórn Íslands fellur vegna barnaníðinga: Forsætisráðherra sér ekki eftir neinu“. Til heimabrúks munu þau hugsanlega duga til að drepa málinu á dreif.

Það er vegna þess að aðrir stjórnmálaflokkar hafa þegar gert í málinu mörg og margvísleg mistök. Sum mjög alvarleg. Líflína Bjarna í málinu er til dæmis rökstuðningur Bjartrar framtíðar fyrir stjórnarslitum.

Rökstuðningurinn var ekki á þá leið að hér hefði flokkurinn orðið uppvís að alvarlegum hagsmunaárekstrum og dómgreindarbresti. Nei, flokkurinn var sagður hafa brugðist Bjartri framtíð! Ekki þjóðinni eða þolendum ofbeldis. Þar með var allur slagkraftur úr þeirri upprisu.

Málið er það að Sigríður Andersen lak í samherja sinn óþægilegum upplýsingum – og í framhaldi af því hagaði flokkurinn störfum sínum með þeim hætti að allt var gert til að hindra að þessar upplýsingar kæmu fram í dagsljósið.  

Það er algjörlega fráleitt að halda því fram að það sé einhver glæpur í málinu að hún hafi ekki um leið lekið þessu í Óttarr og Benedikt. 

Hverju hefði það breytt? Síðan hvenær eiga ráðherrar að nota upplýsingar, sem koma á þeirra borð undir faglegu trausti, sem pólitíska skiptimynt? Ef Björt framtíð og Viðreisn hefðu fengið þessar upplýsingar og þess vegna hagað framgöngu sinni í málinu öllu með öðrum hætti (sleppt til dæmis þessari fáránlegu útgöngu) – er það aðeins fullkominn áfellisdómur yfir þessum flokkum. Athafnir þeirra, gjörðir og stuðningur í málinu er fullkomlega og algerlega á þeirra ábyrgð. Það skiptir engu máli þótt þeir hafi ekki vitað hverju Sigríður Andersen var að reyna að leyna – þeim bar að leyfa henni ekki að komast upp með það.

Á nákvæmlega sama hátt þurfa þessir flokkar nú að svara fyrir það hvernig þeir höguðu sér við skipan dómara í Landsrétt. Það var vitað að verið væri að brjóta lög. Málið var hrein og tær valdníðsla þar sem allir meirihlutaflokkarnir gengu gegn betri vitund. Það breytir engu um ábyrgð Viðreisnar og Bjartrar framtíðar þótt þeir hefðu ekki vitað nema eftir á af tengslum ráðherrans við a.m.k. einn aðila málsins. Það að þeir vissu af slíkum tengslum en hlýddu samt er einfaldlega endanlegur dómur yfir þessum flokkum. Þeir tóku virkan þátt í spillingunni – og gera þess vegna stór mistök í að slíta ríkisstjórn með rökum sem í raun og sann snúast um að þeim hafi misboðið að hafa ekki fyllilega verið með í hinum spilltu ráðum.

Ef glóra væri í Bjartri framtíð og Viðreisn hefðu flokkarnir gengist við sínum þætti í hinu óboðlega ástandi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið frumhreyfill í að skapa. Það er ekki nóg að rífa upp segl og beita í þann vind fullkominnar vandlætingar sem upp er komin í samfélaginu, nú þegar farið er að sjást gegnum gauðrifin leiktjöldin.

Stjórnarandstaðan virðist líka ætla að hjálpa Sjálfstæðisflokknum að ná vopnum sínum. Það er óskiljanlegt að flokkar hlaupi til og rífi upp stjórnarskrármálið! Hvað sem þörf fyrir stjórnarskrárbreytingar líður þá var það offors í nákvæmlega því máli sem hleypti Sjálfstæðisflokknum til valda á síðasta ári. Nokkur hópur velviljandi stjórnmálamanna er nánast alveg blindaður af því máli. Það að fara að hamast á því núna, þegar engar líkur eru á að það komist gegnum þingið, gerir ekkert nema rugla kjósendur, hræða þá – og senda heim í fang Sjálfstæðisflokksins.

Það er nýbúið að kynna fjárlög með stefnumörkun sem að mörgu leyti er kolgalin. Ef stjórnarandstaðan getur ekki fundið í sér skilaboð inn í þennan pólitíska glundroða, þótt ekki væri nema vegna þessarar viðbjóðslegu valdníðslu og leyndarhyggju, þá er hún einfaldlega ónýt. Megi hún þá rýma sviðið fyrir popúlistunum sem bíða með blóð á tönnunum eftir að komast að.

Það versta við erlendu fyrirsagnirnar er hve beinskeittar og grimmar þær eru. Þær eru eins og kraftmikill ljóskastari – það er ekki hægt að fela sig í skuggunum. Það er líka það besta við þær. Og ástæða þess að þær eru raunsannari lýsing á því sem íslenskur almenningur er að upplifa en hin ruglingslegu viðbrögð pólitískra flokka á Íslandi.

Með viðbrögðum sínum (eða viðbragðsleysi) eru fulltrúar flestra flokka enn á ný komnir í gamalkunnugt hlutverk smalamanna Sjálfstæðisflokksins.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu