Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Sannleikurinn, réttlætið og listin.

Þegar grunnskólakennarar stóðu í sinni kjarabaráttu síðasta vetur vakti það töluverð viðbrögð í samfélaginu. Stuðningsyfirlýsingum rigndi yfir kennara og smám saman byggðist upp nægur þrýstingur til að afstýra ósköpum (eða slá þeim á frest).

Mín eftirlætisstund í ferlinu öllu var frekar lágstemmd. Þann 28. nóvember mættu nokkuð innan við hundrað manns í Iðnó. Þar hafði verið boðaður fundur til stuðnings grunnskólakennurum. Það voru kennarar og stjórnendur í tónlistarskólum sem boðuðu fundinn.

Það voru nokkur viðbrigði og vonbrigði hve fáir mættu. Skömmu áður höfðu grunnskólakennarar haldið risastóran fund sem sprengdi Háskólabíó utan af sér.

Fundurinn var samt góður. Það voru framsögur (ég hélt eina þeirra) og eins og við var að búast var tónlist í aðalhlutverki.

Þetta var falleg stund og notaleg – og það var gott að finna hlýjuna sem streymdi frá tónlistarskólafólkinu til okkar grunnskólakennara. Skilaboðin til okkar voru skýr. Menntun er menntun. Það er verkefni okkar allra að berjast fyrir henni. Við stöndum við bakið á ykkur.

Ég held ég fari rétt með að enginn úr forystusveit grunnskólakennara eða KÍ hafi mætt á fundinn (sem var opinn). Ég tók allavega ekki eftir neinum. Fjölmiðlar voru þarna og umfjöllunin var góð. 

Á fundinum fann ég samviskubit gróa innra með mér. 

Á þessum tímapunkti var búið að neita tónlistarskólakennurum um kjarasamning í meira en ár. Samband sveitarfélaga sagði einfaldlega nei við öllu. Hluti af ástæðunni var sú að litið var á þá sem afgangsstærð. Excel-tröllum sveitarfélaganna stafaði engin ógn af heimi án tónlistar.

Ég hef áður vitnað til þeirra orða Páls Skúlasonar að önnur lögmál gildi um peninga en þekkingu. Þekking falli í flokk með ástinni, sannleikanum og réttlætinu. Um allt þetta gildi önnur lögmál en hagkvæmnislögmál.

Ég hef líka talað áður um stóra rannsókn við Háskólann í Birmingham sem leitt hefur í ljós að listin efli siðferðið (og ég ræddi hana enn í framsögu minni á fundinum). Það að syngja í kór eða leika í leikriti skapar í sálinni samhljóm með öðru fólki. Og nemendur sem taka þátt í slíku mælast á vönduðum prófum með meira siðferðisþrek en börn sem fara á mis við slíkt. Engin sérstök bætandi áhrif mældust af hópíþróttum. Það kom mörgum á óvart.

Þessi fundur staðfesti þetta allt. 

Á þeim 380 dögum eða svo sem tónlistarskólakennarar höfðu verið án samnings þegar aðgerðir grunnskólakennara hófust fyrir alvöru höfðu þeir engan stuðning fengið frá okkur. Þeir höfðu hrópað og kallað á hjálp, skrifað greinar og deilt veggmyndum á samfélagsmiðlum. En fáir virtust hlusta og enn færi höfðu áhuga.

Þrátt fyrir það voru þeir fyrstir til að styðja við grunnskólakennara þegar ljóst varð að þeir þurftu á hjálp að halda.

Sá sem heldur að skólakerfið eða samfélagið geti verið án listar – getur allt eins viljað samfélag án siðferðis og án ástar. Sem um leið verður samfélag án sannleika og réttlætis.

Þegar Kennarasamband Íslands var stofnað voru ákveðnar efasemdir um tilgang þess. Einstakir hópar innan kennara hafa reiknað það út að þeir hafi meira vogarafl einir þegar kemur að glímunni um peninga. Það sé hagkvæmara.

Það má vel vera.

En kjarnatilgangur Kennarsambands Íslands er ekki hagkvæmni. Það mikilvægasta sem sambandið höndlar með er ekki peningar. 

Kjarnatilgangurinn er fólk. Og þótt peningar séu nauðsynlegir þá mega þeir aldrei yfirskyggja ástina, sannleikann og réttlætið – og listina.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu