Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Salek 2.0

Fjármálaráðaherrann hefur tilkynnt hernaðaráætlun sína fyrir komandi kjaraviðræður. Henni er best hægt að lýsa sem Salek 2.0.

Koma á í veg fyrir launahækkanir með öllum tiltækum ráðum. Launabætur eiga að felast í almennum áhrifum mögulegrar kaupmáttaraukningar. Þá komi til greina að breyta skattkerfinu þannig að hinir tekjulágu fái til baka eitthvað af þeim peningum sem teknir hafa verið af þeim hin síðari ár.

Stefnt er að því að koma í veg fyrir höfrungahlaup með því að láta alla hoppa á sama tíma. Þeir sem hafa lausa kjarasamninga á undan öðrum skulu gera stutta samninga svo allir séu að semja við lok Salek-tímans.

Þá vill ráðherrann hætta að líta á kjarasamninga sem raunverulega samninga. Hann vill skipta þeim út fyrir kjarasamstarf. 

Það kann að virka undarlegt að frjálslynd, hægri sinnuð ríkisstjórn vinni að því markvisst að koma á nánast sovésku alræðisskipulagi á vinnumarkaði. Enda er það undarlegt. Það er líka ekki gert hræsnislaust.

Sú var tíð að fjöldinn varði launþega gegn ofríki og veitti þeim vogarafl í hinni eilífu baráttu við þrönga hagsmuni þeirra sem þurfa á vinnuafli að halda. Sú tíð er runnin upp að fjöldinn vinnur gegn launafólki.

Vinna við kjarasamninga er löngu hætt að snúast um að hópar vinnandi fólks komi kröfum sínum á framfæri og fylgi þeim eftir með aðstoð fulltrúa sinna. Kjarasamningagerð hefur öðlast sjálfstætt líf. Teknókratar hoppa tifandi fótum um töflureikna í leit að niðurstöðu. Í sumum stéttarfélögum, t.d. hjá okkur kennurum, er það orðin tíska að hinn almenni félagsmaður viti ekki einu sinni hverjar kröfur þeirra eigin fulltrúa eru. Og samningar eru viljandi hafðir svo flóknir að flestir vita ekki fyllilega hvað þeir eru að samþykkja eða hverju að hafna.

Vegna þess að launamenn ferðast að þessu leyti um í stórum hjörðum er auðvelt að hafa stjórn á þeim. Hjarðir eru ekki einkenni rándýra. Það eru bráðir sem ferðast um í hjörðum. Rándýr ferðast ýmist einsömul eða í litlum hópum. Kjararándýrin eru eins að þessu leyti.

Ríkið hefur á sínum snærum fjölda rándýra. Þau semja um sín eigin laun eða laun lítils hóps. Þau fá nokkurnveginn það sem þau langar í. Dónalega háar greiðslur flæða úr sjóðum hins opinbera í vasa slíks fólks. Þeim mætir nánast engin fyrirstaða.

Þegar stórar stéttir ganga fram á völlinn eru þær þunglamalegar og hægar. Rándýrin hlaupa hringi utan um þau vitandi það að fjöldinn eykur skriðþungann – en að skriðþungi er aðeins hættulegur ef hlassið kemst á fljúgandi ferð. Aukinn skriðþungi veldur því líka að erfiðara er að koma hlutunum á hreyfingu til að byrja með.

Nú vantar ekki að eldar vanþóknunar logi í mögum launamanna á Íslandi. Laun eru hér lág og vinnudagurinn langur. Það er illa farið með gamalt fólk, sjúka og öryrkja. Menntun er kerfisbundið lítilsvirt. Við erum til skammar í skyldum okkar gagnvart flóttafólki. Þá er stunduð nánast gegndarlaus rányrkja á almenning – og sú litla samkeppni sem hér er stendur höllum fæti gagnvart spillingu.

En ekkert tekur dampinn úr baráttu fólks hraðar og hressilegar en það að blása gufu í tíð og erg. Stuðningsmönnum óbreytts ástands stafar ekki ógn af tuði og neikvæðni. Þvert á móti kemur það í veg fyrir að spennumyndun.

Tillögur fjármálaráðherra eru ætlaðar til þess að skapa hér kjörlendi rándýra. Hér á að búa til hjarðir fólks sem þrammar einum takti frá vöggu til grafar án þess að láta hugmyndir um réttlæti trufla tilfinningalíf sitt verulega. Efasemdafólki er mætt með því að flagga merkjum Costco eða H&M framan í það. Það getur ekki verið slæmur heimur sem gerir manni kleift að kaupa kíló af jarðarberjum fyrir klink.

Á sama tíma eykst hryggskekkja íslensks samfélags. Fólk er ýmist húsnæðislaust eða umkringt myglusveppum. Þú ert heppinn ef alvarlegir sjúkdómar kosta þig ekki aleiguna og lífið. Menntakerfið riðar til falls.

Og nú á Salek 2.0 að tryggja að launahækkanir komi ekki til álita í neinum björgunaraðgerðum. Allir skuli sætta sig við stöðu sína og ganga brosandi til móts við opnun næstu erlendu vörukeðju sem kemur hingað í krafti þess orðspors að Íslendingum sé ekkert ljúfara en að skiljast við aurana sína.

Það er endanleg sönnun þess að hópar íslenskra launamanna eru ekki aðeins hægfara – heldur í mikilsverðum skilningi dauðir – ef það tekst.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni