Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Réttlæti af handahófi

Einn vinkill á umræðu um samræmd próf er sá að prófin megi nota til að stuðla að jafnræði meðal þeirra nemenda sem sækja um eftirsóttustu skólana. Ég vil reyndar meina að sá afmarkaði nemendahópur fái miklu meira en þá þjónustu sem þeim ber í grunnskólakerfinu enda eru áherslur og efnistök meira og minna miðuð við þá. En það eru samræmd próf reyndar líka. Þess vegna má halda þeirri röksemd fram af alvöru að slík próf séu á sinn hátt góður mælikvarði á þá eiginleika sem eftirsóttir skólar sækjast eftir. Einnig vegur hér þungt ranglætið sem felst í því að sumir af þessum nemendum hafa kennara sem grimmari eru í einkunnagjöf við lok grunnskóla. Slíkir nemendur virðast eiga réttlætistilkall til þess að verða ekki eftirbátar slakari nemenda í umsóknarröðinni.

Augljóst andsvar við þessu er að árangur á samræmdum prófum er alltof þröngur mælikvarði til að hægt sé með einhverri alvöru að fullyrða að þar með sé fallinn stóri dómur um námsmanninn sem slíkan. 

Á móti má samt auðvitað ítreka að ekkert réttlæti sé í því að sumir grunnskólakennarar gefi lægri einkunnir en aðrir fyrir sambærilegan árangur.

Öll þessi rökræða hnígur þó frekar að því að nemendur virðist eiga einhverskonar sanngirniskröfu á að vera metnir á svipaðan hátt inn í framhaldsskóla. Það er þess vegna ekki alveg úr lofti gripið að samræmd próf auki sanngirni inntökunnar í vinsæla framhaldsskóla.

Allt byggir þetta þó á þeirri frumforsendu að inntaka í framhaldsskóla snúist um réttlæti. Í þessum tilfellum sem um er að ræða gerir hún það nefnilega ekki í veigamiklum atriðum.

Ég veit aðeins um Versló sem lýst hefur því yfir að samræmd próf verði notuð við inntöku. Ef lýsing skólans á inntökuferlinu er skoðuð kemur þó ansi undarleg mynd í ljós:

Það er lykilatriði í réttlátri keppni að leikreglur séu þekktar fyrirfram. Af upplýsingum frá Versló að dæmi er ljóst skólinn virðist áskilja sér rétt til að taka nemendur inn á hvaða forsendum sem er, jafnvel af handahófi. 

Það er alveg ljóst að notkun samræmdra prófa við að gera upp á milli nemenda getur aldrei haft verulega mikil réttlætisáhrif í kerfi sem ekki var réttlátt til að byrja með. Það er til dæmis ekki réttlátt að stúlku sé hafnað á þeirri einu forsendu að hún er stúlka – og að skólinn vilji frekar fá inn strák. Það er samt gert – kerfisbundið.

Það sem Versló er að gera með þessu er að hanna skólasamfélag í þeim anda sem stjórnendur skólans sækjast eftir. Háar grunnskólaeinkunnir eru aðeins einn liður í því. Skólinn setur sér ýmis önnur markmið og beitir jafnvel handafli til að ná þeim fram.

Í reglugerð um inntöku í framhaldsskóla kemur skýrt fram að meginreglan er sú að öll börn eigi rétt á inngöngu í framhaldsskóla. Hinsvegar er gerð grein fyrir því að í skólum skuli reknar fjölbreyttar námsbrautir og að gera megi sérstakar kröfur séu þær nausðynlegar vegna námsins á brautinni. Þannig má t.d. gera kröfu um íþróttaiðkun og -árangur á afreksíþróttabraut.

Það er ekki andi laganna að skólar megi velja börn inn í skólann eftir handahófskenndum atriðum. Og það er raunar stórvarasamt. Fari svo að skólar fari að velja inn nemendur eftir því hvort þeir hafi náð árangri í íþróttum, ferðast um heiminn eða lært á hljóðfæri – þá erum við í raun farin að mismuna nemendum eftir efnahag. Það getur vel verið að það sé eitthvað sem við sem samfélag getum sætt okkur við, það þarf samt að ræða töluvert mikið. Því alveg eins og Versló þá erum við meðvitað að skapa samfélag framtíðarinnar með tilhögun skólamála. Og ég verð að segja fyrir mitt leyti: Mér hugnast betur það samfélag þar sem hæfileikar eru fangaðir hvar sem þeir finnast og að þú getir treyst á réttlátan framgang í lífinu hvort sem bakland þitt í upphafi er sterkt eða veikt.

Ég sé svosem mörg merki þess að þetta sé minnihlutaskoðun í íslensku samfélagi. Það finnst mér skítt.

Lausnin á vanda Versló er einföld. Í stað þess að teyma Menntamálastofnun og ráðherrann í þá fáránlegu vegferð að sveigja almenna skólakerfið enn einu sinni til þjónustu við einsleita og ofalda skólagerð, þá getur skólinn einfaldlega tekið upp inntökupróf.

Mig grunar samt að hann vilji það ekki. 

Hann er nefnilega að komast að því að vinsældirnar rista hvorki djúpt né eru endilega svo fastar í sessi.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu