Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Kosningaumræða um menntamál

Það leit lengi út fyrir að stjórnmálamenn yrðu ekki neyddir til að ræða menntamál fyrir þessar kosningar. Raunar fór svo að sjálfsprottinn hópur hafði samband við stjórnmálaflokkana til að reyna að fá opinn fund. Eftir það vöknuðu KÍ og Menntavísindasvið og boðuðu til fundar. 

Það var heldur fámennt á fundinum svo það segist alveg eins og er. Það var dálítið lumbrað á stjórnmálamönnunum en í sjálfu sér kom óskaplega lítið út úr þeim sem tönn á festir. Núverandi stjórnarflokkar voru auðvitað í mestum vanda enda nýbúnir að svíkja framhaldsskólann um það fé sem ítrekað og hátíðlega var búið að lofa. Viðbrögð Bjartrar framtíðar var að segjast vera með móral yfir því, Sjálfstæðisflokkurinn kenndi Viðreisn um og Viðreisn kenndi Sjálfstæðisflokki um.

Það er auðvitað mun meiri sómi að viðbrögðum Bf en hinna flokkanna að þessu leyti. Sá, sem uppvís verður að svikum, fær ekki traustið til baka ef hann neitar að axla ábyrgð á svikunum.

Alþýðufylkingin og Dögun fengu af einhverjum ástæðum ekki að vera með (meira að segja 10. bekkingarnir okkar buðu þeim, því mikilvægt væri að bjóða öllum). Ástæðan var sú að þeir töldust ekki eiga „raunhæfa möguleika“ á kjöri. Það er misráðin afstaða. Svona fundur má ekki bara snúast um það hverju þeir ætla að lofa sem munu fá völdin. Svona fundur verður að vera umræða um menntamál, stöðu þeirra og stefnu. Það þýðir ekkert að tala um þessi mál í pólitískum stefnuræðum og frösum og ætla að leggja mat á slíkt eitt og sér. 

Menntakerfið stendur í ljósum logum – og ef umræðan nær engri dýpt eða er afgreidd með fljótaskrift er það eins og að pissa á logana. Þess vegna áttu sjónarmið í gær að vera fleiri en færri. Meiri þátttaka fólks í sal hefði verið æskileg. Ég sá fólk rétta upp hönd (þ.á.m. frambjóðanda Alþýðufylkingarinnar) sem gengið var skýrt og greinilega framhjá.

Sem dæmi um hve lítill þróttur er í menntamálaumræðu fyrir þessar kosningar má nefna að í þætti sem hvetja á ungt fólk til að kjósa hafa allir frambjóðendur hingað til fengið bestu einkunn fyrir stöðu sína og stefnu í menntamálum. Nú er auðvitað ekki hægt að ætlast til að einn þáttur eða þáttargerðarmaður hafi fullkomna yfirsýn í öllum málaflokkum – en það þarf nánast að stinga úr sér augun til að sjá ekki að stefna og staða stjórnmálaflokkanna þegar kemur að menntun er hreint ekki í lagi.

Sem dæmi um eitthvað sem ekki er í lagi má nefna að fulltrúi Viðreisnar mætti á svæðið og nánast kastaði rekunum yfir gröf leikskólakennarastarfsins. Félagsmálaráðherra var svosem búinn að gefa það í skyn þegar hann sagði að langtíma vandi leikskólanna væri samhengisleysi menntunarkrafna og launa. 

Spurð um hver launin ættu að vera sagði Þorgerður Katrín að þau ættu að vera þau sem þau eru í dag*. Brýna verkefnið núna væri að efla mannskapinn í leikskólunum sem ekki er leikskólakennaramenntaður.

Hér hefur afhjúpast endanlega pólitískur vilji ráðamikilla afla í atvinnulífi (og pólitík) til að endurskilgreina leikskólann á Íslandi og leggja á hliðina þá stefnu sem búið var að marka. Leikskóli er geymsla fyrir atvinnulíf. Launin eru nógu há. Allt þetta menntaða fólk sem kveðið er á um í lögum er óraunhæft og óþarft.

Menntamál eru ekki forgangsmál í þessum kosningum. Þau detta inn á lokametrunum vegna þess að þetta er akur sem ekki var búið að plægja á fyrri stigum. Það var þess virði að stinga niður skóflu.

Menntamál hljóta samt að verða stórmál að loknum kosningum. Kerfið er að hrynja. Stjórnvöld hafa brugðist. Þau geta afsakað sig að einhverju leyti með hruninu – en sú afsökun dugar ekki lengur. Nú er kominn tími til að ræða þessi mál af fullri alvöru og án þess að flokkarnir fái broskall eða lófaklapp fyrir yfirborðskennda frasa.

Þessi kosningafundur var í raun óþarfur. Það er gagnslítið að heyra hvað flokkar í kosningabaráttu hafa um mál að segja. Ég hlakka til að heyra hvað þeir hafa að segja eftir kosninar. Þótt það sé ekki annað en það að þeir séu loks tilbúnir að hlusta.

 

*Þorgerður sendi frá sér tilkynningu í dag (23.10.) um að hún hefði misheyrt spurninguna og talið að verið væri að spyrja hver launin væru í raun og veru en ekki hver þau ættu að vera. Því er hér komið á framfæri.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni