Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Glórulausir spunamenn

Borgarstjórinn í Reykjavík var ekki fyrr búinn að gera díl við sjálfan blekkingaprinsinn Ólaf Ólafsson í því skyni að leysa húsnæðisvandann í Reykjavík þegar hann tók sér stöðu við hlið menntamálaráðherra í því skyni að varða leið úr þeirri djúpu mannauðskreppu sem grunnskólakerfið er í.

Miðað við frásagnir af fundinum eru þeir félagar í fullkominni þoku. Og það sem meira er, í stað þess að ræða þessi mál af þeirri alvöru sem þau krefjast reynir borgarstjórinn að spinna gisinn, pólitískan vefnað.

Hann gefur sumsé í skyn að yfirvofandi kennaraskortur sé starfandi kennurum að kenna. Þeir séu svo ömurlegrir og neikvæðir samstarfsmenn að unga fólkið hreinlega nenni ekki að vinna með þeim. 

Menntamálaráðherrann ætlar að leysa málið með því að athuga hvort ekki megi bjóða leikskólakennurum eða framhaldsskólakennurum að kenna í grunnskóla – enda sé kennsla bara kennsla og það skipti ekki öllu máli hvort nemendurnir eru fjögur fet eða sex.

Um menntamálaráðherrann er það að segja að hann virðist ekki vita neitt. Það er ekki nóg að standa bara upp og klifa á því að maður hafi engar áhyggjur af verkefninu. Ef hann vissi hverju hann stendur frammi fyrir þá hefði hann áhyggjur.

Framhaldsskólakennarar munu ekki streyma til kennslu í grunnskóla nema kjörin batni töluvert jafnvel þótt þeir hafi til þess öll réttindi. Og enn síður getur grunnskólinn sótt í eitthvert offramboð af leikskólakennurum. Það vantar 1000-1500 leikskólakennara til starfa í leikskólum! Leikskólinn er ekki aflögufær. Ef einhversstaðar er hópur kennara sem sækja má í eru það þær þúsundir grunnskólakennara sem leitað hafa í önnur betur launuð störf.

Það segir annars heilmikið um borgarstjórann að hann skuli koma fram á þessum tímapunkti og byrja að spinna þráð um að skólinn sé í vanda vegna þess að kennarar séu svo neikvæðir. Það er nefnilega svo að nú fer bráðum að verða hálfnað vopnahlé kennara og sveitarfélaga. Öll sú vinna sem fara átti fram í vopnahléinu til að byggja á frið til frambúðar hefur farið meira og minna vaskinn og gert illt verra. Reykjavíkurborg hefur því miður gersamlega klúðrað verkefninu. Heilu skólarnir standa í ljósum logum, klofnir í herðar niður vegna trúnaðarbrota og fúsks. Víða hefur fleygur verið rekinn milli skólastjóra og kennara og þau afkvæmi sem vinnan hefur fætt af sér eru, fyrirsjáanlega, flest beisk, neikvæð og ljót. Það hlaut eiginlega alltaf að fara þannig. 

Það er glórulaust að vinna hlutina með þeim hætti sem nú er verið að gera. Það er líka glórulaust að tveir af valdamestu mönnum landsins skuli koma fram til að ræða raunverulegan og brýnan vanda og hafa ekkert fram að færa annað en falsbros og stjórnmálaspuna.

Það er raunverulegt og djúpt sár í skólakerfinu. Það hefur fengið að ágerast. Einmitt vegna þess að fólk hefur neitað að horfast í augu við vandann og takast á við hann. 

Vandinn liggur ekki í ímynd kennarastarfsins. Vandinn liggur í kjarna þess. 

Það þarf raunverulegar og alvarlegar björgunaraðgerðir.

Menntamálaráðherrann og borgarstjórinn eru því miður líklega í hópi þeirra manna sem þar geta minnst orðið að gagni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni