Blogg

Formannsstaðan í KÍ

Í kvöld var auglýstur fundur með frambjóðendum til varaformanns KÍ. Ég komst því miður ekki. Ég frétti þó að í kvöldfréttum Rúv hefði komið fram að ég yrði til umræðu. Ég hefði gjarnan viljað vita það fyrir, þá hefði ég breytt skipulaginu til að komast. Ég fékk síðan í kvöld sendan póst um það að stjórn KÍ ætlaði að funda um mál mitt. Mál mitt er semsagt það að ég var sakaður um blygðunarsemisbrot.

Einhversstaðar sá ég því haldið fram að þetta hefði fólk þurft að vita fyrir formannskosningar.  Það væri ekki hægt að hafa formann sem hefði verið sakaður um ofbeldi eða áreitni í starfi sem kennari. Punktur.

Gott og vel. 

Förum yfir stöðu mála.

Þann 16. október hóf ég kosningaframboð mitt hér á þessari síðu. Þegar kynningarvefur KÍ opnaði tengdi ég á þessa síðu og hvatti fólk til að lesa það sem hér er skrifað. Fyrsta færsla mín í framboðinu var grein þar sem ég lýsti þessum ásökunum og sagði að ungur maður hefði sakað mig um að hafa sýnt sér klám. Þann pistil lásu mörg þúsund manns.

Báðir meðframbjóðendur mínir hafa líklega lesið pistilinn líka. Þeir hefðu hvenær sem er getað komið því á framfæri að ekki væri við hæfi að kennari sem hefði verið sakaður um slíkt væri í framboði til formanns. Þeir gerðu það ekki, allavega ekki svo ég yrði var við. Það skýrist kannski ekki síst af því að ég tilkynnti stjórn KÍ um kæruna þegar hún kom fram fyrir tæpum fjórum árum. Þar á bæ hafa menn vitað að ég var kærður fyrir blygðunarsemisbrot árum saman. Stjórn KÍ hefur meira að segja fundað um það einu sinni. Þegar hún var að velta því fyrir sér hvort hún ætti að taka þátt í því með lögmönnum mínum að sækja rétt minn. Hún ákvað að vera ekki með. Ólafur Loftsson sagði að það hefði verið vegna þess að ég hefði fengið loforð fyrir því að lögmennirnir myndu starfa frítt fyrir mig – og því þyrfti ég ekki aðkomu KÍ. Annars hefði mér verið vís stuðningur.

Það hefur semsagt legið fyrir árum saman að ég hafi orðið fyrir umræddri ásökun. Stjórn KÍ vissi það – og allir sem kynntu sér framboðsefni mitt líka. 

Það getur því ekki verið það að ég skyldi verða fyrir slíkri ásökun sem skyndilega skapar gerbreytta stöðu. 

Það sem hefur hinsvegar gerst er að drengurinn sem lagði fram ásökunina hefur fengið pláss í fjölmiðlum til að halda henni fram þar.

Ásökunin er ósönn. Atburðirnir sem hann lýsir áttu sér aldrei stað. Kærunni var vísað frá og í málalýsingu eru lýsingar sem eru ósamrýmanlegar við þann tíma sem atvikið átti að hafa átt sér stað. Auk alls þessa var ég rannsakaður af öllum barnaverndaryfirvöldum og skólayfirvöldum í sveitarfélögum sem ég hef búið frá því ég var tvítugur. Einnig nýtti Barnaverndarstofa frumkvæðisrétt til að skoða málið. Allar skrár lögreglu voru skoðaðar. Allt gerðist þetta með mínu leyfi og að minni áeggjan.

Ekkert misjafnt fannst. Ekki nokkur skapaður hlutur. Enda er ég saklaus.

Fjöldi kennara er sakaður um einelti, ofbeldi eða áreitni. Margir þeirra eru saklausir. Þetta vitum við sem störfum í skólum. Ég vinn með nokkrum aðilum sem þetta á við um. Ég þekki enn fleiri og hef upp á síðkastið fengið bréf frá allnokkrum í viðbót. Kennarasamband Íslands er hagsmuna- og réttargæslufélag þessara kennara. Því ber að styðja við þá.

Nú er því haldið fram í alvöru að sá sem verði fyrir slíkri ásökun sé þar með ógjaldgengur í æðstu embætti félagsins. Ég er algjörlega ósammála því. Af prinsippástæðum. Kennarasamband Íslands er ekki auglýsingastofa eða stjórnmálaflokkur. Starf þess á að byggja á grundvallarreglum og heiðarleika. 

Ástæða þess að ásökunin gegn mér er opinber er sú að ég hef í málinu öllu tekið þann pólinn í hæðina að liggja ekki í skömm og sektarkennd og tala um málið upphátt. Það gerði ég til að reyna að styðja við aðra í sömu stöðu. Það gerði ég vegna þess að ég er saklaus – og þarf ekki að skammast mín fyrir neitt. 

Ég hef komið fram í þessu máli af fullkomnum heiðarleika og gegnsæi. Mér var sagt þegar ég fór í framboð að innan Kennarasambandsins væri fólk sem myndi brenna Kennarahúsið fyrr en mér væru réttir lyklar. Mér var sagt að öllum bolabrögðum yrði beitt. 

Nú segist stjórn KÍ þurfa að funda vegna þess að ég hafi verið sakaður um blygðunarsemisbrot – eftir að hafa vitað það í mörg ár. 

Ég veit ekki hvað mér á að finnast um það.

Það kom engin ásökun fram um helgina sem ekki hafði komið fram áður. Það var mitt fyrsta verk í kosningabaráttunni að segja frá henni. Ég hef verið fullkomlega heiðarlegur um öll þessi mál, þótt þau hafi verið erfið. Mér skilst á því sem ég les að einhverjir haldi að þetta séu nýjar ásakanir, eitthvað sem þurfi að skoða – og svo sjá til. 

Ég hef tuttugu ára flekklausan feril í kennslu – og eina fráleita, falska ásökun um að hafa sýnt dreng kúkaklám. Náinn samstarfsmaður minn hefur unnið við kennslu í innan við helming þess tíma og hann hefur tvisvar þurft að verja sig gegn fölskum ásökunum. Hann yrði frábær formaður – og ég vona að hann verði það í fyllingu tímans.

Það er útilokað að reka réttindasamtök kennara með þeim hætti að menn eigi engan kost á frama vegna þess að þeir hafi ekki verið svo heppnir að sleppa við þá andstyggilegu hliðarverkun starfsins okkar sem rangar ásakanir eru. 

Ég lofaði minni pólitík og meiri heiðarleika í mínu framboði. Ég hef verið hrottalega heiðarlegur. Ég fékk hreinan meirihluta atkvæða. 

Meiri heiðarleiki krefst staðfestu – líka þegar það er erfitt. Þetta mál hefur verið fjandi erfitt. En ég hef staðið það af mér og ég hef haft allt uppi á borðum. Þess vegna skrifaði Vísir þessa hörmulega illa unnu og vondu frétt sem úir og grúir af rangfærslum og hreinum ósannindum. Fréttamennirnir héldu því fram að kennari sem heldur því fram opinberlega að hann hafi ranglega verið ásakaður um eitthvað skuli þá um leið vera ásakaður opinberlega. Vinnubrögðin eru skammarleg og fréttin er það líka.

Það eru köld skilaboð til þeirra tuga eða hundruða kennara sem eru í sömu eða svipaðri stöðu og ég. Haltu kjafti og láttu lítið fyrir þér fara ef þú ert sakaður um eitthvað – annars ert þú dragbítur á stéttinni og átt ekki rétt á frama.

Nú munu tveir frambjóðendur til varaformanns hafa lýst því yfir að þeir treysti sér ekki til að vera staðgenglar mínir vegna þessa máls. Það er synd, því þetta eru einkar frambærilegir frambjóðendur. Raunar alveg frábærir. Ég skora á þá að endurskoða afstöðu sína. En það eru fjórir mjög flottir frambjóðendur þar fyrir utan. 

Ég mun ekki skapa það fordæmi að forysta KÍ megi ekki hafa orðið fyrir þessari tegund ofbeldis í starfi. Það kemur bara ekki til greina. Ég hef ekkert rangt gert – annað en að vera kannski of hreinskiptinn.

Ég held að það sé kominn tími á heiðarlegri forystu í KÍ. Að minnsta kosti heiðarlegri en svo að menn þykist mjög hissa og skelli á neyðarfundum vegna frétta sem þeir fengu fyrir fjórum árum en hafa ekki haft pólitískan hag af að blása upp fyrr en nú.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið í dag

Fréttir

Vilhjálmur fékk 3,4 milljónir endurgreiddar – Þingmenn hæðast að umræðunni

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Viðtal

„Neita að eyða allri ævinni í að vinna fyrir einhvern steinkassa“

Viðtal

Keypti brúðarkjól og bað Guð um mann

Fréttir

Guðmundur rak Sif í kjölfar umfjöllunar um bætur til brotaþola

Listi

Fimm réttir úr fortíð og nútíð

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Vilhjálmur fékk 3,4 milljónir endurgreiddar – Þingmenn hæðast að umræðunni

Fréttir

Stjórnun kynferðisbrotadeildar ábótavant – Sigríður skipti yfirmanni út fyrir stjórnanda með minni reynslu af rannsókn kynferðisbrota

Fréttir

Borgarstjórinn vísaði Eyþóri Arnalds af fundi í Höfða

Fréttir

Ferðaþjónustubændur í máli við Íshesta

Pistill

Karlar að spara okkur pening

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri