Maurildi

Grunsamlega lítið hefnigjarn?

Við búum í ofbeldissamfélagi. Síðustu dagar og vikur hafa staðfest endanlega hve gegnsýrt samfélagið er af áreitni og ógeði. Það er stórt verkefni framundan við að laga til – og draga lærdóm af þeim fjölmörgu sögum hugrakks fólks sem nú stígur fram.

Það var fyrst árið 2010 sem ég man eftir fyrst því að opinberlega hafi verið fjallað um þá viðkvæmu stöðu sem kennarar eru í. Þeir eru beittir ofbeldi. Það er kerfislægt vandamál. 

Árið 2013 eða 14 man ég að það birtist frétt um að ofbeldi gegn kennurum væri að aukast. Fyrir örfáum vikum birtust svo niðurstöður rannsóknar sem benda til þess að nánast sé um faraldur að ræða – að mörg hundruð kennarar séu beittir ofbeldi á hverju ári.

Þetta er bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi. Ein tegund ofbeldis hefur ekki verið rædd mikið upphátt. En það eru falskar ásakanir á hendur kennurum um ofbeldi eða áreitni.

Það er erfitt að ræða þau mál. Það virkar einhvernveginn eins og maður sé að taka afstöðu með ofbeldinu. Það má samt ekki vera þannig. Ég veit ekki um tíðni þessara mála hér á landi en í breskri rannsókn kom í ljós að rúmlega fimmtungur allra kennara þar í landi hefur orðið fyrir fölskum ásökunum um alvarlega áreitni eða ofbeldi. Þar í landi er þetta greint sem ein meginorsök þess að reynslumikið fólk hrökklast úr kennslu.

Þetta er stórkostlegt vandamál í íslensku skólakerfi líka. Og þetta er mál sem lúrir djúpt í feni þöggunar. Ég var staddur í níu manna hópi kennara um daginn þar sem þessi mál bar á góma. Fjórir höfðu verið ranglega bornir sökum – þar af allir karlarnir þrír. Fyrir ári hitti ég fjóra karlkennara á viðburði. Þeir höfðu allir orðið fyrir ásökunum sem síðan reyndust rangar.

Þetta eru allskonar ásakanir. Einn hafði verið áreittur af nemanda á samfélagsmiðlum og þegar hann brást við með því að segja frá því hélt nemandinn því fram að kennarinn hefði þvert á móti áreitt sig. Annar var sagður vera pervert sem þuklaði á unglingsstúlkum. Nemandinn sem kom sögunni af stað viðurkenndi strax og málið fór í gang að hún væri tilbúningur. Þá eru fjölmörg dæmi þess að kennarar séu lagðir í mjög harkalegt einelti af foreldrum. Einn var klagaður til skólastjóra og sagður vera umtalaður í nágrenninu fyrir að ofsækja börn og leggja í einelti. Kennarinn sætti ítarlegri rannsókn sem leiddi í ljós að um fullkomna lygi var að ræða.

Þetta síðasta dæmi var mjög lýsandi fyrir meðferð svona mála. Foreldrinu var gert ljóst að um mjög alvarlega ásökun væri að ræða og að hefja þyrfti rannsókn ef staðið væri við hana. Foreldrið sat við sinn keip. Rannsókn fór fram og hún leiddi í ljós að ferill kennarans var óaðfinnanlegur og engin dæmi fundust um samskiptabresti, hvað þá ofbeldi eða einelti. Þvert á móti var reyndist kennarinn umtalaður fyrir gæsku og liðleika. Þegar þetta varð ljóst var mjög þrýst á kennarann að leyfa málinu að falla niður án eftirmála. Rannsóknaraðilinn ræddi við hann um að orð eins og „einelti“ væri sveigjanlegt og háð upplifunum – og það væri kannski ekki alvarlegt þótt fólk notaði það dálítið óspart. Kennaranum var mjög misboðið en samþykkti loks að haldinn yrði sáttafundur.  Á þeim fundi dró foreldrið loks ásakanir sínar til baka. Kennarinn tók við afsökunarbeiðni. Þegar fundinum átti að ljúka gerðist sú furða að í lok fundar jós foreldrið skömmum yfir kennarann á nýjan leik. 

Við kennarar vinnum með öllu fólki. Fólkið sem alla daga er í fréttum vegna voðaverka og ofsókna á nánast undantekningalaust snertipunkta við skólakerfið. Við önnumst og umgöngumst fullt af fárveiku fólki. Við erum satt að segja stundum hrædd í vinnunni. 

Þið sjáið kennara nánast aldrei stíga fram opinberlega og segja frá ofbeldi sem hann verður fyrir. Og þið sjáið alls ekki kennara stíga fram og greina frá því að hann hafi verið sakaður um ofbeldi eða áreitni.

Skömmin er einfaldlega of mikil og þöggunin svo gríðarleg. Það að vera sakaður um eitthvað setur sjálfkrafa blett á mann. Eins og maður hljóti að vera eitthvað vafasamur. Gott fólk geti ekki verið sakað um vonda hluti.

Það er einfaldlega bara ekki rétt.

Fullt af góðu fólki, sem vinnur jafn náið með manneskjum og kennarar gera, er saklaust sakað um ofbeldi og/eða áreitni. Það er einfaldlega staðreynd. Staðreynd sem við þurfum að horfast í augu við.

Vandinn liggur síðan auðvitað í því að kennarar, eins og annað fólk sem starfar með manneskjum, eru stundum sekir um ofbeldi og áreitni. Og af tvennu illu – er það margfalt alvarlegra.

Fólk í ábyrgðarstöðum, sem vont er við börn, á skilið þunga dóma. Allt kerfið þarf að vera byggt upp til að vernda hina veiku.

En kerfið þarf líka að virka.

Ég hef nokkrum sinnum verið í þeirri stöðu að barn hefur trúað mér, kennaranum sínum, fyrir ofbeldi. Ég man eftir tveimur tilfellum þar sem ég tilkynnti ofbeldið áfram – og málin enduðu bæði með sakfellingu og þungum dómi – þar sem í ljós kom eftirá að grunsemdir höfðu verið til staðar í einhver ár. Einhver ár!

Lögin eru skýr. Tilkynna ber allan grun um ofbeldi. Undantekningalaust og án undanbragða. Það er barnaverndar og lögreglu að rannsaka málin. Það má aldrei vera þannig að kennarar eða annað fólk ætli að vega og meta mál með eigin hyggjuviti. Mín starfsregla er einföld: Ég trúi barninu og kem málinu áfram.

Ég veit alveg að það getur leitt til þess að einhver sem saklaus er verði borinn sökum. Það er einfaldlega það sem það kostar að búa við kerfi sem ætlað er að vernda börn. Réttarríkið krefst þess að öðru leyti að gengið sé út frá sakleysi. En sakleysið er ekkert í hættu þótt tilkynnandinn trúi barninu svo lengi sem hann heldur sig við sitt hlutverk og kemur málinu í réttan farveg en reynir ekki að leysa það sjálfur. Það er grundvöllur í mannlegri fagmennsku.

Ég hef aldrei áreitt barn eða beitt það ofbeldi. Það kom mér því í opna skjöldu þegar mér var tjáð að ég væri sakaður um það. Þá vissi ég ekki hversu algengar slíkar ásakanir eru. Ég brotnaði saman og grét. En ég var strax harðákveðinn í því að ég þyrfti að sýna sóma og skyldi sæta fullri rannsókn. 

Það kom strax í ljós að eitthvað verulega dularfullt var við málið. Það virtist ekki standa til að láta fara fram neina rannsókn. Skólastjórinn minn var beðinn um að þegja um málið (sem hann neitaði að gera). Eftir að rannsókn fór í gang var upplýsingum haldið frá lögreglu og barnaverndaryfirvöldum og það var ekki fyrr en ég krafðist ítrekað tafalausrar rannsóknar sem fram fór yfirgripsmesta rannsókn sem ég veit til að hafi átt sér stað á íslenskum kennara. Allur ferill minn var skoðaður. Allir staðir sem ég hafði búið á. Öll samskipti voru gaumgæfð í öllum skólum sem ég hafði unnið í. Mér var flett upp í öllum gagnabönkum. Leitað var logandi ljósi að einhverjum dæmum þess að ég hefði einhverntíma gert einhverjum eitthvað.

Ekkert kom í ljós. Enda hef ég aldrei gert neitt þessu líkt. Það vitað þær þúsundir sem ég hef kennt í gegnum tíðina. Ég neita meira að segja að ræða stjórnmálaskoðanir mínar eða trúarafstöðu við nemendur því ég tel það ekki við hæfi. Ég hef alltaf vandað mig í að vera traustur og góður kennari.

Málið mitt kom upp snemma árs fyrir mörgum árum. Ég var hreinsaður af ásökunum. Þá um haustið sá ég tvo unga karlmenn verða líka fyrir röngum ásökunum. Annar fékk nánast taugaáfall og hætti. Hinn ber ör á sálinni fram á þennan dag.

Þá ákvað ég að stíga fram. 

Ég skrifaði nokkra pistla um málið. Gagnrýni mín beindist að yfirvöldum í Reykjavík sem fylgdu ekki lögum og gættu ekki lágmarksréttinda og sköpuðu þannig óþolandi ástand. Ég hætti um tíma að kenna og kom fram í Kastljósinu og sagðist myndu komast að því hverjir hefðu borið á mig þessar sakir.

Þá steig fram drengur. Sem sagðist hafa sagt systur sinni að ég hefði fyrir meira en tveimur áratugum sýnt honum klám heima hjá mér. Og ekkert venjulegt klám. Kúkaklám. Það hefði verið systirin sem hefði tilkynnt mig. Þetta hefði haft svo slæm áhrif á hann sjálfan að næstu sex, sjö árin hefði hann lifað stjórnlausu og skaðlegu lífi. Það var á botni þess lífernis sem hann hefði rakið þetta aftur til klámsins sem ég hefði sýnt honum. Eftir að ég kom í Kastljósið fór hann til lögreglu og kærði mig.

Málinu var vísað frá án þess að rætt væri við mig. Ég fór til lögreglu og vildi vita meira. Þeir sögðu málið fyrnt en gáfu mér lýsingu á því. Þar komu fram örfá atriði sem ekki stóðust neina skoðun. Mér var létt eftir þann fund.

Ég velti því mikið fyrir mér hvað ég ætti að gera. Mér fannst gott af drengnum að gefa sig fram til að vernda systur sína. Og ég skildi systurina. Þegar ég hugleiddi málið ákvað ég að vera ekki að auka á ógæfu drengsins, sem ærin virtist fyrir. Það var auðveld ákvörðun sem ég hafði raunar tekið löngu áður. Ég sagði við lögregluna strax í upphafi málsins að ég sæi tvær mögulegar uppsprettur þess. Annað hvort væri þetta einhver sem ætti erfitt eða einhver óþokki. Ég bað lögregluna að rekja málið og sagði að ef þetta væri einhver sem ætti erfitt þá þyrfti ég ekki einu sinni að fá að vita hver það væri – en ef þetta væri einhver sem væri af grimmd að reyna að koma á mig höggi þá vildi ég fylgja málinu alla leið.

Það kom aldrei til þess að lögregla rekti slóðina. Reykjavíkurborg var búin að hylja hana. Og hún lá ekki til drengsins. Og ekki einu sinni til systur hans. Hún lá til starfsmanns borgarinnar sem nú var verið að reyna að fela. Lögreglu var sagt ósatt um málið til að svipta ekki af honum leyndinni.

Þetta vissi ég ekki fyrr en alveg nýlega. Þá skrifaði þessi starfsmaður færslu á Fésbókina þar sem hann sagðist hafa verið tilkynnandinn. Hann virtist upplifa sjálfan sig sem fórnarlamb í málinu. Þegar ég hætti kennslu í mótmælaskyni brugðust nemendur og foreldrar harkalega við. Þetta mál særði mjög marga. Það fannst honum óþægilegt og hann fékk sektarkennd. Hann sagðist skrifa pistilinn til að hreinsa sig af sektarkenndinni.

Ég brást við fésbókarpistlinum á sama hátt og ég hef brugðist við málinu öllu. Með fullkominni einlægni og hreinskilni. Ég sagði að ég styddi þá ákvörðun að tilkynna mig á sínum tíma. Og ég skildi að sjálfsögðu systur sem trúir bróður sínum. Það sem ég hafði við málið að athuga snerist aldrei um neitt af þessu. Það snerist um kerfið. Það að kerfið var að fúska í málaflokki þar sem fúsk er ekki leyfilegt. Jafnvel þótt þú sért eitthvað hikandi þá áttu að segja barnavernd og lögreglu satt. Barnavernd hefur fullt leyfi til að gæta nafnleyndar ef beðið er um það. Einstakir starfsmenn hafa ekki sömu völd og barnavernd. Þeir sem ekki skilja það eiga ekki að vinna með börnum.

Ég ber enga heift eða biturð í hjartanu í garð neins af þessu fólki. Ég held í alvöru að drengurinn sem sakaði mig um þetta hafi einfaldlega gengið gegnum hræðilega hluti og þessi ásökun sé afleiðing þess. Ég veit hún er ekki rót þeirra.

Ég átti raunar mjög erfitt með að skilja hvers vegna hann ætti að vera að búa þetta til. Á tímabili þurfti ég að eiga hreinskilið samtal við sjálfan mig um það hvort ég gæti mögulega hafa gert þetta og síðan bælt minningarnar. Og ég burðaðist lengi með sektarkennd vegna málsins. 

Það var ekki fyrr en ég las skýrslu afbrotafræðinga í Oxford sem eitthvað sem skylt á við skilning kviknaði. Nákvæmlega svona mál munu vera býsna algeng. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég las það. Og stundum er viðkomandi ekki einu sinni að ljúga. Þessi tilvitnun hafði mikil áhrif á mig:

„Eflaust hvarflar að mörgum sem heyra rætt um „falska“ ásökun að þá sé verið að saka þann sem setur hana fram um lygar. Það er vissulega rétt að viljandi ósannindi og skrumskælingar eru til staðar í sumum tilfellum, hjá börnum og ungu fólki sem hefur sögu um lygar og óheilindi, en þó byggja margar falskar ásakanir á einhverju sem einstaklingurinn trúir að hafi raunverulega gerst, eða byggir á misnotkun sem viðkomandi varð fyrir af hendi annarra, eða jafnvel almennri tilfinningu um að hafa mátt þola illa meðferð af fullorðnum í uppvexti sem markast af skorti og óreiðu, frekar en tilteknum glæpaverkum. Það er þess vegna ofureinföldun að halda því fram að allir sem beri fram falskar ásakanir séu lygarar, á sama hátt og það er ofureinföldun að halda að allar kvartanir séu sannar.“

Ég fékk tölvupóst fyrir nokkrum vikum þar sem mér var tjáð að borin hefði verið út sú saga að ég hefði sagt margvíslega ósatt í pistli mínum um málið. Og að fjölmiðill (einn eða fleiri) væri að fara að afhjúpa mig sem lygara. 

Ég fékk nokkru seinna símtal frá aðstoðarritstjóra á Vísi. Hann byrjaði á að segja mér að drengurinn lýsti málinu öðruvísi en ég. Ég benti á að ég gæti stutt allt sem ég hefði sagt um málið með gögnum og vitnum. Ég hefði verið afar hreinskilinn. Þá breyttist nálgunin nokkuð og ritstjórinn sagði að það væri svosem enginn að efast um lýsingu mína á því sem gerðist eftir að mér var tilkynnt um málið. Mín lýsing stemmdi hinsvegar ekki við þá fullyrðingu að ég hefði sýnt drengnum klám. 

Þetta fannst mér sannarlega dálítið skrýtin afstaða. Ég hefði skilið það að fjölmiðill gerði sér mat úr ósannindum sem ég hefði orðið uppvís að. En það er varla fréttnæmt að maður sem segist vera saklaus af ásökun neiti því að ásökunin sé rétt. Við ræddum málið aðeins áfram og það varð ekkert miklu ljósara. Hann sagði að ég hefði átt að hafa sýnt honum klám í aukatíma í stærðfræði heima hjá mér (ég hef aldrei tekið neinn í aukatíma heima hjá mér á þeim tveim áratugum sem liðnir eru frá því ég fór að kenna og myndi aldrei gera það, enda var þetta svo dregið til baka), hann sagði að ég hefði átt að hafa skrifað níðbréf um drenginn til foreldranna (sem er fullkomin þvæla). Ritstjórinn sagði að blaðamaður væri að skoða þessi mál og virtist telja að nóg væri fyrir blaðamanninn að lesa pistla mína um málið. Ég sagði að ég vildi samt gjarnan hitta blaðamanninn og  afhenda honum þau gögn sem ég gæti. Teldi ótækt að skrifa um málið án þess að tala við mig.

Ég hitti svo blaðamanninn ásamt skólastjóranum mínum sem gat staðfest að lýsing mín á málinu var rétt. 

Ég gaf blaðamanninum alla tölvupósta mína um málið og Oxford-skýrsluna um tíðni og tegundir falskra ásakana gegn kennurum. Ég rakti söguna og það hvernig málið hefði verið vaxið.

Tvær spurningar blaðamannsins voru forvitnilegar. Sú fyrri var sú hvort það hefði ekki bara verið í himnalagi að ég yrði rannsakaður í þaula fyrst kvittur hefði komist á kreik. Ég sagði að ég hefði ekki aðeins samþykkt slíka rannsókn heldur viljað hana. Það var aldrei málið. Ég hafði ekkert að fela.

Málið er að í réttarríki er slúður ekki ein af undirstöðum nokkurs kerfis. Það er ótækt að fólk sæti yfirgripsmiklum og handahófskenndum rannsóknum vegna þess að fólk vilji ekki eða þori ekki að bera fram sakir. Og það er fullkomlega óásættanlegt í kerfi, eins og menntakerfinu, þar sem falskar ásakanir eru margar á hverju einasta ári.

Ef fjölmiðlar væru almennt opnir fyrir ásökunum á hendur kennurum þá gerðu þeir ekki annað. Það væri röð út á horn af fólki sem myndi vilja koma höggi á einhvern. Og raunar höfum við nokkur dæmi um nákvæmlega slíkt – þótt höggin lendi yfirleitt á skólastjórunum. Raunar held ég að fjölmiðlar megi margir íhuga betur umfjöllun sína um skóla og fólkið sem í honum starfar. Það var tildæmis með eindæmum ömurlegt í frétt um samræmd próf að draga Varmahlíðarskóla fram sem þann lélegasta á Íslandi eins og sást um daginn. Það var ónærgætið og ósanngjarnt – þótt ekki væri nema vegna þess að nákvæmlega sá skóli er þekktur fyrir góðan árangur á samræmdum prófum. Þarna hittist svo á að fámennur árgangur í sveitarskóla sem getur verið frábær að öllu leyti en nær ekki að sýna það á þessu tiltekna prófi er dreginn fram fyrir alþjóð sem lélegasti bekkur landsins. Þetta er lélegt og tillitslaust.

Blaðamaðurinn sagði að eina ástæða þess að það kæmi til álita að skrifa um þetta frétt (og mér vitanlega hefur sú ákvörðun ekki verið tekin endanlega enn) sé sú að ég hafi sjálfur opinberlega rætt málið. Og vegna þess að málið hafi verið í umræðunni þá sé eðlilegt að halda því þar.

Ég samþykkti að það væru góð rök. Það væri ekki óeðlilegt að fjallað yrði um málið á þeim forsendum. En að hér þyrfti að vanda sig. Og halda umfjölluninni í jafnvægi. 

Ég væri til dæmis mjög til í að sjá blaðamann rannsaka hvort og hvernig borgin tók þátt í að ljúga að lögreglunni. Það er eitt og annað ósagt um málið. 

Það er hinsvegar umhugsunarvert hvort allir kennarar sem segja upphátt að þeir hafi ranglega verið sakaðir um eitthvað séu þar með að kvitta upp á það að ásökununum sé útvarpað. Ég er ansi hræddur um að þöggunin í þessum málaflokki sé ærin fyrir þótt slíkt yrði ekki að venju. En hér er ég að sjálfsögðu að gefa mér það að viðkomandi kennarar séu, eins og ég, ekki að nafngreina neinn. Það gildir auðvitað annað ef menn eru að benda á fólk.

En ég er ekkert viðkvæmur fyrir því að það sé sagt upphátt að ég hafi verið sakaður um að sýna dreng klám. Þess vegna sagði ég frá því sjálfur. Þegar ég kom fram með málið sjálfur á sínum tíma hélt ég að ég væri sakaður um nauðgun. Það var rosalega stórt skref að segja frá því. 

Blaðamaðurinn spurði mig hvort það virkaði ekki grunsamlegt að ég hefði ekki skrifað um ásakanir drengsins þegar ég fékk að vita þær á sínum tíma.

Ég varð að viðurkenna að það hafði aldrei hvarflað að mér að það gæti verið grunsamlegt. Ég hafði allan tímann ætlað að stöðva málið ef það beindist gegn einhverjum sem ætti bágt. Málinu gegn borginni lauk þannig að báðir yfirmennirnir sem sáu um það hættu störfum stuttu seinna og mér var lofað að unnið væri að bættu verklagi slíkra mála í samráði við kennarasamtökin. Það var mér nóg.

Ég sá enga ástæðu til að eltast við embættismennina sem voru hættir eða berja áfram á borginni. Ég var búinn að segja allt sem ég þurfti að segja. Ég hafði komist til botns í málinu. Ég vorkenndi drengnum – og bar engan kala til hans. Það var ekki vegna þess að ég væri óþokki sem ég sleppti því að lögsækja hann, heldur þvert á móti vegna þess að ég er ekki óþokki. Og ég er ekkert sérstaklega hefnigjarn. Það er kannski grunsamlegt. Ég held samt ekki.

Ég sneri aftur til kennslu enda elska ég starfið mitt. Málinu var lokið af minni hálfu.

Að öðru leyti verð ég að taka það fram að samskiptin við blaðamennina hafa verið afar fagleg og góð. Og ég finn að menn vilja vanda sig.

Ég ætla ekki að reyna að fela það að málið reyndi á sínum tíma ofboðslega á mig. Miklu meira þó áður en ég fékk að vita eðli ásakanana. Það var seinna sem ég las að svona mál valda oft sálrænum skaða fyrir lífstíð. Mörg hundruð íslenskir kennarar þekkja sársaukann eins og ég. Ég ætla ekki að gera lítið úr honum. Það veldur alvarlegum kvíða og öðrum heilsufarsvandræðum að vera sakaður um að bregðast börnum. Það hefur jafnvel verið tengt við alvarlega sjúkdóma og ótímabæran dauða.

Ég þjáðist mjög á tímabili. 

Og þegar ég sá sömu þjáningu hjá ungum kennurum sem treystu á mig ákvað ég að opna á þessi mál. Til þess þurfti ég að rjúfa þykkt fortjald skammar. Það var mjög erfitt.

Það er ekki nóg að vera saklaus og vita sannleikann – manni líður samt skelfilega.

Verst af öllu þótti mér samt þegar mál mitt átti að vera einhverskonar allsherjar syndaaflausn fyrir óþokka. Ég fékk símtöl og skilaboð frá allskonar ógeðum sem verið hafa í umræðunni. Þeir töldu mitt mál sanna sakleysi sitt.

Það er ekki satt.

Það er miklu meira af ofbeldi í samfélaginu okkar en röngum ásökunum um ofbeldi. Menningin okkar er broguð. Áreitni veður uppi. Í heiminum sem við höfum skapað saman er of mikið af hræddu fólki – fólki sem er hrætt af ástæðu. Það er vonandi hafin bylting. Bylting þar sem við tökum saman ábyrgð á því að breyta þessu. Menning okkar er þjáningar- og ofbeldismenning og við eigum að skammast okkar fyrir hana. Og gera betur.

Falskar ásakanir eru til. En þær eru undantekningin. Sumar starfstéttir eru í sérstakri áhættu. Þar eru þær algengari. Þá áhættu þarf að skilja og greina en svo þarf að vera til staðar kerfi sem virkar – og þar sem allir þekkja sinn stað. Það má ekki leyfa handahófi og flumbrugangi að ráða. 

Ef kynferðisáreitni og -brot eru upp á dómgreind einstakra starfsmanna komin þá mun það einfaldlega leiða til þess að raunveruleg brot hverfa undir yfirborð efans. Það má ekki gerast, það á að vanda sig og gera hlutina vel.

Við þurfum að halda betur utan um þá kennara sem saklausir verða fyrir þungum sökum. Það er ekki sjálfgefið að við hristum svona lagað af okkur. Það er ekki boðlegt að kennarar séu sagðir hata börn, leggja þau í einelti, meiða þau eða áreita þau – án þess að við því sé brugðist. Það er ekkert sem dregur meira úr sjálfsvirðingu manneskju en að henni sé gert ljóst að svona megi koma fram við hana án afleiðinga.

Ég ætla að enda á búti úr bréfi sem ég fékk frá kennara sem ég veit að er þekkur fyrir manngæsku og góða kennslu. Bréfið fékk ég eftir að ég skrifaði síðasta pistil þar sem ég fjallaði um málið. Það var skömmu fyrir KÍ-kosningarnar. Ég hafði engan áhuga á því að fara í þær kosningar í einhverju þöggunarskýi. Ég hef margt gert í lífinu sem ég þarf að skammast mín fyrir. En af þessu er ég fullkomlega saklaus. Það er einfaldlega ekki hluti af mínum persónuleika að koma illa fram við börn. Og ég ætla ekki að leyfa þessu máli að herða mig og fylla mig beiskju og grimmd. 

Málið snýst á endanum um mannlega þjáningu. Þegar maður vinnur með fólki þá þarf maður að axla eitthvað af þeirri þjáningu. Á móti kemur að nær öll samskipti mín við nemendur og foreldra hafa verið nærandi og gefandi – og leyft mér að þroskast í þá manneskju sem mér þykir þess virði að vera. Gegn því að axla stundum þjáningu fáum við stærri skerf af hamingju.

En hér er bréfið. Ég þakka honum fyrir það. Þótt ég hafi virst sterkur í þessu máli þá hefur það verið sárt. Bæði fyrir mig og þá sem eru mér nákomnir. Ég hefði oftar þurft að finna að ég er ekki einn. Alveg eins og kennarinn sem skrifaði þetta bréf:

„Mig langar til að þakka þér innilega fyrir greinina "Söguendirinn sem aldrei var skrifaður".

Ég hef kennt í 20 ár og á þeim tíma hef ég horft upp á svo erfið dæmi að tárum taki.  Sjálfur er ég að vinna úr eigin reynslu [...] Skólastjórar lýstu yfir samúð en gerðu ekkert. Ég vildi hætta kennslu og fór að leita á önnur mið.  Ég fór að tilkynna mig veikan því ég treysti mér ekki að kenna [...] Ég lít svo á að ég hafði verið lagður í einelti af nemanda sem hafði miklu sterkari stöðu en ég. Mér fannst ég varnarlaus og ekki geta gert neitt [...] Mig hefur stundum langað að opinbera þetta óréttlæti en ég hef ekki sama kjark og þú. Mig langaði að deila pistlinum þínum en treysti mér ekki til þess. Ég er bara ekki búinn að vinna úr mínum málum þótt mér líði mjög vel í kennslu í dag. Þú talaðir fyrir hönd mjög margra kennara. Við eigum ekki séns ef við erum sakaðir um eitthvað.“

Hér með segi ég skilið við þetta blessaða mál. Mín bíða mörg brýn verkefni. Mitt mál má alveg vera opinbert og ég treysti því að fjölmiðlar hafi vit á því að verða ekki að barefli í höndum fólks. Þeir eru einfaldlega alltof mikilvægir til að leyfa sér það. 

Eins og með síðasta pistil um þetta mál þá langar mig að biðja ykkur að vera ekkert að læka þetta. Þetta er ekkert ánægjuefni. Ef einhver sem þetta les deilir reynslu af þessu tagi og vill ræða hana má senda mér skilaboð á ragnarkennari@gmail.com.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið

Þvingaðar af sýslumanni til að umgangast föðurinn sem misnotaði þær: „Ég vil ekki fara til pabba“
1

Þvingaðar af sýslumanni til að umgangast föðurinn sem misnotaði þær: „Ég vil ekki fara til pabba“

·
Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni
2

Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni

·
Afþakka að vera notaður sem skotfæri í stríði gegn femínisma
3

Atli Már Ástvaldsson

Afþakka að vera notaður sem skotfæri í stríði gegn femínisma

·
WOWlandið
4

Birgitta Jónsdóttir

WOWlandið

·
Sprautufíkill eða sykursjúkur unglingur
5

Bergljót Davíðsdóttir

Sprautufíkill eða sykursjúkur unglingur

·
Hvernig Glitnisgögnin opinbera bisnessmanninn Bjarna Benediktsson
6

Hvernig Glitnisgögnin opinbera bisnessmanninn Bjarna Benediktsson

·
Ævintýri sölumanns Íslands sem vildi sigra heiminn
7

Ævintýri sölumanns Íslands sem vildi sigra heiminn

·

Mest deilt

Afþakka að vera notaður sem skotfæri í stríði gegn femínisma
1

Atli Már Ástvaldsson

Afþakka að vera notaður sem skotfæri í stríði gegn femínisma

·
Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni
2

Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni

·
Þvingaðar af sýslumanni til að umgangast föðurinn sem misnotaði þær: „Ég vil ekki fara til pabba“
3

Þvingaðar af sýslumanni til að umgangast föðurinn sem misnotaði þær: „Ég vil ekki fara til pabba“

·
Sprautufíkill eða sykursjúkur unglingur
4

Bergljót Davíðsdóttir

Sprautufíkill eða sykursjúkur unglingur

·
Hvernig Glitnisgögnin opinbera bisnessmanninn Bjarna Benediktsson
5

Hvernig Glitnisgögnin opinbera bisnessmanninn Bjarna Benediktsson

·
Leiðtogar Póllands og nýnasistar marséruðu saman um götur Varsjár
6

Leiðtogar Póllands og nýnasistar marséruðu saman um götur Varsjár

·

Mest deilt

Afþakka að vera notaður sem skotfæri í stríði gegn femínisma
1

Atli Már Ástvaldsson

Afþakka að vera notaður sem skotfæri í stríði gegn femínisma

·
Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni
2

Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni

·
Þvingaðar af sýslumanni til að umgangast föðurinn sem misnotaði þær: „Ég vil ekki fara til pabba“
3

Þvingaðar af sýslumanni til að umgangast föðurinn sem misnotaði þær: „Ég vil ekki fara til pabba“

·
Sprautufíkill eða sykursjúkur unglingur
4

Bergljót Davíðsdóttir

Sprautufíkill eða sykursjúkur unglingur

·
Hvernig Glitnisgögnin opinbera bisnessmanninn Bjarna Benediktsson
5

Hvernig Glitnisgögnin opinbera bisnessmanninn Bjarna Benediktsson

·
Leiðtogar Póllands og nýnasistar marséruðu saman um götur Varsjár
6

Leiðtogar Póllands og nýnasistar marséruðu saman um götur Varsjár

·

Mest lesið í vikunni

Réttur reiðra karla
1

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

Réttur reiðra karla

·
Borgaði aldrei bæturnar eftir banaslysið
2

Borgaði aldrei bæturnar eftir banaslysið

·
Jónas Garðarsson er hæst launaði verkalýðsleiðtogi landsins
3

Jónas Garðarsson er hæst launaði verkalýðsleiðtogi landsins

·
Þvingaðar af sýslumanni til að umgangast föðurinn sem misnotaði þær: „Ég vil ekki fara til pabba“
4

Þvingaðar af sýslumanni til að umgangast föðurinn sem misnotaði þær: „Ég vil ekki fara til pabba“

·
„Tók langan tíma að skilja að ég hefði ekki getað komið í veg fyrir sjálfsvíg hans“
5

Anna Bentína Hermansen

„Tók langan tíma að skilja að ég hefði ekki getað komið í veg fyrir sjálfsvíg hans“

·
Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni
6

Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni

·

Mest lesið í vikunni

Réttur reiðra karla
1

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

Réttur reiðra karla

·
Borgaði aldrei bæturnar eftir banaslysið
2

Borgaði aldrei bæturnar eftir banaslysið

·
Jónas Garðarsson er hæst launaði verkalýðsleiðtogi landsins
3

Jónas Garðarsson er hæst launaði verkalýðsleiðtogi landsins

·
Þvingaðar af sýslumanni til að umgangast föðurinn sem misnotaði þær: „Ég vil ekki fara til pabba“
4

Þvingaðar af sýslumanni til að umgangast föðurinn sem misnotaði þær: „Ég vil ekki fara til pabba“

·
„Tók langan tíma að skilja að ég hefði ekki getað komið í veg fyrir sjálfsvíg hans“
5

Anna Bentína Hermansen

„Tók langan tíma að skilja að ég hefði ekki getað komið í veg fyrir sjálfsvíg hans“

·
Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni
6

Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni

·

Nýtt á Stundinni

Lögreglan kannast ekki við fjögur sjálfsmorð á einum degi

Lögreglan kannast ekki við fjögur sjálfsmorð á einum degi

·
Leiðtogar Póllands og nýnasistar marséruðu saman um götur Varsjár

Leiðtogar Póllands og nýnasistar marséruðu saman um götur Varsjár

·
Andlitið undir hinum tveimur

Símon Vestarr

Andlitið undir hinum tveimur

·
Jón Steinar vill að Katrín reki Má úr Seðlabankanum

Jón Steinar vill að Katrín reki Má úr Seðlabankanum

·
Hvernig Glitnisgögnin opinbera bisnessmanninn Bjarna Benediktsson

Hvernig Glitnisgögnin opinbera bisnessmanninn Bjarna Benediktsson

·
Afþakka að vera notaður sem skotfæri í stríði gegn femínisma

Atli Már Ástvaldsson

Afþakka að vera notaður sem skotfæri í stríði gegn femínisma

·
Trölli er víða

Freyr Rögnvaldsson

Trölli er víða

·
Minni stöðugleiki fyrir fjölskyldur hér en í nágrannalöndum

Guðmundur Gunnarsson

Minni stöðugleiki fyrir fjölskyldur hér en í nágrannalöndum

·
Algjör lúxus að vera vegan í dag

Algjör lúxus að vera vegan í dag

·
Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni

Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni

·
Klukkan ellefu, þann ellefta ellefta 1918

Stefán Snævarr

Klukkan ellefu, þann ellefta ellefta 1918

·
Sprautufíkill eða sykursjúkur unglingur

Bergljót Davíðsdóttir

Sprautufíkill eða sykursjúkur unglingur

·