Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Það sveltur enginn sem fær kálböggla

Skútustaðarhreppur, Borgarbyggð, Reykjavíkurborg, Mosfellsbær, Hafnarfjörður, Breiðdalshreppur og Reykjanesbær eru nú um mundir ósjálfbær sveitarfélög. Þau ráða ekki við skuldbindingar sínar. Árborg, Norðurþing, Kópavogur og fleiri sveitarfélög ættu að standa undir sér en eru viðkvæm vegna mikilla skulda. 

Á milli áranna 2013 og 2014 versnaði rekstur sveitarfélaga töluvert. Í fyrra stóðu 77% þeirra undir rekstri sínum samanborið við 88% árið á undan.

Það eru ekki nýjar fréttir að íslensk sveitarfélög standi illa. Árin 2009 og 2010 stóðu yfir mjög umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir sem lutu að því að draga úr kostnaði sveitarfélaganna af skólum. 

Meirihluti íslenskra skóla gekk mjög markvisst og hart fram við það að spara í rekstri. Þær aðgerðir sem kalla má almennar voru þær að: hætta að kenna forfallakennslu, fjölga nemendum í bekkjum, draga úr vettvangsnámi, fækka kennslustundum, minnka fjármagn til þróunarverkefna, minnka gæslu nemenda, fækka stjórnendum, draga úr félagslífi nemenda, draga úr símenntum kennara, draga úr sérkennslu, fækka námsgögnum, minnka viðhald, auka kostnað heimila af skólum og draga úr kostnaði við mötuneyti (sjá hér).

Nokkrum árum eftir hinar harkalegu aðgerðir kom í ljós að árangur íslenskra nemenda í alþjóðlegri samanburði hafði versnað töluvert. Af einhverjum ástæðum hafa sveitarfélögin ekki haft nokkurn áhuga á því að rannsaka mögulega ábyrgð sína á því. 

Mjög merkilegt er að ígrunda síðastnefnda þáttinn í upptalningunni hér að framan. Skóli er flókið fyrirbæri sem oft er erfitt að átta sig á. Það getur verið auðveldara að skilja kartöflumús og svínapottrétti. Sveitarfélögin gripu sum sé almennt til þess ráðs að draga úr fjármagni til mötuneyta. Það þýðir ósköp einfaldlega að foreldrar þurftu að borga meira fyrir, í mjög mörgum tilfellum, verri mat.  

Það eina sem sveitarstjórnarmenn eru hræddir við eru kjósendur. Og það sem kjósendur eru einna viðkvæmastir fyrir er það hvort börnin þeirra fái góðan mat. Það var því krefjandi verkefni að fela fyrir foreldrum þá staðreynd að matur barnanna væri skorinn niður við trog. 

Það er samt til fólk sem kann að stjórna muninum á sýnd og reynd. Í mörgum sveitarfélögum var málið afgreitt þannig að loks væru gerðar ákveðnar lágmarkskröfur um næringarinnihald máltíða.  Svo skrifuðu embættismenn matseðla sem tryggja áttu að engin börn myndu svelta – ef þau ætu allt meðlætið, drykkju alltaf mjólk með matnum og fengu nógu stóran skammt. Sem þau gera auðvitað aldrei öll.

Samræmdu matseðlarnir sem tryggja áttu að börnin væru ekki vannærð þrátt fyrir niðurskurð voru sum sé seldir sem mikið framfaraskref í matarmálum grunnskólabarna.

Fólk sem á annað borð hefur dálítið vit á mat er gjarnan ekki nema miðlungi hrifið af matseðlum grunnskólanna. Og til eru skólar sem hreinlega hafa gert uppreisn gegn samræmdum matseðlum. Það eru gjarnan skólar með mjög hæfa matráða sem hreinlega neita að bera fram mat sem þeir fullyrða að sé að öllu leyti verri en sá matur sem þeir eru vanir að framreiða.

Nú er ég óttalegur skussi þegar kemur að mat. Ég veit samt nóg til þess að vita að það er í kjarna sínum mjög metnaðarlaust viðhorf að gera matseðla sem hafa það eina hlutverk að þvo hendur kokka af því að börn séu vannærð. Og ég veit líka að erlendis hafa víða skapast mjög heitar umræður um skólamáltíðir, einmitt vegna þess að miðstýrðar aðgerðir af þessu tæi hafa skapað vonda matarmenningu, fals og bull.

Þó tókst raunar ágætlega að selja fólki þá hugmynd að samræmdir matseðlar í grunnskólum væru mikið framfaraskref sem kæmi til af því að sveitarfélögin hefðu nývaknaðan áhuga á hollustu. Svo vel raunar að flestir voru tilbúnir að horfa fram hjá því að á sama tíma var markvisst verið að svelta mötuneytin. Einn skólastjóri kom t.d. fram og benti á hagræðið sem fylgdi því að öll börn borðuðu sama matinn. Stundum væru systkini ekki í sama skóla og það gæti sparað mikil átök um kvöldmatinn ef þau hefðu öll borðað það sama í hádeginu.

Ég ætla svosem ekki að kafa ofan í kaloríur og kalk. Ég hef þó komið í nógu marga skóla í nógu mörgum landshlutum til að geta fullyrt að með nokkrum undantekningum er skólamatur alls ekkert sérstaklega góður matur. Ég hef samt séð undantekningar. Matráður einn í Reykjavík var svo dáður og elskaður að maturinn hans var stór ástæða í vali sumra foreldra á skóla. Í skóla einum úti á landi gúffuðu börn í sig allra handa grænmeti, korn og ávexti og fiskurinn var ævinlega hárrétt eldaður, mjúkur og nýr. Rasp kom þar aldrei inn fyrir eldhússdyr. 

Ég hef það fyrir satt að strax sé farið að molna úr slíkum hátindum matarmenningar. Samræmdir matseðlar eru dálítið eins og öndunarvél. Þeir halda fólki á lífi en það hleyptur enginn um spriklandi þegar hann er tengdur við slíka vél. 

Samdrátturinn 2009 - 2010 var bara byrjunin á hagræðingaraðgerðum í skólum. Meiri niðurskurður var á döfinni þótt innleiðing hans hafi ekki verið jafn markviss og í þeim atriðum sem nefnd eru hér að ofan og kalla má almenn. Kennurum var fækkað, dregið úr listgreinakennslu, sérkennsla var skorin enn meira niður, öðru starfsfólki en kennurum var sagt upp í hrönnum, frístundastarf var skert, kennsludögum var fækkað og skólar voru sameinaður.

Bænaskrá var einnig afhent menntamálaráðherra þar sem þess var vinsamlegast farið á leit að draga mætti enn úr kennslu til að hægt væri að segja upp kennurum í sparnaðarskyni. Það væri eina færa leiðin því búið væri að skera inn að beini í öllu öðru.

Til mótvægis lofuðu sveitarfélögin að grípa til ákveðinna aðgerða. Listnám yrði fléttað einhvernveginn inn í hefðbundið íslensku og stærðfræðinám. Staðin yrði varðstaða um þær greinar sem mældar eru í erlendum samanburðarrannsóknum og þær samræmdar með tíðum mælingum. Ætlast væri til að foreldrar og félagasamtök tækju á sig þyngri byrðar – og sú hugmynd vaknaði að hluti af námi elstu nemendanna væri að vinna sem sjálfboðaliðar í skólunum sínum. (Sjá hér.)

Ráðherrann sagði nei.

Það var annar ráðherra en sá sem nú situr. 

Núverandi ráðherra virðist hafa djúpan skilning á stöðu þeirra sem fara illa með sjóði sína og annarra og lenda í kröggum. Hann hefur enda tekið sér oddastöðu við að búa til samræmda mælikvarða á manneldisgildi menntunar. Slíkir mælikvarðar eru samviskusvæflar þeirra sem munda niðurskurðarhnífa.

Hann er ráðherrann sem fer með afganginn af skólunum þangað sem búið er að fara með matseðlana. Það verður hans hlutverk að leiða þá ímyndarsmíð að sá gríðarlegi samdráttur sem verður í grunnskólunum á næstu misserum, sem viðbragð við því að búið er að opna matarholu með því að mölva kjarasamninga kennara, sé í raun og veru framför. Hann mun drottna yfir samræmdum mælingum á lestri og reikningi sem sannfæra eiga foreldra um að barn sem reiknar, les og skrifar geti ekki verið annað en vel menntað. Alveg eins og að barnið sem étur kálböggla, hveitisúpur og fisk í raspi geti ekki verið annað en vel nært.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni