Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Pulled jackfruit-samloka

Pulled jackfruit-samloka

Ein af mínum uppáhalds búðunum hér í Hollandi er Amazing Oriental Utrecht. Í þessari búð get ég gleymt tíð og tíma. Þar eru langar hillur af ýmis konar olíum, edikum og sósum og mjög mikið af áhugaverðu grænmeti og ávöxtum í dósum. Þar fæst jackfruit, og á að fást í austurlenskum matvöruverslunum á Íslandi. Jackfruit, eða jakaber, er ávöxtur sem á rætur sínar að rekja til Indlands og er talsvert notaður í asískri matargerð bæði sem eftirréttur og sem aðalréttur.

Pulled jackfruit er stæling á pulled pork. Þegar ég fer í góðu Oriental búðina kaupi ég alltaf 4-5 dósir af jackfruit til að eiga. Úr jackfruit geri ég til dæmis steiktan jackfruit “kjúkling” og svo pulled jackfruit. Þetta er mjög fjölhæft hráefni sem gaman er að elda úr þar sem það dregur í sig bragð og því er um að gera að prófa sig áfram. 

Jackfruit samloka fyrir tvo

  • Steikt jackfruit

  • Guacamole

  • Sósa

  • Gulróta-veikon

  • Salat 

  • Chiabatta brauð

*Þetta er lítil uppskrift og dugir í tvær veglegar samlokur. 

Jackfruit blanda

1 dós jackfruit — athugið að kaupa jackfruit í saltvatni ( e. brine) en ekki sírópi.

1 flaska bjór - ég notaði Tiger bjór (má sleppa)

1 bolli grænmetissoð - ég sauð vatn og notaði hálfan sveppa tening og hálfan grænmetistening

1 tsk hvítlauksduft

1 tsk laukduft

1 tsk salt

1 tsk paprikuduft

1 tsk hlynsíróp - væri líka hægt að nota púðursykur eða sleppa

0,5 tsk liquid smoke (má sleppa en þá er gott að hafa BBQ sósu með smoke eða hickory bragði)

BBQ sósa eftir smekk - ég notaði rúmar 2 msk 

Einnig notaði ég 1 tsk Sishado BBQ & Grill sósu sem ég fann í Asíu markaðnum

Aðferð                                                                                    

Fyrst er jackfruit dósin opnuð og vatninu hellt af.  Það eru stór fræ á bitunum og mjói endinn á þríhyrningnum getur verið mjög harður. Það er hægt að skera endann af en mér finnst best að setja bitana í pasta sigti og pilla úr fræin og slíta af hörðu bitana. Þannig finnst mér ég koma í veg fyrir sóun. Síðan þarf að skola bitana vel og um leið toga þá í sundur. Skella þeim svo á pönnu og hella bjórnum yfir og leyfa þessu að malla á miðlungshita þar til mestur bjórinn hefur gufað upp.

Svo er bitarnir togaðir í sundur með tveimur göflum eða einfaldlega kramdir með kartöflustöppu. Því næst er soðinu bætt við. Hækka skal þá hitann og leyfa soðinu að gufa upp. Þegar lítill vökvi er eftir á pönnunni skal bæta kryddunum, sírópinu, liquid smoke og  BBQ sósu við. Best er að fara rólega í að bæta BBQ sósunni við því hún er mjög bragðsterk. Hitinn er lækkaður og jackfruit-inu leyft að malla. Á þessum tímapunkti er tilvalið að bragðbæta ef þess þarf. Þar sem að jackfruit er ávöxtur þá reyni ég að koma í veg fyrir of sætt bragð. Blandan er tilbúið þegar allur vökvinn er gufaður upp og blandan virðist ‘þurr’.

Guacamole

1 avókadó

5-6 kirsuberjatómatar

2-3 msk ferskt kóríander

2 msk paprika - skorin í litla bita

sítrónusafi

salt og pipar eftir smekk

Avókadóið skorið í helminga, steininum hent og aldinkjötið veitt upp úr með skeið. Avókadóið stappað með gaffli og sítrónusafa kreistur yfir. Tómötunum, sem eru skornir í fjóra helminga, söxuðu kóríanderinu og paprikunni bætt út í. Saltað og piprað eftir smekk.

Í þessari uppskrift sleppti ég rauðlauk þar sem ég vildi meiri andstæður í bragði á milli jackfruit-sins og guacamole-sins.

Sósa

3 msk vegan mæjónes

2 tsk tómatsósa

1 tsk sinnep

0,5 tsk karrí

salt og pipar eftir smekk

Öllu blandað saman í litla skál.

Samlokan sett saman

Brauðin skorin í sundur og hituð í 5-6 mín í ofni á háum hita. Sósu smurt á bæði brauðin síðan er guacamole, jackfruit, veikoni, grænmeti raðað listilega á. Mér finnst alltaf skemmtilegra að borða fallegan mat!  

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni