Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Kringlur

Kringlur

Síðasta sumar keyrðum við fjölskyldan frá Hollandi til Ítalíu. Í einum af mörgum bensínstöðvarstoppunum í Þýskalandi keypti ég mér kringlu (e. Pretzel) með sinnepi. Þetta var eitt af því allra besta sem ég fékk mér í því ferðalagi og þegar ég kom heim var ég ákveðin að prófa að gera kringlur sjálf. Ég leitaði lengi að heppilegri uppskrift og rakst svo á þessa á YouTube rás sem heitir Bigger, bolder baking. Í fyrsta skipti sem að ég gerði kringlur þá kláruðum við þær á uþb 10 mínútum. Þær voru einfaldlega dásamlegar. Það eru ýmsir möguleikar til að bragðbæta þær og ég hef prófað að sjóða þær í vatni og bjór. 

Þetta er svolítið tímafrek uppskrift en algjörlega þess virði. Mér finnst best að skella í deigið um kvöld og leyfa blöndunni að hefast yfir nótt.

Kringlur

420 g hveiti - best er að nota brauðhveiti

1 1/2 tsk salt

1/4 tsk ger

1 msk sykur

310 ml vatn

Aðferð

Setja allt í skál en þó þarf að passa að setja saltið ekki yfir gerið. Ég set hveiti fyrst og svo salt í eitt hornið, ger í annað og sykur á milli. Þetta er gert til að saltið 'afvirkji' ekki gerið. Hella svo vatninu varlega saman við og blanda öllu saman. Deigið á að vera blautt en á ekki að klístrast mikið. Setjið svo plastfilmu þétt yfir skálina og viskastykki yfir filmuna. Leyfið að hefast í það minnsta 12 tíma, helst 18 tíma.

Áður en farið er að vinna með deigið finnst mér gott að hafa allt tilbúið sem ég mun nota því ekki er gott að láta kringurnar bíða eftir að þær koma úr suðu.

Fyrir suðuna:

1 1/2 lítri vatn 

6 tsk matarsódi

eða

Þrjár stórar dósir af bjór eða malti

Til að pensla á kringlurnar

Ég er mikið á móti hvers kyns matarsóun og þess vegna hefur mér alltaf fundist það mikil sóun að eyða heilu eggi til þess eins að pensla ofan á hvers kyns brauðbakstur. Þannig í staðin fyrir egg nota ég aquafaba. Aquafaba er baunasafi og ég nota yfirleitt kjúklingabaunasafa. Ég einfaldlega geymi vökvann úr baunadósinni í krukku inni í ísskáp og nota í ýmislegt. Úr aquafaba er t.d. hægt að baka marengs, búa til mæjónes og nota sem 'penslunar' egg.

1 dl Aquafaba - meira ef þarf

Saltflögur - einnig er hægt að setja kúmen, rósmarín eða kryddjurtir

Eftir bökun

Bráðið (jurta)smjör til að pensla yfir kringlurnar 

Þegar deigið hefur tvöfaldast að stærð er kveikt á ofninum á 220° C og deigið lagt á hveitistráð borð og skipt í ca 10 jafna hluta. Gott er að leyfa deiginu að hvíla á borðinu í um það bil tvær mínútur. Taka svo einn hluta og rúlla í lengju, um 50 cm að lengd. Sniðug leið til að lengja deigið er að halda í annan endann og slá lengjunni létt á borðið þar til að réttri lengd er náð. Snúið svo upp á endana og mótið kringlu. Þetta getur tekið smá æfingu að ná fallegu formi en einnig er hægt að skera lengjuna í litla bita og snúa upp á þá einu sinni eða jafnvel bara skera þá í litla bita. Allt verður þetta jafn bragðgott!

Þegar allar kringlurnar eru tilbúnar er þeim dýft varlega ofan í sjóðandi vatnið (eða bjór) í 30 sekúndur. Þarna er best að hafa ofnplötuna tilbúna nálægt pottinum einnig aquafaba og því sem verður stráð ofan á kringlurnar.

Ég nota einn spaða til að setja kringlurnar í pottinn og svo fiskispaða til að veiða upp úr. Annars festast kringlurnar frekar við spaðann. Þegar kringlurnar eru komnar á ofnplötuna er hægt að laga þær örlítið til. Pensla svo með aquafaba og strá salti/kryddi/kryddjurtum yfir og baka í 15 mínútur eða þar til gullinbrúnar.

Pensla með bráðnu smjöri þegar þær eru komnar úr ofninum. Berið fram strax. Sérstaklega gott er að dýfa kringlunum í sterkt sinnep.

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni