Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Samkennd þjóðar skiptir öllu máli

Samkennd þjóðar skiptir öllu máli

Á örlagastund þegar öll sund virðast lokuð, þegar öllum lögum og reglugerðum hefur verið fylgt út í ystu æsar og engin undanþága er veitt, þegar stofnanir beita frávísun og ráðherrar eru ráðalausir, getur aðeins samkennd þjóðarinnar bjargað.

Við búum til og búum við lög og reglugerðir, löggjafar,- dóms- og framkvæmdavald en það koma stundir þegar kerfið og regluverkið og skynsemin sjálf eru sem luktar dyr andspænis þjáningu einstaklings eða fjölskyldu.

Ekki er víst að kerfið hleypi fátæku barni, hælisleitenda, flóttamanni eða sjúklingi inn í hús sitt, því það finnur ekki sársauka annarra. Þjóðin getur aftur á móti opnað hjarta sitt fyrir aðstæðum annarra.

Þjóð sem getur lifað sig inn í þjáningar annarra getur einnig rétt hjálparhönd.

Til er vald sem sjaldan er tekið tillit til en getur þó yfirbugað allt annað, það er vald þjóðarinnar. Til er vald sem ekki er nefnt í Stjórnarskrá Íslands og aðeins þjóðin sjálf getur tekið sér þegar hún finnur til og þegar henni ofbýður.

Kerfið getur lokað dyrum sínum en það getur þjóðin ekki, því í sameiginlegu minni hennar býr þjáning og kvöl genginna kynslóða og sá lærdómur skapar nú samkennd með öðrum, einstaklingum og hópum.

Lýsandi dæmi um þetta var þegar tveimur albönskum fjölskyldum með langveik börn, Kevi og Arjan, var vísað úr landi. Þjóðinni ofbauð meðferðin sem þær fengu í kerfinu, fann til með þeim og mótmælti kröftuglega þangað til að kerfið opnaði dyrnar fyrir þeim. Aðeins þjóðin gat bjargað þeim.

Samkennd þjóðarinnar knúði svo sterkt á að Alþingi veitti þeim íslenskan ríkisborgararétt eftir að Hermann Ragnarsson, fulltrúi þjóðarinnar, sótti um hann fyrir fjölskyldurnar. Þjóðin fann sárlega til með öðrum, kannaðist við kvölina og gat rétt hjálparhönd.

Þjóðin getur dregið lærdóma af þessu verki: að viðbrögð hennar á örlagastundu skipta máli, jafnvel öllu máli og geta breytt stöðunni til betri vegar. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni