Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Óttinn við lýðræðisferli yfirunninn

Óttinn við lýðræðisferli yfirunninn

Hvernig bregst hópur við nýjum valkostum, hópur sem þekkir aðeins einn kost vel? Ef þekking og reynsla takmarkast af einum sið og venju, hvað getur þá hvatt fólk til að opna hug sinn fyrir nýjum siðum og hugmyndum? Ef til vill ábending um réttlæti og að engin ástæða sé til þess að óttast lýðræðið.

Fegurðin við lýðræðið

Hópur sem venst tiltekinni menningu eða aðferð of lengi, telur oft að hún sé sú eina sem hafi merkingu. Hópur sem elst til að mynda upp við átakamenningu ályktar oft að friðarmenning sé aðeins fyrir draumórafólk. En svo er alls ekki, því hún er valkostur fyrir lífið, samkenndina og réttlætið. Sá sem eflir með sér hugrekki getur yfirbugað óttann gagnvart breytingu.

Lýðræði og jöfnuður eru svo dýrmæt að þau mega aldrei glatast því þau fela í sér að vald almennings, viska og kraftur finni sér farsælan farveg. Fegurðin við lýðræðið er flæðið þar sem eitt tekur við af öðru í tímans rás. Hættan sem lýðræðið stendur iðulega frammi fyrir er að þeir sem fengir voru til að stýra skútunni um stund, vilji ekki sleppa stýrinu og týni áttum. 

Alvarlegar athugasemdir

Forsetaskosningar eru framundan í lýðveldinu Ísland. Nýir kostir bjóðast, frambærilegt fólk býður fram krafta sína, hugmyndir og hugsjónir. En fráfarandi forseti sem bjó sig undir að stíga á land, hætti við það á ögurstundu og vill sitja áfram við stjórnvölinn og biður um meðbyr. Af þeim sökum má gera tvær alvarlegar athugasemdir við framboð fráfarandi forseta. Önnur varðar réttlæti og hin lýðræði.

1. Sjónarmið réttlætis er ekki virt. Engar ásættanlegar forsendur réttlæta það að forseti sem setið hefur frá árinu 1996 komi sjálfum sér skyndilega og óvænt í forréttindastöðu gagnvart öðrum frambjóðendum. Hann lofaði að hverfa á braut. Framboðið er ekki aðeins óréttlátt gagnvart mögulegum forsetaefnum, heldur einnig gagnvart þjóðinni og lýðræðisferlinu í landinu. 

2. Sjónarmið lýðræðis er ekki virt. Framboð forseta sem setið hefur í 20 ár vinnur gegn heilbrigðu lýðræðissamfélagi, það fer út fyrir mörk velsæmis og skynsemi. Sjónarmið lýðræðisins verður  undirskipað af hagsmunum einstaklings sem nýtur mikilla forréttinda. Það skiptir engu hver maðurinn er, hversu mikið traust hann hefur búið við og hversu vel hann hefur staðið sig, Það grefur undan lýðræðinu og eðlilegri framvindu að sami aðili sitji við stýrið í aldarfjórðung.

Framboð forsetans virðir hvorki sjónarmið réttlætis né lýðræðis

Allt hefur sinn tíma. Sá forseti sem telur sig ómissandi og þekkir ekki vitjunartíma sinn strandar óhjákvæmilega, því lýðræði er hreyfing, þróun og breyting en ekki stöðnun og forréttindi. 

Blómlegt lýðræði

Ótti fólks við breytingar getur skaðað farveg lýðræðisins, straumur þess stöðvast og lón myndast sem síðar brestur með flóðum. Jafnvel þótt forseti telji sjálfan sig greindari, slyngari og reyndari en aðra og jafnvel þótt hann sé það, þá er skylda forseta að víkja fyrir nýjum tímum æðri en skylda hans að standa vörð um það gamla – sem þegar brestur í. 

Framboð þaulsetins forseta sem býður sig enn á ný fram er ekki þýðingarmeira en annarra frambjóðenda heldur minna virði. Hann verður Þrándur í götu tíðarandans og stöðvar enn og aftur gleðina sem felst í breytingunni.

Það er einfaldlega betra fyrir lýðræðið að velja aðra mannkosti fremur en þann sem núþegar hefur verið þar of lengi. Það er engin ástæða til að óttast lýðræðisferlið. Óttumst ekki, verum hughraust, hugsum núna um aðra kosti.

Blómlegt lýðræði er meginmarkmiðið. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni