Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Lymskan kveikir elda þar sem ekkert getur brunnið

Lymskan kveikir elda þar sem ekkert getur brunnið

Ein aðferðin til að varpa ljósi á lesti og galla sem greina má í samfélaginu er að semja lýsingar á manngerðum í anda forngríska heimspekingsins Þeófrastosar sem nam í Akademíu (háskóli) Platóns og varð fyrsti skólastjóri Lýkeion (menntaskóli) Aristótelasar í Aþenu. Hann ritaði bókina Manngerðir um þrjátíu ámælisverð sérkenni í háttum manna, t.d. smjaður, óskammfeilni, málæði, nísku, óþokkaskap, meinfýsni og dindilmennsku.

En hvað eru manngerðir? Hægt er að semja þessar manngerðir með ýmsu móti en sennilega hugsaði Þeófrastros þær oftast sem orðabóka-skilgreiningar um gagnrýnisvert háttalag. Þær lýsa sérkennum í siðum manna – karakter.  Hér er dæmi um aðferð hans:

 „Kvörtunargirni er gagnrýnin afstaða til eigin hlutskiptis – umfram það sem góðu hófu gegnir. Kvörtunargjarn maður er einhver svona: Vinur hans er búinn að senda honum matarskammt, en hann segir við sendilinn: „Ekki unni mér húsbóndi þinn súpunnar og vínsins fyrst hann bauð mér ekki í veisluna.“

Annað dæmi: „Hann finnur peningapung á götu og andvarpar: Aldrei finn ég fjársjóð.“ Hann er aldrei ánægður, allt gæti verið betra en það er. „Vinir hans efna til samskota fyrir hann og einhver segir: Vertu ánægður! Og hann svarar: Hvers vegna skyldi ég vera það? Það þarf að borga hverjum aftur sitt silfur og þar að auki ber mér að sýna þakklæti eins og um góðverk sé að ræða.“ (Þeófrastros. Manngerðir. HÍB. 2007, bls. 110-11, þýðing: Gottskálk Þór Jensson).

Aðferðir til að gagnrýna

Sá sem vill gagnrýna og benda öðrum á eitthvað sem miður fer í samfélaginu getur notað ýmsar aðferðir og stílbrögð. Hann getur skrifað grein í blöðin eða bloggað og sumir hafa tækifæri og hæfileika til að tjá sig með myndrænum hætti (eins og Halldór).

Það gæti aftur á móti verið skemmtilegt og aukið fjölbreytni í gagnrýni í samfélaginu og fjölmiðlum að nota aðferð Þeófrastosar og skrifa upp manngerð til að gagnrýna hópa, flokka, skoðanir eða sterkar tilhneigingar og lesti eins og spillingu, græðgi, heimsku og hégóma. 

Lymska kveður sér hljóðs

Ég ætla að gera tilraun til að gagnrýna lymsku (slægð, undirferli, lævísi, óhreinlyndi) sem greina má í samfélaginu um þessar mundir með því að gefa henni orðið og veita með því innsýn í kjarna hennar en leyfa lesanda að draga ályktun sjálf/ur:

Lymskan opnar sig: 
"Ég hef farið um víðan völl og þekki marga merka menn. Ég hef lesið margar bækur og fylgist vel með fréttum. Í fáum orðum sagt er ég veraldarvanur heimsborgari sem hefur lært að sannleikurinn er ekki til utan mannsins því maðurinn er mælikvarði allra hluta. Lífsmottóið mitt er: „Sannleikurinn er afstæður“, þessi forna speki sem lesa má um í ritum Platóns, mesta heimspekings Vesturlanda, hefur reynst mér ákaflega vel - eða ég bara spyr: hver hefur umboð til að dæma um rétt og rangt - nema hver um sjálfan sig? Þetta er allt spurning um viðmið og sjónarhorn. Fullyrðingar eru ekki sannar eða ósannar heldur betri eða verri eftir því hvernig þær henta í sérhvert sinn. Aðeins þekking sem kemur að gagni er einhvers virði, því ekkert er algilt, heldur bundið stað og tíma. Það sem mér finnst vera rétt er rétt og enginn hefur leyfi til að segja að ég hafi rangt fyrir mér. Eða er einhver tilbúinn til að segja að hann sé æðri öðrum? Ég get sagt þér að siðareglur eru einungis gerðar til að halda múgnum í skefjum; hógværð, réttlæti og góðsemi eru allar settar á oddinn í samfélögum til að gera fólk ánægt í sinni lítilvægu gleði. Það er allt og sumt - en ég veit betur."

Smjörklípan

Hér fékk lymskan orðið en hún er sérfræðingur í því að fá fólk til að hugsa um eitthvað annað en það sem skiptir máli. Hinn lymskufulli er oft hálaunamaður.  Lymskan kveikir elda þar sem ekkert getur brunnið. Þetta er stundum kallað á Íslandi: smjörklípuaðferðin. Eina leiðin til að varast lymskuna er að þekkja hana og vita með sjálfum sér, hvað skiptir máli í raun. 

Það er ómögulegt að kveða lymskuna niður en nauðsynlegt að halda henni í skefjum.

En hvernig er smjaðrarinn gerður? Og nískupúkinn eða sá hrokafulli og hvernig er þeirra mannlýsing og –gerð? Gunnar Hersveinn rithöfundur mun draga upp nokkrar manngerðir sem lýsa t.d. þrjósku, leti og hégóma, og Sigurbjörg Þrastardóttir skáld mun rýna í samfélagsmiðla, auglýsingar, minningargreinar og bókmenntir þar sem greina má skemmtilegar mannlýsingar og –gerðir - í heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 17. febrúar 2016 klukkan 20 og eru allir velkomnir í boði Borgarbókasafns Reykjavíkur. Ef til vill verða mannlýsingar og -gerðir framtíðarstílbragð í fjölmiðlum?

Skrá sig á heimspekikaffi með Gunnari Hersveini í Gerðubergi

Borgarbókasafnið - heimspekikaffi 17. febrúar

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni