Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Ríkisstjórn alþingismanna er svarið

 

Ef til vill er fólk alveg að missa áhugann á myndun næstu ríkisstjórnar, hver verður hún og hvernig hún mun starfa? 

Fólkið í landinu kaus persónur sem það treysti til að starfa sem alþingismenn næstu fjögur árin. Það treystir því enn og óskar því heilla. Fólkið fól þessum fulltrúum valdið og þau hafa tekið verkefnið alvarlega og vilja vanda verkið. En hvernig verður næsta ríkisstjórn? Það skiptir öllu máli hvernig hún verður, alveg á sama hátt og að það skipti öllu máli hvort það yrði Trump eða Hillary í Bandaríkjunum. Trump er um þessar mundir að mynda hræðilega ríkisstjórn. Á Íslandi er margt undir og tvísýnt.

Á Íslandi liggur liggur ekki lífið á varðandi næstu ríkisstjórn. Endilega talið saman, rökræðið, ekki gefast upp. Aðrar kosningar eru ekki valkostur. Við fólkið í landinu völdum ykkur og við viljum góða ríkisstjórn sem virðir allt fólk óháð búsetu á landinu og getur einnig brugðist fallega við krísum í öðrum löndum og veitt þeim umhyggju.

Við (fólkið) viljum ríkisstjórn sem pælir ekki aðeins í hvað hún geti gert fyrir valda hagsmunahópa, (því það er alltaf rangt að velja úr). Verkefnið er ævinlega jöfnuður, enginn gæti viðurkennt annað, eða mótmælir einhver?

Að mynda ríkisstjórn er feikilega vandasamt verkefni og það á alltaf að taka langan tíma. Ríkisstjórnin þarf að setja sér megingildi. Fyrir borgara landsins gæti það verið mannréttindi, ábyrgð, fjölskyldan, jafnrétti og virðing.

Það er margt óvænt og fallegt sem getur átt sér stað og sá möguleiki er til staðar eftir þessar alþingiskosningar. Við kusum til alþingis, þetta fólk sem þar situr og það hefur nú þegar tækifæri og völd sem það þarf að virkja. En það er alltaf spurning hver tekur valdið. (Jafnvel þótt við höfnum freka karlinum þá er hann alltaf til staðar).

Meirihluti þessa fólks, sem nú er á alþingi, býr yfir hugsjón um samfélagið sem bætir það og er í samræmi við helstu gildin sem fólkið þráir að sjá verða að veruleika: frelsi, náttúruvernd, réttlæti, samábyrgð og fjölskyldan svo dæmi sé tekið. Það er greinilega ekki eftir neinu að bíða. 

Ef stjórnmálaflokkunum tekst ekki að mynda ríkisstjórn í eigin nafni þá er komið að alþingismönnum að taka við keflinu. Aðeins þarf meirihluta á þingi, það er í raun ekki háð stjórnmálaflokkum. Enn er von á ríkisstjórn en hver verður hún?

Óska-ríkisstjórn þjóðarinnar yrði þá alþingismenn sem myndu leysa klyfjar flokkanna og ljúka upp kistum hugsjóna sinna og gera tilraun til að skapa framtíð. Það er þess virði. 

Allt sem við viljum er lýðræði og jöfnuður, 

yðar einlægur,

Gunnar Hersveinn.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu