Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Leitin að svari í samfélaginu

Leitin að svari í samfélaginu

Hvert liggur leið? Oft er sagt að allir leiti leynt eða ljóst að hamingju en ef til vill væri betra að segja að allir leiti að svari. Nokkrir telja sig finna svarið og hanga í því eins og það væri haldreipi tilverunnar. Aðrir efast um allt og festa ekki hönd á neinu. En hvert er svarið?

Á örlagastundum sprettur svarið óvænt fram og verður öllum ljóst.

Við getum leitað að hverju sem er og að sumu leyti er allt tínt, við höfum tilhneigingu til að glata, allt sem er, er að verða eitthvað annað, ekkert er stöðugt í huga okkar, lífið er ævinlega ógert.

Við þurfum ekki nauðsynlega að leita að hamingju eða guðsríki. Við leitum vissulega að skjóli ef við erum svipt öryggi, og fæði ef það er matarskortur, og vinsemd ef við erum ein, og virðingu ef hún lætur á sér standa, en það er eitt svar sem allir hafa heyrt um en enginn skilur fyrr en á reynir. Það getur auðveldlega gleymst.

Margar bækur eru til um svarið, trúarbrögð og lífsskoðanir, heil mannkynssaga en þrátt fyrir það gleymist það of oft og við lendum í of mörgum ógöngum og óþarflega miklum flækjum.

Við getum komið auga á svarið með rannsóknum, við getum greint það og mælt, vegið og metið, við getum lært það og stundað það, en við „finnum“ það ekki í tvöfaldri merkingu þess orðs nema við tilteknar aðstæður og þá birtist það og verður öllum augljóst.

Það er ekkert dularfullt við svarið eða yfirnáttúrulegt og það má vissulega finna því stað í taugakerfinu en það er eldra en framheilinn og hefur þróast með manninum frá öndverðu.

Það hefur verið orðað í líffræði, heimspeki, sálfræði, trúarbragðafræði og öðrum hug- og félagsvísindum. Skilgreint og flokkað en þó er það alltaf jafn fallegt og satt, þegar það brýst fram. Það hefur fengið mörg nöfn, eitt þeirra er samlíðun sem felst í því að geta liðið með öðrum á jafnréttisgrunni og rétt þeim hjálparhönd sem þurfa á henni að halda.

Þrátt fyrir að fullyrt sé að fólk sé fullt sjálfselsku og hugsi fyrst og fremst um eigið skinn, öryggi, fæði og fjölskyldu þá brýst fram kennd sem á ekkert skylt við rök eða efnislegar ástæður, hún brýst fram þegar aðrir missa allt í hamförum hvort sem er af mannavöldum eða náttúrunnar.

Samlíðun með öðrum brýst fram meðal almennings og það er sama hvað yfirvöld á hverjum stað mæla eða gera, það skiptir engu máli. Þannig var það gagnvart fórnarlömbum flóðbylgjunnar í Indlandshafi og jarðskjálftans á Haítí og þannig er það gagnvart flóttafólkinu frá Sýrlandi, Írak og fleiri löndum. Samlíðun var svarið.

Samlíðun er ekki vorkunn, hún er samkennd, hún er umhyggja fyrir ókunnugum og geta sett sig í spor annarra. Hún er mannleg meginregla sem við verðum ekki svipt, ekki einu sinni með heilaþvotti. Hún er miðjan í allri mannúð og hún hlustar ekki á úrtölur. Hún er umhyggja og kærleikur. Hún er charity, agape, karuna og compassion.

Víðast hvar á jörðinni hafa  sprottið af henni margskonar en lykilsetningar í ólíkum samfélögum. Dæmi um það eru ráðleggingarnar: „Ekki gera öðrum það sem þér viljið ekki að þeir gjöri yður.“ (Konfúsíus 551-479 f. Kr) og „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Jesús, fjallræðan Matt. 22.37-39). Skynsemin orðar þetta svona en kjarninn er samlíðun.  Eitthvað á þessa leið skrifaði heimspekingur „Breyttu eftir þeim lífsreglum sem þú vilt jafnframt að aðrir breyti eftir.“ (Immanuel Kant 1724–1804).

Einnig hvíla nokkrar frelsiskröfur á samlíðun t.d. frelsi frá ótta, frelsi frá kvölum, frelsi frá skorti og frelsi til að lifa mannsæmandi lífi. 

Heimspekikaffi í Gerðubergi

Gunnar Hersveinn rithöfundur mun takast frekar á við leitina að svari í mannheimum á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 16. september kl. 20 og Þóroddur Bjarnason myndlistarmaður skoðar málið m.a. út frá spurningunni um hvort hægt sé að fullgera lífið eða hvort það sé ævinlega ógert og ósvarað. Hvert er svarið? Allir velkomnir, enginn aðgangseyrir.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni