Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Kjörin veisla fyrir bókaklúbba

Kjörin veisla fyrir bókaklúbba

Sagan Veisla í greninu veitir lesendum tækifæri til að ræða muninn á vinsamlegum og fjandsamlegum samskiptum og mannréttindi barnsins. Bæði er hægt að ræða það sem birtist í bókinni og einnig það sem skortir.  Um að gera er að ræða verkið út frá nokkrum forsendum. Þessi bók hentar að mínu mati óumræðanlega vel í bókaklúbbum allra landsmanna.

Sagan sem höfundurinn, Juan Pablo Villalobos, segir með orðum hins unga Totchtli sýnir hvernig hugarfar mótast eftir umhverfi sínu. Hún er rituð út frá sjónarhóli og með hugsun og skynjun drengsins í öndvegi, það eru ályktanir hans en ekki annarra sem ráða för. Bókin er því sannkölluð lestrarupplifun.

Höfundurinn er búsettur í Barcelona á Spáni en ólst upp í borginni Lagos de Moreno í Jaliscofylki á vesturströnd Mexíkó. Hann var sjálfur lestrarhestur frá því hann man eftir sér. Hann lauk meistaragráðu með því að skrifa ritgerð um argentínska rithöfundinn César Aira og doktorsgráðu um valda rithöfunda Rómönsku-Ameríku. Veisla í greninu var fyrsta bókin hans og er skrifuð í anda eða stíl bókar eftir Nellie Campobello frá Mexíkó. Veisla í greninu hefur komið út í 17 löndum og fengið virt verðlaun. Bókin gerði Villalobos kleift að helga sig ritstörfum. Bókin kom út 2010 og árið 2017 hjá Angústúru í þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur.

Bókin er sérlega vel skrifuð og þýdd. Við endurlestur minn einn góðan janúarmorgun 2020 eða á 10 ára afmæli verksins urðu nokkur hugtök umhugsunarefni.

Frelsi án réttinda

Drengurinn Totchtli þekkir ekki margt lifandi fólk því hann er einangraður í höll sem pabbi hans á. Pabbinn er greinilega glæpamaður, einhvers konar eiturlyfjasali eða -kónur. Strákurinn gengur ekki í skóla heldur kemur kennarinn til hans. Totchtli dýrkar dýr á einhvern óvenjulegan hátt en dýrin eru flutt í hallargarðinn og í búr því hann getur sjálfur ekki farið í dýragarða. Það er því reglulega talað um dýr og viðhorf til þeirra í bókinni og drengurinn þráir að eignast dvergflóðhest frá Líberíu. Allt þetta vekur lesendur til umhugsunar um dýravernd, veiðiþjófnað og útrýmingarhættu lífríkis.

Strákurinn getur ekki boðið krökkum heim til að leika og leikfélagar á sama aldri eru ekki æskilegir í höllinni að mati pabba hans. Playstation leikjatölvan verður að duga. Hann á hvorki móður né systkini, aðeins pabba sem vill að hann kalli sig Yolcant. Drengurinn umgengst fyrst og fremst karla sem eru á launum hjá pabba hans. Hugarfar hans mótast af þessu og þær ályktanir sem hann dregur um mannlífið. Hann býr alls ekki við réttindi barnsins og það frelsi sem hann telur sig búa við er allt í föstum skorðum.

Ofbeldi og samskipti

Drengurinn er ekki beittur líkamlegu ofbeldi en reynir að tileinka sér tiltekna eiginleika og valda styrkleika og hrífst af sögum og kvikmyndum um stríð, lík og blóð. Strákurinn dáist mest af Frökkum af öllum þjóðum vegna þess að þeir fundu um fallexina sem sneiðir höfuðin af svo snyrtilega.

Á heimili þeirra feðga eru margir skápar fullir af leyndarmálum, peningum, skartgripum og vopnum. „Þess vegna þekki ég fáa, þrettán eða fjórtán. Vegna þess að ef ég þekkti fleiri, myndu þeir ræna peningunum af okkur eða svíkja okkur eins og Mazatzin. Yolcaut segir að við verðum að verja okkur. Gengi snúast líka um það.“ (22). Drengurinn lærir ýmsa mannlega galla og fer á mis við uppbyggileg gildi. Höfundurinn segir það þó ekki upphátt heldur þarf lesandinn að hugsa það sjálfur – sem er einmitt það skemmtilega við bókmenntir.

Það er vandasamt að læra vinsamleg samskipti í höllinni. Strákurinn elst upp við ofbeldi og sér aldrei friðsamlegar lausnir í verki. Stjórnmálamenn virðist t.d. tilheyra fylkingu sem flækist bara fyrir alvöru viðskiptum. „Haltu kjafti, stjóri, hvað í fjandanum heldurðu að þú vitir? Taktu ölmusuna þína, fáviti. Hypjaðu þig, drullusokkur,“ (29) öskrar Yolcaut.

Karlmennska og sannleikur

Hugtökin sannleikur og karlmennska eru spyrnt saman í bókinni, einnig tign eða konungdómur. Pabbi hans er kallaður Kóngurinn í fjölmiðlum. Drengnum er mikið í mun að skipa sér í flokk karlmennskunnar. „Það góða var að ég reyndist vera karlmenni og Yolcaut leyfði mér að fara áður en þeir breyttu hommatittinum í lík.“ (23). Hann flokkar karla í tvo hópa. „Stundum eru karlmenni ekki hrædd og þess vegna eru þau karlmenni.“ (30). Hann er líka hreinskilinn en um leið dómharður við sjálfan sig. „Þá kom í ljós að ég er ekki karlmenni og ég fór að gráta eins og hommatittur. Ég pissaði líka í mig.“ (72). Hann leggur loks á flótta undan sjálfsmynd sinni og:

Ákveður að vera mállaus samúræji í bíómynd.

Sonurinn er ekki sammála föður sínum í einu og öllu og er sár yfir að hann hafi logið vísvitandi að sér. Hann segir „Yolcaut finnst þetta vera þvæla vegna þess að honum er sama um sannleika og lygar.“ (48). Sonurinn vill gera skýran greinarmun á þessu tvennu en pabbinn þarf óhjákvæmilega að vera undir fölsku flaggi og nafni og hann treystir engum. Strákurinn kemst að þeirri niðurstöð að: „þú þarft að vera eðlilegur til að vera góður í að ljúga og svíkja.“ (54).

Veisla í greninu er kjörin til lestrar í bókaklúbbum því hún vekur lesendur til umhugsunar og hefur upp á alls konar umræðuefni að bjóða t.d. um frelsishugtakið, karlmennskur, sannleikann, friðarmenningu og dýravernd og síðast en ekki síst um réttindi barnsins. 

Veisla í greninu, 103 bls.
Juan Pablo Villalobos
Angústúra, 2017

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni