Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Hjartsár bók um mæðgin í Jóhannesarborg

Hjartsár bók um mæðgin í Jóhannesarborg

Angústúra gaf út, í íslenskri þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur, bókina Glæpur við fæðingu - sögur af Suður-afrískri æsku eftir Trevor Noah. Þetta er mannbætandi bók, full af tárum og hlátri. Trevor Noah er einnig uppistandari og stjórnmálaskýrandi, sem margir þekkja úr bandarísku sjónvarpsþáttunum The Daily Show.

Höfundurinn fæddist í Jóhannesarborg árið 1984 á tímum apartheid í Suður-Afríku. Móðir hans Patricia Nombuyiselo Noah hans var flokkuð sem svört en pabbi hans sem hvítur (Swisslendingur) en samband þeirra var óleyfilegt samkvæmt siðleysislögunum og þaðan kemur nafnið á bókina Glæpur við fæðingu. Sjálfur var Trevor oftast flokkaður sem litaður en það gat oltið á ýmsu. Bókin veitir upplýsandi innsýn í manngerða flokkun og fordóma sem byggja fyrst og fremst á grimmilegum kúgunartilburðum. Enda segir mamma hans við hann „Heimurinn elskar þig ekki.“ „Ég elska þig“ (305). 

Eitt af því sem Trevor lærði var að flokkunarkerfi eftir litarafti ruglaðist ef röddin, hreimurinn og tungumálið passaði ekki við útlitið.  „… ótal önnur dæmi í lífi mínu hafa fengið mig til að skilja að tungumál jafnvel fremur en litaraft, skilgreinir hver maður er í augum annarra“ (80). „Ef þú talar við mann á tungumáli sem hann skilur, nærðu til hugans. Ef þú talar við hann á hans eigin tungu, nærðu til hjartans“ (295). Hörundsliturinn breyttist ekki en hann gat fengið fólk til að sjá sig í öðru ljósi. Ef hann talaði eins og viðmælandinn þá hvarf liturinn sjónum hans.

Mannbætandi bók, full af tárum og hlátri.

Einnig festist fólk inn í kvíum sínum og tekur ákvarðanir og myndra sér skoðanir út frá röngum sjónarhólum en ekki út frá mannúð: „Hann langar aðeins í frjálsa konu vegna þess að hann dreymir um að setja hana í búr“ (317). „Þeir voru karlmenn fyrst, síðan lögregluþjónar“ (322). Svo mikið var lagt upp úr hlutverki karlmennskunnar að það skyggði á verkefnin sem þurfti að sinna. 

Söguhetja bókarinnar er, fyrir utan hann sjálfan, móðir hans sem sýnir óbilandi staðfestu, aðdáunarverða útsjónarsemi og vilja til að ala upp barn í óvinveittu umhverfi. Trevor tileinkar móður sinni bókinni með þakklæti fyrir að koma honum til manns. Óskarsverðlaunaleikkonan Lupita Nyong’o mun framleiða kvikmynd eftir bókinni og leika mömmuna.

Trevor Noah skrifar um uppeldi sitt og bækur: „Mamma gaf mér tólin og tækin svo ég gæti staðið mig. Hún kenndi mér ensku sem fyrsta  mál. Hún las stöðugt fyrir mig.“ „Bækurnar voru gersemar mínar. Ég las þær spjaldanna á milli. Mér þótti vænt um hverja eina og einustu“(95).

Mamma kenndi mér það sem skólinn gerði ekki. Hún kenndi mér að hugsa (97).

Tengill

Glæpur við fæðingu

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni