Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Alþjóðaár friðar og trausts 2021

Alþjóðaár friðar og trausts 2021

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst 2021 sem alþjóðaár friðar og trausts í heiminum. Verkefnið felst m.a. í því að þróa vináttusamband þjóða en brýnt er að leysa deilur eftir friðsamlegum leiðum og koma í veg fyrir að næstu kynslóðir þurfi að glíma við afleiðingar af stríðum.

Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er friður og réttlæti eða að stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir allt fólk, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir fyrir allt fólk á öllum sviðum.

Friður er ekki aðeins vopnahlé eða fjarvera átaka heldur líferni án hlekkja, landamæra, flokkunar og haturs. Og ekki aðeins það heldur staður og ástand þar sem vinátta og traust eflast og kærleikur vex. Þar sem við erum öll manneskjur.

Friður er afgerandi stefna og afstaða

Friði er ítrekað ruglað saman við hlutleysi eða fjarveru átaka, jafnvel kallaður vopnahlé. Það er mikill misskilningur.  Friður er alls ekki hlutlaust svæði eða afstaða heldur mjög öflugt og virkt ferli þar sem samtal á sér stað og greitt er úr viðvarandi árekstrum. Þar sem börnum er kennt að setja sig í spor annarra og jafnframt hvött til að skapa fallegt samfélag vináttu og jöfnuðar.

Friðarmenning felst í því að hlúa að veikustu þáttum samfélagsins og ráðast að rótum vandans sem oft er falinn í fátækt, óréttlæti, efnahagslegu misrétti, pólitík og félagslegum aðstæðum sem vekja hatur, deilur og ofbeldi.

Friðarmenningu fylgir líferni þar sem fólk tileinkar sér æðruleysi og örlæti. Hún felst í því að koma í veg fyrir aðskilnað, heift, heimsku og að draga hvarvetna úr líkum á félagslegu óréttlæti. Á alþjóðaári friðar og trausts er nauðsynlegt að fræða um þessi gildi og vakna til vitundar um þau. Hvað merkja þessi hugtök, hvernig ber að efla þau og rækta með fólki?

Friður og flóttafólk

Minna þarf reglulega á að fólk er ekki skilgreint út frá merð eða straumi eins og flóttamannastraumi. Enginn glatar mannréttindum sínum þótt hann týnist um stund í svokölluðum „straumi“ og enginn gefur þau eftir þótt hann tilheyri hópi um stund. Við þurfum að segja eitthvað og gera eitthvað til að halda þessu á lofti. „Við erum ekki alveg viss um hvort að orð geti bjargað lífi, en vitum fyrir víst að þögn getur vissulega drepið,“ sagði James Orbinski sem tók við friðarverðlaunum Nóbels árið 1999 fyrir hönd Lækna á landamæra. 

Hvað getum við gert?

Enginn ætti að búast við að aðrir bjargi heiminum, við verðum sjálf að standa vörð um hann. Hugtökin friður og traust eru lykilhugtök í öllum samskiptum og einnig í skilningi á sjálfum sér. Við þurfum að tala um frið og traust, rannsaka þau, skrifa um þau, læra þau og miðla þeim. 

Virkur borgari situr ekki hjá og fylgist bara með heldur tekur þátt og leggur eitthvað til. „Eitt er víst að friðsemdin stendur með lífinu og gleðinni en ofbeldið með dauðanum og þjáningunni," stendur í bókinni Hugskot, skamm-, fram- og víðsýni. (bls. 170). 

Ég óska ykkur árs og friðar.

Tenglar

Bandi: Sakfelling (N-Kórea)

Nawal El Saadawi: Kona í hvarfpunkti (Egyptaland)

Gaëls Faye: Litla land Rúganda/Búrúndí

Khaled Kalifa: Dauðinn er barningur (Sýrland)

Trevor Noah: Glæpur við fæðingu (S-Afríka)

Juan Pablo Villalobos: Veisla í Greninu (Mexíkó) mynd 1 og mynd 2

Danííl Kharms: Gamlar konur detta út um glugga –  (Rússland)

Höfði friðarsetur.

Friðsemd sprettur af hugrekki.

Uppbyggileg aðferð við að segja fréttir.

Ljósmynd af friðardúfu/Heiðdís Guðbjörg

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni