Þessi færsla er meira en ársgömul.

Réttlætið og reynsla kvenna af Varpholti/Laugalandi

Réttlætið og reynsla kvenna af Varpholti/Laugalandi

Rótin hefur fylgst vel með hugrakkri baráttu kvenna sem dvöldu í Varpholti/Laugalandi og reynt að styðja þær eftir föngum. Mánudaginn 14. nóvember stóðum við að umræðukvöld með þeim þar sem þær Gígja Skúladóttir og Íris Ósk Friðriksdóttir, sem báðar dvöldu á Varpholti/Laugalandi, höfðu framsögu. Fundurinn var tekinn upp og er aðgengilegur hér

Ég hélt þar erindi sem ég hef nú aðlagað til birtingar .  

Rótin sendi frá sér yfirlýsingu[1] í febrúar í fyrra, eftir að konur sem verið höfðu í Varpholti/Laugalandi stigu fram í fjölmiðlum og kröfðust réttlætis. Í yfirlýsingu Rótarinnar segir segir m.a:

Rótin krefst þess að gerðar séu upp þær ófaglegu og oft ofbeldisfullu aðferðir sem liðist hafa í meðferð bæði barna og fullorðinna. Litlar úttektir hafa verið gerðar á meðferðarkerfinu þar sem talað er við fólkið sem var í meðferð og t.d. var bara talað við yfirmenn í úttekt Embættis landlæknis á þremur meðferðarstöðum árið 2016 þar sem þær fengu allar falleinkunn.

Í þessu samhengi er rétt að geta þess að enn er beðið eftir heildarúttekt heilbrigðisráðuneytisins á þjónustuferlum, hugmyndafræði, innihaldi og gæðum heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma[2] þar sem jafnframt er verið að skoða möguleika á frekari samhæfingu heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu. Vinna við skýrsluna hefur nú staðið í eitt og hálft ár.

Einnig segir í yfirlýsingunni:

Miklir hagsmunir eru fólgnir í réttlæti til handa þeim sem beittir hafa verið ofbeldi innan stofnana sem reknar eru eða kostaðar af opinberum aðilum. Svo til öll börn sem þróa með sér vímuefnavanda glíma við undirliggjandi vandamál, eins og konurnar sem voru í Varpholti lýsa sjálfar. Vímuefnanotkunin er í raun viðvörunarmerki um að þau þurfi aðstoð fagfólks og velferðarkerfis. Mikilvægt er að gert sé upp við það óréttlæti og ofríki sem beitt hefur verið innan slíkra stofnana hér á landi og slíkt uppgjör er tímabært.

Þá sendi félagið frá sér yfirlýsingu[3] vegna framtíðar meðferðarheimilisins Laugalands í mars 2021 þar sem félagið tekur undir það sjónarmið kvennanna sem voru vistaðar þar og aðstandenda þeirra að nauðsynlegt sé að bjóða upp á kynjaskipta meðferð fyrir stúlkur. Hér er verið að tala um starfið á Laugalandi eftir 2007 þegar nýir rekstraraðilar voru teknir við starfinu.

Að lokum má nefna að undirrituð stýrði, fyrir hönd Rótarinnar, starfshópi um meðferð stúlkna með áhættuhegðun. Þar er m.a. bent á að:

… tölfræðigögn um hópinn liggja ekki á lausu og brýnt að bæta þar úr. T.d. virðast ekki hafa verið gerðar þjónustukannanir hjá þeim sem hafa verið í meðferð eða aðstandendum þeirra. Til að hægt sé að meta árangur og stuðla að gæðum er mikilvægt að gæðaskráning sé markviss.

Hegðunarmiðuð meðferð og þægar stúlkur

Það vakti líka athygli að meðferð í Laugalandi hefur fram að þessu verið mjög hegðunarmiðuð. Umbunar- og þrepakerfi sem styður við atferlismótun og árangur í að fylgja ákveðnum reglum, standa við samninga og að vanda sig í samskiptum, var notað í meðferðinni og í markmiðum meðferðar er lögð áhersla á þau atriði þar sem stúlkurnar þurfa að bæta sig. Þetta er mjög hegðunar og einstaklingsmiðuð nálgun öfugt við þá sérþekkingu sem orðið hefur til á síðustu árum á hegðunarvanda stúlkna og byggir á áfalla- og kynjamiðaðri þekkingu.

Meðferð við vímuefnavanda hefur fram á þessa öld aðallega byggst á rannsóknum á körlum, ef hún byggir á rannsóknum almennt. Þær Elizabeth Ettorre og Nancy Campbell, sem rannsakað hafa sögu meðferðar kvenna og stúlkna með vímuefnavanda, gefa þessum vanda heitið epistemologies of ignorance og benda á að meðferð kvenna og stúlkna sé iðulega veitt á grunni vanþekkingar á meðferðarþörfum þeirra. Þetta ber ætíð að hafa í huga í meðferð stúlkna og þó að vinna með hegðun sé hluti slíkrar meðferðar skal varast ofuráherslu á hlýðni, það sem á ensku er kallað compliance.[4] Markmið meðferðar á Laugalandi og Varpholti á árunum 1997-2007 virðist einmitt hafa miðað að því að búa til þægar og undirgefnar stúlkur og virðist markvisst hafa verið unnið að því að brjóta niður vilja þeirra og sjálfstæði.

Tólf spor og trúarlíf

Það er stórkostlegt undrunarefni að þangað til í fyrra hafi það verið alsiða að láta fólk sem ekki hefur sérfræðiþekkingu og starfsleyfi frá Landlækni stýra meðferðarstofnunum og meðferð. (Þarna er hægt að undanskilja áfengis- og vímuefnaráðgjafa sem samkvæmt reglugerð hafa ekki leyfi til að starfa sjálfstætt heldur í teymi fagfólks). Hlýtur það að kalla á nánari rannsóknir á gæðum meðferðarinnar sem var á ábyrgð Barnaverndarstofu.

Þannig var forstöðufólk í Varpholti/Laugalandi ekki með neina menntun eða verkfæri í höndum til að sinna þessu ábyrgðarríka starfi. Virðist tilviljunum háð að þau tóku upp svokallað þrepakerfi í meðferðinni, eftir heimsókn á annað meðferðar/vistheimili. Barnaverndarstofa virðist ekki hafa skaffað þessu fólki mikil verkfæri til að takast á við vanda barna sem voru svo illa sett að ákveðið var að fjarlægja þau af heimilum sínum heldur hafi hver rekstraraðili stýrt meðferðinni eftir eigin nefi.

Í tilfelli Varpholts og Laugalands á tímabilinu 1997-2007 hefur sú þekking sem helst var byggt verið 12 spora kerfið, sem hentar alls ekki fyrir börn og er ekki viðurkennt meðferðarform, og hins vegar kristin trú. Sporakerfinu var síðan breytt yfir í þrepakerfi sem virkaði sem refsikerfi. Fram kemur í greinargerðinni að allir starfsmenn á Laugalandi, nema einn, hafi verið í Hvítasunnusöfnuðinum og á fundi með konunum kom fram að reynt hafi verið að koma sem flestum í fóstur hjá fjölskyldum í söfnuðinum. Margar þeirra upplifðu trúarþátttöku sem kúgun jafnvel þó að þeim hafi þótt gott að komast úr húsi og fara á samkomur, fólkið þar var líka gott við þær.

Eins og bent er á í greinargerðinni byggist 12 spora starf „á tengingu við æðri mátt og því má gera ráð fyrir að farið hafi verið með bænir, eins og t.d. æðruleysisbænina, í tengslum við það“. Við erum því að tala um að hugmyndafræðileg og trúarleg innrætingu hafi verið hluti af meðferð stúlknanna.

Nú er gott að hinkra og minna sig á að við erum að tala um meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu ríkisins á 21. öld í landi sem hefur getið sér gott orð sem heimsmeistari í jafnrétti.

Það fór ekki hjá því að hugur minn flakkaði aftur til eftirstríðsáranna og myndar Ölmu Ómarsdóttur Stúlknanna á Kleppjárnsreykjum, um sögu „ástands“ stúlkna sem voru hnepptar í varðhald vegna „ósiðsamlegrar hegðunar“. Þar kraumaði reyndar þjóðernisstefna undir en siðaumvandanir og drusluskömmun sem stúlkurnar máttu líða á Varplandi/Laugalandi eru hluti af sama kerfi kúgunar kvenna.

Ég tel a vitnisburði kvennanna í skýrslunni þar sem þær tjá að þær hafi upplifað trúarlegt ofbeldi hafi ekki verið ekki verið veitt nægt vægi og er ósammála þeirri ályktun í greinargerðinni að gögnin gefi ekki tilefni til ályktana um ekki hafi verið um trúarlegar þvinganir.

Kerfislægt ofbeldi og kerfisofbeldi

Hugtökin kerfislægt ofbeldi (e. structural violence) og kerfisofbeldi (e. institutional violence) eru ekki skilgreint í skýrslu GEV. Hugtakið kerfislægt ofbeldi er skilgreint í tengslum við félagslegt réttlæti, og felur í sér mismunun sem einstaklingar í ákveðnum hópum verða fyrir vegna þess hvernig kerfi samfélagsins er uppbyggt.[5] Sólveig Anna Bóasdóttir orðar þetta þannig að kerfisbundið ofbeldi sé „misréttið í samfélaginu, það að konur eiga ekki jafna möguleika og karlar á að komast áfram o.s.frv.“

Þá segir hún:

Það er ekki hægt að skilja að ofbeldi sé svona algengt gagnvart konum nema að hugsa um í hvers konar samfélagi við lifum, hver er menning okkar og menningararfur. Hvernig hugsum við um karla og konur, hlutverk þeirra, eðli og eiginleika. Grunnurinn að ofbeldinu er svo breiður, ræturnar svo djúpar. Það ofbeldi sem við sjáum er aðeins toppurinn á ísjakanum og það sem er raunverulega skilgreint sem ofbeldi er enn minna.[6]

Kerfisofbeldi er hins vegar ofbeldið sem felst í því hvernig stofnanir bregðast við, eða bregðast ekki við, ofbeldi. Rithöfundurinn og fræðikonan Sarah Ahmed hefur skrifað mikið um hvernig kerfisofbeldi virkar.

Ég tel að þó að margt sé gott í Greinargerð um meðferðarheimilið í Varpholti og á Laugalandi 1997-2007, sé mörgum spurningum er enn ósvarað og konurnar sem dvöldu á Varpholti/Laugalandi eiga enn eftir að upplifa fullt réttlæti og viðurkenningu frá hinu opinbera. Til þess vantar meiri greiningu á efninu og tillögur um hvernig nýta skuli greinargerðina.

Ég vil þó taka fram að ég er algjörlega ósammála mati skýrsluhöfunda þegar þær segja:

Þegar þetta er metið í heild út frá þeim gögnum og upplýsingum sem aflað hefur verið vegna greinargerðar þessar eru ekki að mati höfunda neinar áreiðanlegar vísbendingar um að alvarlegu eða kerfisbundnu ofbeldi hafi verið beitt. [7]

Það hefði verið mjög til bóta ef höfundar hefðu rökstutt þessa fullyrðingu og skilgreint hvaða merkingu þær leggja í „alvarlegt eða kerfisbundið ofbeldi“ og hvaða skilgreiningar á kerfislægu ofbeldi og/eða kerfisofbeldi þær styðjast við.

Það sem ég sé í greinargerðinni er að allt vald var tekið af stúlkunum sem komu til dvalar í Varpholti/Laugalandi. Samkvæmt lýsingum kvennanna var það oft gert strax og þær komu á staðinn með ofbeldi, mjög algengt að henda þeim niður stiga, sem sýndi þeim strax hvar valdið væri. Margar fengu alvarlegt áfall við þetta, ekki síst þær stúlkur sem ekki voru „vanar“ ofbeldi áður, en flestar áttu stúlkurnar sögu um að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. 

Þær fengu ekki einu sinni að tala í síma við foreldra sína án þess að hlerað væri hvað þær voru að segja, þær voru vigtaðar og fylgst var með blæðingum þeirra. Læknisferðir, sálfræðingurinn sem var vinur forstöðuhjónanna og hélt ekki trúnað, og ekki síst hvernig talað var um börnin í gögnum frá starfsfólki bendir að mínu mati allt til þess að hér hafi verið um kerfisbundið ofbeldi að ræða.

Það að kvörtunum um ofbeldið hafi ekki verið sinnt og að starfsmaður sem hafi veitt stúlkunum „eggjastokkanudd“ hafi ekki verið látinn fara heldur settur yfir aðra meðferðarstofnun á vegum Barnaverndarstofu, að maður sem dæmdur var fyrir kynferðisofbeldi á meðferðarheimilinu Árbót hafi verið færður á annað meðferðarheimili á meðan hann beið dóms og að mörgum af þeim kvörtunum sem bárust hafi ekki verið sinnt er hins vegar kerfisofbeldi að mínu mati.

Lýsingar á algjörri stjórnun minnstu smáatriða í lífi stúlknanna minnir helst á það sem kallað er og stjórnun og kúgun, stundum kallað þvingunarstjórnun, (e. coercive control)[8]. Hugtakið er oft notað í tengslum við heimilisofbeldi, þar sem gerandi nær fullkomnu valdi yfir lífi þolanda síns, en það getur falið í sér að einangra einstakling frá fjölskyldu og vinum, fylgjast með ferðum hans, takmarka aðgang hans að fjármagni, vinnu, skóla eða heilsugæslu.

Þá er kynbundið og kynferðislegt ofbeldi ekki viðurkennt í skýrslunni þrátt fyrir að vitnisburðir stúlknanna bendi til annars eins og þvingaðar og niðurbrjótandi ferðir til kvensjúkdómalækna, „eggjastokkanudd“ starfsmanns, skráning á blæðinum og fleira er varðar kynvitund stúlknanna sem markvisst var ráðist á í Varpholti/Laugalandi.

Réttlætið

Að lokum langar mig að ræða það ferli sem fór af stað eftir að konurnar kröfðust réttlætis. Greinargerðin sem GEV sendi frá sér er gerð fyrir hið opinbera og í svipuðu ferli og aðrar slíkar opinberar skýrslur. Fólk er kallað í stutt viðtöl en upplifir sig ekki sem þátttakendur í rannsókninni. Þegar þær loksins eygja glætu réttlætis telja sig þær sig ekki hafa fengið næga hlustun, fengið að segja alla söguna sína og veldur ferlið þeim sárum vonbrigðum. Sársauki kvennanna hefur verið endurvakinn og þær upplifa sig sem valdalaus viðföng í þessu ferli, einu sinni enn.

Eftir að hafa fylgst með þessu ferli, lesið greinargóð skrif fjölmiðla, þá helst Stundarinnar, og rætt við nokkrar af konunum er mitt mat að hið opinbera þurfi að breyta vinnubrögðum við slíka vinnu. Það er ekki hægt að nota sömu ferla við úrvinnslu mála sem snerta hóp, sem ég vil ekki kalla viðkvæman, en þessar konur höfðu flestar orðið fyrir ofbeldi þegar þær voru sendar í vistina og við vitum líka að þá eykst hættan á að verða fyrir endurteknu ofbeldi með öllum þeim afleiðingum á heilsu og lífsgæði sem það hefur í för með sér.

Hluti af slíkri úttekt ætti, í samræmi við áfallamiðaða nálgun,  að vera mat á stöðu þessara kvenna í dag. Hvað kláruðu margar nám? Hvað eru margar öryrkjar í dag? Hvað hafa margar flúið land? Eru þær allar á lífi? Af vitnisburðum kvennanna sjálfra má ætla að hátt hlutfall þeirra lifi við flóknar heilsufarslegar og félagslegar afleiðingar.

Mikilvægt er þegar skýrslur sem þessar eru skrifaðar að gera það á áfallamiðaðan[9] og nærgætinn hátt, þ.e. gagnvart þolendum, ekki þeim sem valdið hafa, en aðeins bar á því í skýrslunni að hægt væri að lesa út úr greinargerðinni að verið væri að bera í bætifláka fyrir rekstraraðilana vegna þess hversu mikið álag var á þeim.

Helst þyrfti að skrifa slíkar skýrslur í þátttökuferli þar sem konurnar hafa meiri aðkomu að skýrslugerðinni til að tryggja að þeirra sjónarmið nái í gegn og auka réttlæti í ferlinu. Af samtölum mínum, og lestri viðtala við konurnar hefur þetta ekki tekist við gerð greinargerðarinnar. Margar upplifa að ekki hafi verið á þær hlustað og að þær hafi ekki fengið þann stuðning sem þær þurftu á að halda við að endurupplifa þá sársaukafullu reynslu sem dvöl þeirra á Varplandi/Laugalandi var. Þær upplifa ekki réttlæti né að þau sem valdið hafi þurfi að axla ábyrgð. 

Sérstaklega er mikilvægt að taka tillit til þess að ætla má að margar konur í þessum hópi hafi aldrei náð að byggja aftur upp traust á kerfinu eftir þá lífsreynslu sem þær sitja uppi með eftir vistun á vegum Barnaverndarstofu. Þessi hópur er ekki líklegastur til að leggja fram kvartanir eða krefjast réttar síns og því þarf hið opinbera að axla ábyrðina á því að leita eftir viðhorfum þeirra og sögum á þann hátt sem hentar þessum hópi og axla ábyrgð á því að þær njóti réttlætis.

Mér verður í þessu samhengi hugsað til Hildar Fjólu Antonsdóttur réttarfélagfræðings sem hefur gert merkilegar rannsóknir á því hvernig konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi upplifa réttlæti og hvernig hindranir gegn réttlæti birtast í réttarkerfinu t.d.[10]

Erlendar og innlendar rannsóknir á upplifun þolenda ofbeldis á réttarferlum hafa sýnt að það er ekki eingöngu niðurstaða málsins sem skiptir máli heldur einnig hvernig er að málinu staðið í ferlinu, þ.e. að þeir upplifi að málsmeðferðin sé réttlát. Sýnt hefur verið fram á að eftirfarandi þættir skipta þolendur sérlega miklu máli í þessu samhengi: að vera mætt af skilningi og virðingu af fagaðilum innan kerfisins; að fá upplýsingar um hvernig kerfið virkar og hvernig málinu miðar innan kerfisins; að hafa val um að taka þátt í ferlinu og að hafa eitthvað um málið að segja.

Það er m.a. á grundvelli þess konar rannsókna sem réttur brotaþola innan réttarvörslukerfisins var styrktur nú fyrr á árinu. Þessir þættir eru einnig mikilvægir fyrir þolendur brota þegar kemur að annars konar réttlætisferlum, t.d. eins og úttektum á meðferðar- og vistheimilum í tilefni af ásökunum um illa meðferð og ofbeldi, en þarfnast frekari útfærslu.


[1] Meðferðarheimili BVS – Yfirlýsing: https://www.rotin.is/medferdarheimili-bvs-yfirlysing/.

[3] Yfirlýsing vegna framtíðar meðferðarheimilisins Laugalands: https://www.rotin.is/framtid-laugalands/.

[4] Skýrsla starfshóps um meðferðarheimilið að Laugalandi: https://www.rotin.is/skyrsla-um-medferdarheimilid-laugalandi/.

[6] Vera. Menningarbundið ofbeldi:  https://timarit.is/page/5430912#page/n19/mode/2up

[8] Sjá t.d. grein Evan Stark, Rethinking Coercive Control.

[9] Sjá t.d. Trauma-informed qualitative research: Some methodological and practical considerations eftir Sophie Isobel og skrif Söruh Ahmed um slíkar rannsóknir.

[10] Sjá t.d. Sköpum leiðir að réttlæti fyrir þolendur kynferðisofbeldis: https://stundin.is/grein/13731/.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • KEP
    Kolbrún Erna Pétursdóttir skrifaði
    Þetta kallar man sannleiksskrif og að standa með þolendum. Takk Kristín fyrir sterkan og þarfan pistil.
    3
  • SHP
    Sigrún H. Pálsdóttir skrifaði
    Takk Stína mín! Frábært framlag í þágu samfélagsins. Konur og börn eru heppin að eiga þig að.
    3
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni