Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Allskonar land

Allskonar land

Tvíhyggja hefur skilað okkur mörgu misgóðu í gegnum tíðina. Sumu góðu – það er gott að geta aðgreint illsku frá góðmennsku, hatur frá ást, samkennd frá siðblindu. Fjölbreytileg litbrigði eru ekki alltaf svarið.

En oftast þó. Núna eru til dæmis margir sem skilja ekki hin ýmsu nýyrði samtímans um kyn, kynferði, kynvitund og –verund og hvað þetta heitir allt saman. Trans, genderqueer, intersex, þriðja kynið og allt hitt. Við þessa vil ég segja: Hafið engar áhyggjur. Þið þurfið ekki háskólagráðu í neinu tilteknu til að ná utan um þetta. Það þarf ekki að hafa allar skilgreiningar á hreinu.

En það þarf hins vegar að treysta fólki til að skilgreina sig sjálft – og láta það ekki gjalda fyrir það. Að tvíhyggjan gildi ekki þegar kyn, líffræðilegt og menningarlegt, sex og gender, er annars vegar.

Veruleikinn, og líka aðalatriðið, er að við erum allskonar. Í allskonar landi. Og við höfum alltaf verið það. Mörg okkar voru bara falin af því þau pössuðu ekki inn í tvíhyggjuna.

Í gegnum tíðina höfum við þrýst fólki í skilgreininguna kona/karl og notað til þess líffræðilega markera. Þetta hefur haft þau heftandi og meiðandi áhrif að við höfum skapað (og endurskapað) veruleikann í þessari mynd, rétt eins og guð forðum. Við höfum málað heiminn í svörtu og hvítu, bleiku og bláu, bara ... af því bara. Eða ef til vill í þágu yfirráða eins af þessum hópum, en það er önnur saga.

Þótt við séum komin lengra en flest önnur lönd í að samþykkja og virða samkynhneigða (samt of stutt) – veltum við því í sífellu fyrir okkur hvort þessi eða hinn sé meira karl eða kona. Við heimfærum tvískiptingu okkar á karla og konur (með allri menningarlegu forsjóninni sem því fylgir) yfir á samkynhneigða í miklu meira mæli en gagnkynhneigða. „En hún er svo kvenleg!“ „Hann er svo karlmannlegur!“

Og sagan er ekki öll. Þegar tvíkynhneigt fólk fór að láta á sér kræla var því til að byrja með ekkert tekið allt of vel, ekki einu sinni af mörgum samkynhneigðum. Það var hnussað og sagt – getur þetta fólk ekki ákveðið sig? Er það ekki bara að þykjast?

Tvíhyggjan hefur áhrif á okkur öll. Eftirfarandi sjónarmið er víða til í okkar samfélagi eins og dæmin sanna:

Það er ekki nóg með að við höfum neyðst til að þola samkynhneigða heldur eigum við nú að burðast með alls konar sem við vitum ekki einu sinni hvað heitir?

Já. Og ekki síðar en strax. Ekki bara út af mannréttindum og líðan þeirra og velferð sem passa ekki pent í kassana okkar tvo. Heldur af því að samfélagið allt geldur fyrir tvíhyggjuna. Siðferði hrakar. Jafnrétti dalar. Efnahagur landsins laskast. Fjölskyldur sundrast. Heilsufar versnar. Það er nákvæmlega ekkert gott sem tvíhyggja hefur í för með sér þegar mannréttindi eru annars vegar.

Við erum allavegana. Og enginn á að fá óáreittur að troða okkur í kassa og segja að við séum þetta eða hitt. Skilgreiningar á okkur sjálfum eru okkar eigin. Um það snýst baráttan. Vegna þess að einungis þegar þetta er í höfn verður möguleiki á jafnrétti og við eygjum til lands.

Allskonar lands.

Ykkar í krassinu, Kristín.

Eftirskrift.

Ég hvet áhugasama um þessi mál til að skoða gildin á bak við þá stefnu sem kallast postgenderism og er mjög vinsæl hjá pírötum víða um lönd. Hættan við hana er sú sama og í póstmódernismanum, að hún þróist að hluta til eða miklu leyti í afstæðishyggju - sem breiðir yfir ójafnrétti. En þannig er hún ekki hugsuð og mótuð heldur þvert á móti. Til þess að koma í veg fyrir skuggaþróun og ýta jákvæðri tilvist póstgenderismans áfram þurfum við að kynna okkur málin og móta afstöðu okkar út frá siðferði, út frá skýrt skilgreindum gildum. Það gerir enginn fyrir okkur. Póstgenderismi er enn sem komið er stefna og hreyfing í burðarliðnum, en á eftir að verða ráðandi viðmið og holdgerving samtíma okkar, rétt eins og póstmódernisminn var. Fögnum því en vörum okkur líka á gildrunum – það er hægt að fela mannréttindabrot í póstgenderismanum með afstæðishyggju, rétt eins og í forvera hans, þótt fyrirheitin séu fögur og rétt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu