Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Eru öryrkjar að setja okkur á hausinn?

Í gær birtist frétt á vef stjórnarráðsins þar sem því er réttilega haldið fram að almannatryggingar séu dálítill baggi sem komi til með að þyngjast á komandi árum.

Það sem samt sitthvað sem truflar mig við þessa frétt, ekki sýst að í fréttinni er einblínt á öryrkja sem megin orsök vandans. Nú er það vissulega svo að útgjöld vegna örorku hafa aukist á tímabilinu sem fjallað er um í fréttinni (frá 2013), bæði á verðlagi hvers árs og á föstu verðlagi ársins 2019. Ég held hins vegar að þar með sé ekki öll sagan sögð.

Mynd 1 sýnir þróun tveggja lykilstærða í útgjöldum til almannatrygginga og velferðarmála (það er útgjöld vegna fötlunar og örorku annars vegar og vegna öldrunar hins vegar) sem hlutfall af þeim útgjöldum á tímabilinu 2007 til 2019. Tölurnar eru fengnar af vef Hagstofu Íslands. Myndin sýnir að vissulega hefur vægi útgjalda vegna fötlunar og örorku í útgjöldum til velferðarmála aukist frá 2013 en það er að stórum hluta vegna þess að aðrar stærðir eru að breytast á tímabilinu og þá einkum útgjöld vegna atvinnuleysis. Staðreyndin er sú að á undanförnum þremur árum hefur vægi útgjalda vegna fötlunar og örorku í heildarútgjöldum til almannatrygginga og velferðarmála verið svipað og það var árið 2007.

Öldrun hefur á undanförnum árum haft mun meiri áhrif á útgjöld vegna almannatrygginga og velferðarmála og vaxið hraðar en útgjöld vegna örorku og fötlunar. Það á sér augljósa skýringu. Samfélagið er að eldast og nokkuð fjölmenn kynslóð hefur verið að færast inn á eftirlaunaaldur en samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru 11,6% íbúa landsins 65 ára og eldri árið 2007 en árið 2019 var hlutfallið komið í 14,2%. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar á þetta hlutfall aðeins eftir að hækka, verður 18,7% árið 2030 og verður 26,5% árið 2067 sem er eins langt og spáin nær þegar þessi pistill er skrifaður.

Í ljósi þessara talna skýtur skökku við að einblína á öryrkja. Við þurfum að tala um aldraða og ekki bara út frá lífeyrismálum heldur einnig sem fullgilda borgara og út frá því sem þeir hafa fram að færa til samfélagsins.

Of margir öryrkjar?

Fjármálaráðherra gerði sér mat úr frétt stjórnarráðsins og lýsti því yfir að það væru of margir öryrkjar. Ég er hjartanlega sammála honum en mig grunar að við séum að horfa á þetta frá mjög ólíkum sjónarhornum. Ég frá sjónarhorni þeirra sem missa starfsgetuna og eru þar með dæmdir til fátæktar og félagslegrar jaðarsetningar. Hann frá sjónarhorni bókhaldarans (sem er vissulega hluti af hans starfi að gera).

Af þessu tveimur sjónarhornum leiða ólíkar lausnir. Frá sjónarhorni bókhaldarans er verkefnið að draga úr útgjöldum með því að fækka örorkulífeyrisþegum. Því markmiði má ná með því að herða skerðingar og skilyrðingar. Slík ráðstöfun fækkar auðvitað ekki öryrkjum en dregur úr kostnaðinum sem hlýst af þeim. Hættan er auðvitað sú að lífskjör og lífsgæði margra öryrkja versni.

Frá hinu sjónarhorninu er verkefnið frekar að ráðast á rót vandans, að greina hvers vegna stærstur hluti fjölgunar örorkulífeyrisþega er til kominn vegna kvenna við og yfir miðjan aldur og gera þær breytingar sem þarf til að draga úr nýgengi örorku. Þá þarf að efla ýmiskonar endurhæfingarúrræði enn frekar. Þetta er ekki endilega draumalausn frá bókhaldssjónarmiði af því þetta mun óhjákvæmilega kosta peninga.

Það hvernig þessi sjónarmið rekast á kom berlega í ljós eftir að Alþingi hafði samþykkt fella sálfræði- og klínískar samtalsmeðferðir undir sjúkratryggingar lýsti fjármálaráðherra því yfir að ákvörðunin yrði ekki fjármögnuð.

Um fjórir af hverjum tíu sem fengu 75% örorkumat árið 2018 fengu það á grundvelli geðraskana. Ef markmiðið er að fækka öryrkjum þá er fjármögnun niðurgreiðslu sálfræði- og klínískra viðtalsmeðferða borðleggjandi. Ef markmiðið einungis að fækka þeim sem fá örorkulífeyri án þess að díla við örorkuna þá þurfum við engin úrræði. Til lengri tíma mun það samt breyta litlu varðandi kostnað vegna almannatrygginga að þrengja að öryrkjum því þjóðin heldur áfram að eldast.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu