Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Stærstu fossar í heimi

Stærstu fossar í heimi

Um helgina heimsótti ég hina miklu Iguazú fossa á landamærum Argentínu og Brasilíu. Þetta eru stærstu fossar í heimi, skráðir á heimsminjaskrá Unesco og þangað sækja um 1,7 milljónir manna á hverju ári. Að fossunum báðum megin liggur mikill frumskógur sem hefur verið gerður að vernduðum þjóðgarði og er einnig á heimsminjaskránni til varðveislu.

Bæði Brasilíumenn og Argentínumenn hafa lagt í mikla uppbyggingu til að gera ferðamönnum kleift að sjá fossana. Meira að segja svo mikið að þetta var eins og að koma í skemmtigarð. Opnar lestar ferja fólk í gegnum skóginn svo það krefst einskis úthalds til að ganga að fossunum. Byggðar hafa verið margra kílómetra langar stálgöngubrýr yfir litlar ár og votlendi til að fólk geti beinlínis horft ofan í fossana og séð þá frá öllum hliðum. Fossarnir eru gífurlega umfangsmiklir, ná yfir 2,4 kílómetra svæði, hæstu fossarnir 90 metrar á hæð og vatnsmagnið væri nóg til að seðja þorsta heimsins.

Vatnsmagnið nú um helgina var enn meira en venjulega sökum mikilla rigninga í Brasilíu undanfarnar vikur. Þess vegna var vatnið rauðbrúnt af járnríkum rauðum jarðvegi en þegar lítið er í ánni er vatnið tært.

Þar sem ég gekk eftir margra kílómetra löngum og ónáttúrulegum stálgöngubrúnum og horfði niður í brúnt vatnið til að reyna að gleyma þeim þúsundum manns sem gengu þarna með mér, maður á eftir manni, var mér tíðhugsað um hversu mannskeppnan hefur fjarlægst náttúruna. Hvergi var hægt að dífa hönd í vatn, hvað þá bregða sér í fótabað eða ganga á landinu milli ánna. Hins vegar var nóg af pöllum þar sem útsýnið var magnað og fólk skiptist á að taka sjálfsmyndir við handriðið.

Báðum megin var boðið upp á siglingu til að sjá fossana neðan frá ánni og síðan var brunað með liðið öskrandi af spenningi inn í þéttan úðann frá fossunum svo allir urðu hundblautir, rétt eins og þetta væri skemmtigarður. Jafnframt náðu sumir pallarnir inn í úðann ýmist ofanvið fossana eða neðan frá og fólkið æpti af æsingi þegar gusurnar gengu yfir. Mér fannst þetta vera afhelgun af annars mögnuðum stað og vonaði innilega að Gullfossi yrði aldrei breytt í þessa veru eða nokkurri náttúruperlu yfirhöfuð.

Var þetta virkilega þess virði? Til hvers að gera fossana aðgengilega öllum; fótafúnum sökum kyrrsetu, grátandi smábörnum sem höfðu engan áhuga á fossunum og bara öllum ferðamönnum sem aldrei hafa stigið fæti út af malbiki og þar með eyðileggja náttúrlegt umhverfi þeirra? Til hvers að breyta náttúrunni til að laða að fólk sem hefur engan áhuga á náttúru yfir höfuð, bara svo það geti sagst hafa komið þangað og tekið myndir af sjálfu sér?

Ég hugsaði hvað hefði verið miklu skemmtilegra hér áður fyrr að þurfa að feta sig í gegnum skóginn, kannski höggva sér leið með sveðju, til að komast að fossunum. Kannski sigla á léttum kanó eða eintrjáningi eftir litlu ánum og upplifa náttúruna í kyrrð.

En þar sem ég tók fleiri og fleiri stórkostlegar myndir af fossunum og umhverfi þeirra, lyfti bara höndunum upp yfir fjöldann ef ég komst ekki strax að handriðinu, svo hvergi sást mannvera á myndunum, fór ég að taka mannvirkin meira í sátt. Það var eins og stígarnir væru hannaðir af ljósmyndara sem hugsaði í römmum. Tilfinningin við að horfa beint ofan á beljandi strauminn var mögnuð og sjá vatnið hellast ofan af berginu á hliðarfossinum sem ein göngubrúin náði yfir. Ég hætti að taka eftir hinu fólkinu, fór að skynja orkuna frá fossunum og sjá nýja fegurð í hverju skrefi.

Eftir á er ég þakklát fyrir tækifæri fyrir að upplifa fossana í svo miklu návígi. Til eru smærri ár sem hægt er að baða sig í og sigla á eintrjánungi. Kannski er betra að leyfa fólki sem hefur engan áhuga á náttúru að upplifa þetta. Sérstaklega ef það verður til þess að það læri að bera virðingu fyrir náttúrunni.

Kannski við ættum bara að byggja stálgöngubrú yfir Gullfoss.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni