Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Karlaheimur í eyðimörkinni

Karlaheimur í eyðimörkinni

Wadi Rum er karlaheimur. Einu konurnar sem koma hingað eru ferðamenn og svo ég. Bedúínakonurnar halda sig heima í þorpinu.

Þótt aðstæður séu ágætar í búðunum eru „kaffihúsin“ hjá viðkomustöðunum án rafmagns og rennandi vatns. Um daginn fórum við í kvöldmat til manns sem rekur eitt slíkt „kaffihús“ eða bazar eins og hann kallar það. Bazarinn er kærkomið skjól fyrir brennandi sólinni og hann er alltaf með heitt te í katlinum. Teið hans er ljúffengt, blanda af svörtu tei, fersku sage, ferskum kardimommum og kanel. Með sykri fyrir innfædda og minni sykur fyrir þá sem það kjósa. Sæta teið kalla þeir Bedúína viský. Teblönduna þurra er hægt að kaupa á staðnum ásamt sápu, bedúínaklútum, henna til að skreyta líkamann, kolalit til að mála augun og eitthvað fleira. Þess vegna kallast þetta bazar. 

Maðurinn, sem við skulum kalla Ali, á hús annars staðar í Jórdaníu, en kýs frekar að búa hér við frumstæðar aðstæður. Hann er grannur og kvikur í hreyfinum og mjög viðkunnanlegur. Þetta kvöld hugðist hann elda og bauð nokkrum ungum mönnum að borða með sér og spjalla. Ég er nokkurs konar fylgistykki gestgjafa míns og fékk að fylgja með. Í stað þess að sitja hjá hinum og hlusta á arabísku sem ég skil ekki svo mikið, vildi ég frekar sitja hjá Ali og fylgjast með eldamennskunni.

Af því ekkert var rafmagnið og niðamyrkur úti, var Ali með ennisljós til að lýsa sér við eldamennskuna. Eldstæðið var hlaðið borð og undir því voru gaskútar og einhvers konar járn til að setja pottana á. Matinn skar hann og útbjó á næfurþunnri stórri plötu. Hann var með lítinn brúsa fyrir vatn. Á pallbílum sem var lagt við eldstæðið, var hins vegar stór tunna með vatni og úr henni slanga. Þegar vatnið kláraðist í brúsanum, saug hann vatn upp í slönguna og beindi síðan í brúsann. Notaða vatninu skvetti hann svo rétt fyrir utan.

Drykkjarvatn hékk hins vegar í belg uppi á vegg og bolli í bandi sem þeir sem vildu vatn drukku úr. Flestir vildu te.

Uppskriftin var einföld, kjúklingur með lauk, hvítlauk, tómatmauki, kryddblöndu og vatni. Borið fram ofan á hvítlaukshrísgrjónum, jógúrt og flatbrauði. En eldamennskan krafðist útsjónarsemi og aðstæður frumstæðar.

Maturinn var framreiddur á stóru fati, sem sett var ofan á mottu á gólfinu. Við röðuðum okkur í kringum fatið og hver og einn notaði hægri höndina til að móta bollur úr grjónunum með kjúklingnum og stinga upp í sig. Mér gekk það illa því maturinn var heitur og ég óvön að snerta sjóðheitan mat með fingrunum. Gestgjafi minn er vanur fólki eins og mér og því fékk ég skeið til að borða með. Mér leið eins og barni og reyndi frekar að borða með brauðinu eins og konurnar gera.  

Þarna sat ég með karlmönnunum þar sem þeir fíluðu sig í ræmur í frumstæðunum aðstæðunum og borðuðu með höndunum án þess að blikna. Og einhvern veginn fékk ég á tilfinninguna að karlmenn um allan heim myndu glaðir gera það sama.  Sannkallað karlmannslíf.     

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni