Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

„Upplifðu!“

Skepnan hleypur í dauðans ofboði undan rándýrinu, burt frá holu sinni þar sem ungarnir tísta, burt undan klónum og kjaftinum, í dauðans ofboði, það er ekki ofmælt. Við skulum segja að skepnan sé mús og rándýrið refur. Fremur en til dæmis ljón og dádýr, fremur en skröltormur og lóa. Músin hleypur og skýst fram og til baka en allt kemur fyrir ekki, refurinn nær henni og læsir um hana tönnunum.

Upplifun. Reynsla músarinnar er upplifun í sinni tærustu mynd. Því að músin getur ekki komið henni í orð, hún bara upplifir. Hún getur ekki unnið úr upplifuninni og fært hana í orð, hún getur ekki mótað upplifun sína með hugmyndum sem hún tjáir öðrum músum. Skynlaus skepnan bara upplifir, og svo deyr hún.

„Upplifun“ er fyrir margt löngu orðið uppáhalds orð markaðssetningarmanna. Fullkomin klisja. Það er ekki nóg að aka um á bíl, nei, reynslan af akstri þessarar tilteknu bíltegundar er upplifun. Upplifðu, njóttu. Maður fer ekki í stórverslun til þess að kaupa inn heldur til þess að upplifa. Upplifðu Suðurland, upplifðu Norðurland. Upplifðu Epal, upplifðu ljúffengt íslenskt súkkulaði. Ekki fá þér að éta, stefndu frekar á matarupplifun. Upplifðu bækur og blóm. Upplifðu Arion banka, upplifðu skeinipappírinn með myndinni af hvítu kanínunum á umbúðunum, upplifðu bensín, svo miklu meira en bara bensín, upplifðu happdrættismiða, upplifðu mann fyrir utan Vínbúðina sem vill selja þér harðfisk, hann er upplifun, upplifðu rauðvín, upplifðu kókaín ef þú kærir þig um, það er kannski ekki meinhollt en það er upplifun. Upplifðu líkamsrækt, upplifðu Iceland Airwaves með Símanum, upplifðu tónleika á risaskjá, upplifðu góða þjónustu, upplifðu lyf, upplifðu sólina á Tene — hvað sem þú gerir, ekki lifa, ekki hugsa, upplifðu.

 Segjum sem svo að í þessu upplifunartali felist þrá eftir hreinni og tærri og náttúrulegri upplifun dýrsins, upplifun sem er handan orða og hugmynda, upplifun sem er ekki háð greiningu og túlkun, ekki háð menningu og samhengi, þrá eftir orðlausri sælu, lausri við kvabbið í krítískri hugsun, lausri við skilvitlega mengun.

Að með auglýsingum sé höfðað til heilagrar upplifunar.

Augljóslega er engin neytendaupplifun heilög. Heilagleiki þess að aka nýjum bíl er af vafasamara taginu, þótt það geti verið gaman. Það getur komið yfir mann helgi í ferðalagi um náttúruna. En jafnvel þar er óvefengjanlegur hreinleiki mállausrar skepnunnar fjarri. Út í náttúruna kemur hver með hugmyndir sínar og orð, af ólíkri gerð. Upplifun og orð eru ekki það sama, orð vinna úr upplifun, þau eru ekki annað en lýsing á henni. Ofboð músarinnar á flótta sínum er annars eðlis, og jafnvel þótt hún fari bara um í fæðisleit af eðlishvötunum einum saman, feli sig og læðist.

En segjum þá sem svo að mennsk upplifun geti verið heilög sökum þess hve hún er skelfileg. Segjum að maður sé frumbyggi í Guatemala í þjóðarmorðum seint á síðustu öld og hermenn slengi kornabarninu manns utan í vegg. Eða sé kona sem er nauðgað og svo myrt í því sem þarlend stórnvöld eru fyrst í heimi til að viðurkenna sem svokallað „femicide“ (ekki að neitt hafi dregið úr kvennamorðum með þeirri viðurkenningu). Er ekki talað um „orðlausan hrylling“?

Varla er þetta það sem bílaauglýsingar höfða til.

 ***

 Upplifðu ilmvatn og skartgripi, upplifðu glæsilega blómaskreytingu á líkkistuna þína. Upplifðu pizzu með pepperóní. Upplifðu sannkallað eyrnakonfekt fyrir augun. Upplifðu innkauparöltið með búðarkerruna sem vegferð. Gefðu upplifun í jólagjöf — fyrir þá sem eiga allt. Lærðu að hámarka upplifun viðskiptavinarins. Gefðu honum ferðalag niður á fjórða stig helvítis. Sendu inn tillögur að bættri upplifun af þjónustu Landspítalans. Upplifðu varalit, upplifðu sjálfan þig sem neysluvöru. Upplifðu óvissuferð til Patreksfjarðar.

Hér er önnur vestræn klisja: Þú hefur ekki rétt á að vefengja upplifun mína.

Af hverju ekki? Hvernig er yfirleitt hægt að vefengja sjálfa upplifun einhvers þegar hún birtist í formi orða og hugmynda sem augljóslega eru ekki það sama og upplifun? Af hverju ætti ekki að mega vefengja orð og hugmyndir? Er þetta ekki einskær flótti undan hugmyndalegum átökum? Segir maður bara: Ég upplifi þennan þarna stjórnmálamann sem fífl og þú hefur ekki rétt á að vefengja upplifun mína? Ég upplifi þennan þarna sem kynferðisbrotamann þótt hann hafi aldrei nauðgað neinum og þú hefur ekki rétt á að rengja orð mín og upplifun? Ég upplifi múslima sem ógn við tilveru mína og þú mátt ekki draga það í efa? Geta ekki orð og hugmyndir beinlínis falið í sér lítilsvirðingu við upplifun einhvers annars og verið fullrar gagnrýni verð — segjum bara ef einhver ber léttvæga reynslu að tilefnislausu saman við orðlausan óhugnað? Segir maður bara: Þú mátt ekki andmæla mér vegna þess að „mér finnst það“?

Músin kannski læðist en hefur ekki um það nein orð. Fuglinn syngur en það þarf ekki að leita að sannleikanum í hljóðunum sem hann gefur frá sér, þau ERU sannleikur. Tjáning mannskepnunnar hefur andskotans enga beintengingu við upplifun og hefur enga heimtingu á málvana þögn.

Kannski kemur að því að við förum að taka ábyrgð á orðum okkar og hugmyndum, hættum að þykjast tala í stanslausum upplifunum og byrjum að færa almennileg rök fyrir máli okkar — takast á um hugmyndir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni