Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Skandall, Trump, raðnauðgun, fjöldamorð, félagsmiðlar, rétttrúnaður, hommahatur, hatursorðræða, skandall

Skandall, Trump, raðnauðgun, fjöldamorð, félagsmiðlar, rétttrúnaður, hommahatur, hatursorðræða, skandall

Einhver menningarpistlahöfundur á RUV, ég man bara ekki hver, hélt því fram fullum fetum ekki alls fyrir löngu að við lifðum gullöld sjónvarpsþáttaseríunnar, það er að segja netseríunnar. Kannski mætti malda í móinn, fullyrða jafnvel að þemu seríanna séu áratug á eftir bókmenntum (og persónulega gæti ég hugsað mér að beinlínis kvarta sem aumlegast yfir þessu, ég sé fallinn í Netflix en ekki skáldsögur, sem feli jú í sér og krefjist annars konar og meiri einbeitingar og séu jafnvel sálarlífinu miklu hollari á alla lund).

En óneitanlega er sitthvað til í þessu. Seríur eins og The Good Place, Black Mirror, Stranger things benda sannarlega til blómaskeiðs í handritagerð og reyndar allri gerð. Jafnvel Spánverjar búa til La casa de papel (Money Heist) og er svo að sjá sem sú ævintýralega mikla ruslfabrikka sem spænskt sjónvarp hefur alla tíð verið, sú ósmekklega og plebbalega lágkúruvél sem skrapaði loks botninn með einhverjum þeim fáránlegustu veruleikaþáttum sem gerðir hafa verið, hafi reynst sérlega frjór jarðvegur fyrir netseríuna, eins og hann áður var fyrir kvikmyndina.

Bandaríski rithöfundurinn Bret Easton Ellis myndi líklega taka undir þetta; að vissu leyti. Sennilega þó ganga lengra og telja kvikmyndina dauða sem frásagnarform (hann er einnig kvikmyndahandritshöfundur) og skáldsöguna tilgangslausa: hugmyndin um stóru skáldsöguna, „the great american novel“, tilheyrir fortíðinni, segir Ellis. Raunar eru það þó félagsmiðlar og net sem Ellis álítur helsta form samtímans.

***

Skáldævisagan White eftir Bret Easton Ellis hefur farið sérlega hátt í heimi bókmennta að undanförnu. Þegar ég segi „skáldævisaga“ gæti ég allt eins sagt ádeilurit eða hugleiðingabók eða kvikmyndastúdía. Þegar ég segi „farið hátt“ á ég ekki við neina sigurgöngu heldur eiginlega þvert á móti, gagnrýnendur hafa keppst við að salla bókina niður og varla er til sú goodreads-umsögn sem ekki er að einhverju leyti neikvæð, ef hún er þá ekki fjandsamleg að öllu leyti. 

Þegar ég segi „heimi bókmennta“ veit ég ekki hvern fjandann ég á við. Öll heila efnisgreinin er ónýt. Ég byrja upp á nýtt. 

***

Það er ekki nýtt að bækur bandaríska skáldsagnahöfundarins Bret Easton Ellis fái slæma dóma. Eftir að American Psycho kom út, segir Ellis í White, frétti  hann út undan sér (ekki fyrr en nokkru síðar) að vinir hans hefði margir hverjir álitið ferli  hans sem  höfundar lokið. Enda er grundvöllur skáldsögunnar, ef reynt væri að þýða hann af tungutaki skáldskaparins yfir í flatneskju hugmynda og tölfræði, ekki beisin: Sennilegast er að dæmigerður uppi og viðskiptamógúll í Manhattan á níunda áratugnum sé ekki aðeins fjarlægur lífinu heldur sadískur raðnauðgari og fjöldamorðingi.

„Tungutak skáldskaparins“? Já, ég sagði það víst. Hvað með það? Fokk off!

Ég segi þetta ekki um American Psycho til að gera lítið úr skáldsögunni heldur til að reyna að koma því á framfæri að forsendurnar séu í alvöru aðrar, að það gildi samningur um skáldskap sem sé vert að hafa í heiðri, að þykjast trúa forsendunum þótt maður geri það ekki. 

Söguhetjan í American Psycho hefur mikið dálæti á Trump.

***

White hefur aðallega farið fyrir brjóstið á fólki fyrir að vera mikill andróður gegn pólitískum rétttrúnaði. Gegn orðræðu internetsins. Gegn ákveðinni kynslóð sem stundum er kennd við snjókorn en Ellis kallar hreinlega „wuss“ — vesalinga. Eins og það sé eitthvað athugavert við það að álíta sig einstakan eins og snjókorn (eða frostrós). Stendur það ekki hreinlega í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna að sérhver manneskja sé einstök?

Þetta er ekki skáldsaga. Framan af er þetta stúdía í kvikmyndum. Smám saman tekur Ellis að pirra sig á viðtökuskilyrðum kvikmynda í samtímanum. Jafnframt verður nokkuð ljóst hvað hann vill:

Weekend eftir Andrew Haigh er bara venjuleg mynd um homma, tveir menn hittast, verða ekkert sérstaklega uppnumdir hvor af öðrum, eru ekki draumamaður hvor annars, þeir verða smám saman ástfangnir en eru engar fyrirmyndir fyrir einn eða neinn og ekki dæmi um neitt, myndin hefur ekkert sjáanlegt „agenda“, er bara um venjulegt fólk og ástina. Enginn er tákn, baráttan gegn fordómunum er núll. Engar hýperbólur og engin hugmyndafræði. Bret Easton Ellis er hommi. Umkvörtunarefnið er: Kvikmyndir um homma eiga (að kröfu framleiðenda) að vera hæfilegar, ekki listrænt séð og ekki fagurfræðilega heldur hugmyndafræðilega hæfilegar; þær skulu vera rétt hæfilegar svo gagnkynhneigðir góðborgarar geti fyllst fyllast stærilæti yfir eigin víðsýni; það eru engar kynlífssenur í kvikmyndum um homma og hommarnir kyssast ekki heldur faðmast. Kvikmyndir ala á staðalmynd um homma sem Easton kallar „töfraálf“. Þeir eru aldrei pirraðir og aldrei ögrandi og aldrei í uppreisn. 

Þeir verða umfram allt að vera fórnarlömb. Alltaf.

 ***

Út frá þessu hefst nokkur raunasaga um útistöður Ellis við bandarísk réttindasamtök homma sem vilja ekki að sjónarmið af þessu tagi heyrist, jafnvel þótt Ellis fullyrði að fjöldinn allur af hommum sé honum sammála um nákvæmlega þetta. Sem ekki hljómar ósennilega, varla er þessi skoðun neitt kirkjubrot. Hann verður fyrir einhverju í ætt við það sem er farið að kalla „deplatforming“; svo sem ekki alvarlegra en að vera afboðaður í veislu, ekki getur hann með góðu móti verið fúll yfir því, tæpast getur hann talað um göfgaða ritskoðun, eða hvað? Dæmið virkar samt frekar ljóst, í stað umdeilanlegrar hugmyndar kemur stórfyrirtækjavæn þögn, þar sem var ræðupallur er vandræðaleg eyða.

Textinn verður nostalgískur: Árið 1990 var tekist á um hlutina, bæði af ástríðu og rökvísi, nú er „korpóret“ ritskoðun umföðmuð, talin ásættanleg; þá voru hugsanaglæpir ekki til, nú er hugmyndin daglegt niðurskorið brauð; þá mátti komast að vitsmunalegum niðurstöðum að eigin vild og draga allt í efa án þess að vera álitinn hatursfullt tröll sem þyrfti að afloka frá hinum „siðmenntaða“ heimi. 

Hvarvetna er að verða til múgvætt „orðstírshagkerfi“, segir Ellis: Kúnnarnir á veitingahúsinu heimta matinn ókeypis, annars gefi þeir fáar stjörnur og skrifi eitthvað reglulega ljótt á vefinn Yelp. Loks taka deilihagkerfis-fyrirtæki eins og Uber og Airbnb að svara fyrir sig og gefa kúnnanum stjörnur á móti svo lækið læsist um hann — og allt og alla.

 ***

Um sjálfskennslapólitíkina er ýmislegt snoturlega athugað: 

 „“I can’t relate to it” had come to be shorthand for “I won’t watch it,” much as “I can’t identify with it” now means “I won’t read or listen to that.” You hear this increasingly as a rallying cry, and not only from millennials, yet the idea behind it serves no progressive purpose; it marginalizes not only artists but also, ultimately, everybody on the planet. In essence, it’s fascist.“ (Ellis, Bret Easton. White, bls.  127). Knopf Doubleday Publishing Group. Kindle Edition.)

 Skáldævisögulegu kaflarnir eru eiginlega bestir; spjall Ellis við kærasta sinn er oft fínt: Hann er af „vesalingakynslóðinni“ (Ellis skilgreinir sig sjálfur sem X-kynslóðarmann og er upptekinn af kynslóðum (sem mér finnst ekki skynsamleg pæling)); kærastinn er með Trump á heilanum og þeir ræða allt: #WalkAway-hreyfingin er athyglisverður atgervisflótti bandarískra vinstrimanna sem láta flæmast burt frá vinstrinu). Ellis kaus ekki Trump, né heldur Demókrata né neitt — en kom kosningasigurinn ekki á óvart, enda skrifaði hann skáldskap um Trump fyrir löngu og þekkti menninguna. Hann er sakaður um að vera Trumpisti en hann geldur bara varhug við Demókrötunum vinum sínum og aðferðum þeirra:

„Freedom of expression had become, it seemed, an aesthetic death wish, effectively suicidal. (Ellis, Bret Easton. White (bls. 256). Knopf Doubleday Publishing Group. Kindle Edition.)

Fróðlegur er kafli um látlaust taugaáfall bandarískra Demókrata, vina Ellis, yfir kosningasigri Trumps. Þetta er ekki séramerísk taugaveiklun, kunningi minn lýsti því yfir á félagsmiðli í hundraðasta skiptið að hann hygðist flýja land, að þessu sinni vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn plantaði 90 trjám á afmæli sínu. Það er víst ámælisvert líka. Að planta trjám. Maðurinn ætti bara að fara til læknis. Það er það sem Ellis segir sínum vinum, eða langar að segja. Frásagnir af Twitter-rausi í drukknum Ellis og fjölmiðlaskandölum sem þar af leiða eru óttalega þreytandi aflestrar. Ellis fjallar hins vegar vel um það hvernig bestu bandarísku fjölmiðlar hættu einfaldlega að vera hlutlægir þegar Trump kom til: Enda þótt tæpast geti farið hjá því að Trump segi stundum líka eitthvað sárasaklaust, jafnvel rétt og í samræmi við veruleikann, er með ákveðinni guðfræðilógík og krókaleiðum hægt að gera hvert orð tortryggilegt, og þar með hættir myndin líka að vera trúverðug.  Og jú, Ellis fjallar líka um „váhrif“: Háskólinn í Chicaco tilkynnti árið 2016 að hann hygðist ekki viðhafa neitt „trigger warning“ og ekkert „safe space“, hann ætlaði með öðrum orðum að neita að barngera nemendur sína svo þeir gætu ræktað eigin fórnarlembsku og nostrað við píslarvætti sitt. Hann ætlaði frekar að hjálpa þeim að takast á við tilveruna í allri sinni grimmd, í list sem öðru, viðvörunarlaust.

Sumpart er White kannski hluti af vandamálinu sem bókin lýsir. Höfundur sem hefur misst trú á skáldskap sem og kvikmyndum greinir netorðræðuna og rétttrúnaðinn og er fyrr en varir farinn að taka þátt í umræðu sem fer eftir fyrirframgefnum brautum og leiðir alltaf til tveggja óbreyttra niðurstaðna og engra samræðna. Verður raus. Þetta minnir á guðfræðideilur miðalda — og ég er viss um að það væri hægt að gera mjög áhugaverðan samanburð þar á. Bret Easton Ellis nær ekki alltaf að halda sig utan og ofan við guðfræðilega stjórnmálaorðræðu samtímans. En þó er fullt af góðum athugunum í bókinni. Ellis er sjálfsgagnrýninn, víðsýnn og beittur, stundum gengur hann fram af manni. Er bókin skandall? Já, vafalaust. Skandall er ekki þegar eitthvað nýtt kemur í ljós. Skandall er þegar einhver segir eitthvað sem allir vita fyrir.

White er skemmtileg lesning. Ég mæli með henni. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu