Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Brennimark Margrétar Müller

Hún iðaði í stólnum þar sem hún sat við borðshornið á langendanum, hló inn í sig og skemmti sér á sinn sérkennilega hátt og smurði samlokur og stjórnaði borðhaldinu með því að deila og drottna: Einn strákur fékk kók með matnum því hann hefði ofnæmi fyrir vatni. Við borðsendann sat líka nunna sem ég man ekki hvað  hét og einhver maður sem minnið hefur þurrkað út. Við sátum þarna við langborð, ótal strákar, og ég var fjögurra eða fimm ára, kannski sex. Ég man að Margrét sagði „mallakoff“ en ekki „malakoff“ — „mallakoff“, eins og eitthvað ofan í „mallann“ á börnum. 

Ég var ekki úr kaþólskri fjölskyldu og það var hending ein að ég var staddur á Riftúni í Ölfusi, sumarbúðum kaþólikka. Kunningjatengsl foreldra.

Nei, þetta er ekki færsla um þjáningu, ég þjáðist ekki neitt og varð varla var við nokkurn skapaðan hlut, fremur en svo margir aðrir. Samt þótti mér einkennileg stemmning í kringum það þegar börnin báru saman hvort þau hefðu verið látin sofa með plastdúk undir lakinu eftir trúnaðarsamtal við foreldrana um hvort þau pissuðu stundum undir. Börn hvískra auðvitað um slíkt en það var eitthvað einkennilegt við hvernig þau töluðu.

Núna, áratugum síðar, er ég ekki viss um að brennimerking Margrétar Müller hafi verið svo einstök, að hún hafi verið til marks um fólsku hennar. Mig grunar jafnvel að aðferðir Margrétar séu algengar og hafi verið það þá, jafnt sem nú. Að brennimerkja einhvern, útskúfa honum, og nota til þess dylgjur um illsku. En þá, þegar ég var barn, þótti mér þetta undarlegt. Eitthvað við það gekk þvert gegn uppeldi mínu hjá góðum foreldrum, víðsýnum og menntuðum. Gekk þvert gegn áhrifum eldri systkina minna: Það var ekki bara í lagi heldur jafnvel eftirsóknarvert að gefa sig að þeim sem af einhverjum ástæðum voru utangarðs. 

Því einn daginn voru þau boð látin út ganga að það væri bannað að tala við einn strákinn í sumarbúðunum. Margrét Müller sagði að þessi strákur væri vondur. Illur. Þó held ég að hún hafi ekki sagt það hreint út heldur látið ýmislegt í veðri vaka. Gefið sitthvað í skyn. Eins og fólk gerir. Spurningin var um heill þessa litla samfélags. Best væri að tala ekki við strákinn, sem átti í einhverju sérstöku sambandi við Margréti, því að af því hlytist ekkert gott fyrir samfélagið. Þess vegna skyldi rjúfa samskiptin við hinn afbrigðilega, fylla þau af óumræðilegri þögn — þögninni sem ber að viðhafa yfir einhverju sem er óþarfi að ræða, því skömmin segi til sín sjálf, sök bíti sekan.

Þeir stóðu þarna tveir í brekkunni ofan við húsið, brennimerkti strákurinn og vinur hans, sá eini sem þorði að tala við hann. Þeir voru talsvert eldri en ég og höfðu einmitt verið afskaplega áberandi í sumarbúðunum fram að þessu, vinmargir, skemmtilegir, góðir í fótbolta sem mig minnir að hafi verið stundaður á grasvelli spottakorn ofan við húsið þar sem við borðuðum. Fjörugir. Nú var strákurinn bannaður. Umvafinn málstola landhelgi: Ekki tala við þennan. Enginn nálgaðist hann.

***

Já, ég ætla að leyfa mér að vera stoltur af því: Það fyrsta sem ég gerði — af einhverri eðlishvöt? — þegar ég sá strákana tvo, hinn bannaða og hinn hálfbannaða, var að gefa mig á tal við þá. Þeir höfðu ekki mikinn áhuga á mér því að ég var miklu yngri. Ég spurði þá spurningar sem ég man ekki nákvæmlega hver var, en hún snerist um Margréti Müller og samskiptabannið. En ég man svarið:

„Hún er brjáluð.“ 

Lengra varð samtalið ekki. Það var áhrifameira fyrir mig en þá. Einhver hafði svo sem gefið sig á tal við þá, í algeru samskiptabanni, en sjálfur hafði ég kynnst í fyrsta skiptið samfélagslegri brennimerkingu í öllu sínu veldi. Ég man ekki hvað þeir hétu, enda mátti ekki einu sinni nefna þá á nafn. Það sem sat eftir var furða og einslags þrjóska. Ég sá ekki að bannaði strákurinn væri neitt vondur. 

***

Þessi sumartíð leið. Foreldrar mínir komu og sóttu mig. Ég vissi ekki, fremur en önnur börn, hvaða lærdóm ég ætti að draga af þessari vist. Svo mikið veit ég núna að svo lengi sem ég lifi mun ég, til góðs eða ills, gefa mig á tal við hina útskúfuðu og hina brennimerktu.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu