Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Hinn hugljúfi og geðþekki rómur fasismans

Vox merkir Rödd. Vox er einnig nafnið á til þess að gera stórum — og sífellt stækkandi — stjórnmálaflokki á Spáni. Nafnið er varla tilviljun. Flokkurinn hefði sem hæglegast getað kallað sig Voz upp á spænsku en kýs latínuna: Það gefur tilfinningu fyrir varanleika. Öll íhaldssöm öfl gera sér far um að virka náttúruleg, manninum eðlileg og eiginleg. 

Er Vox fasistaflokkur? Tja, er himinninn blár? Er grasið grænt? Er Illugi Jökulsson með Katrínu Jakobsdóttur á heilanum? Það hendir á Íslandi að fólki er legið á hálsi fyrir að nota hugtakið fasismi af léttúð og út í loftið en á Spáni er ekki langt að sækja eiginlega merkingu orðsins.

Vox er afsprengi og klofningsframboð úr Partido popular, en sá flokkur er annar af tveimur í (til langs tíma litið en ekki lengur) tveggja flokka kerfi spænskra stjórnmála og sá flokkur, PP, var stofnaður upp úr Alianza popular, sem var aftur stofnaður, eins og reyndar líka PP, af Manuel Fraga Iribarne sem var ráðherra upplýsinga- og ferðamála í stjórn Francisco Franco einræðisherra.

Rætur Vox má sem sé rekja beint til fasismans í Evrópu. Fraga hóf pólitískan feril sinn svo snemma sem 1945 og lauk honum svo seint sem 2005 þegar hann tapaði í kosningum í heimahéraðinu, Galisíu (og lýsti yfir við það tækifæri að héraðsbúar hefðu alla tíð verið lýrískir aumingjar). Fraga dó árið 2012 í hárri elli.

Einu sinni var Fraga nágranni minn og spígsporaði reigingslegur um götur (ætli hann hafi ekki verið á níræðisaldri, hann flandraði út um allar trissur og gaf á ferli sínum út yfir 70 bækur, mestmegnis upp úr þingræðum sínum). Ég las mér sæmilega til um hann í ýmsum ævisögum og sennilega er ekki til sú stjórnmálafígúra sem sýnir jafn svart á hvítu að saga fasismans í Evrópu er órofa, jafnt þótt lýðræðið hafi tekið við: Fraga var endurkjörinn trekk í trekk í lýðræðislegum kosningum og var eitt af þessum svartholum sem heillaði fylgismenn sína með persónutöfrum og innblés andstæðingunum hatur í brjóst.

Alltaf var lýðræðislegi fasistinn Fraga kosinn aftur. Ljómandi góðar manneskjur voru enda og eru fasistar — til jafns við varmennin. Það þarf ekki að vera illmenni til að vera fasisti. Ég man annan nágranna minn sem afgreiddi mig stundum um ís, hann var Falangisti, skemmtilegur og alúðlegur; ég sá hann síðar í andófi og gott ef hann gerði sig ekki líklegan til að sparka í galisískan marxískan þjóðernissinna sem var í mótmælagöngu fyrir þjóðtungu sína, göngu sem herlögreglan mætti með gúmmíkúlum. Svona er þetta bara. Enn annar nágranni minn rak verslun þar sem maríulíkneskin voru við hliðina á svæsnustu klámblöðunum. Hann var líka fasisti, hundleiðinlegur durgur reyndar, leigusali minn, óttalegt óbermi, ágjarn andskoti, djöfuls bestía og illgjarn, fégjarn, öfundsjúkur, langrækinn og rætinn — en ljóngáfaður, að mig minnir. Því nei, fasistarnir eru ekki heldur heimskari en annað fólk. Enn einn nágranni var kona og afgreiddi í annarri búð, hugljúfari en María mey, viðræðugóð og mild og fasisti, eins og fleira gott fólk.

„Fólk ímyndar sér fasistann með horn eins og andskotinn en það er lygi,“ segir í viðtali við Javier Cercas. Nánar um það síðar.

Vox er nýjasta afbrigðið af gamalli fasískri venju. Javier Ortega Smith, einn af helstu pótintátum flokksins, er beint afsprengi Falangistaflokks sem stofnaður var 1976 upp úr gamla Falangistaflokknum og stjórnarmeðlimur í stofnun sem kennd er við einræðisherrann og fasistann Francisco Franco. Vox-flokkurinn er andfemínískur (síðasta ríkisstjórn Spánar, Sósíalistastjórn, var kölluð femínistaríkisstjórnin þar sem yfir 60% ráðherra voru konur) og vill afturkalla allar breytingar í réttarkerfinu sem miðast gegn kynferðislegu ofbeldi.

Vox er andvígur öllum sjálfstæðistilburðum héraðanna á Spáni og vill leggja sjálfdæmi þeirra að fullu niður (og flokkurinn má kannski þakka fylgi sitt að miklu leyti andstöðu sinni við sjálfstæðissinna í Katalóníu).

Vox hefur hófsama afstöðu til Evrópusambandsins, vill halda Spáni þar inni en jafnframt viðhalda fullveldi Spánar. Hann hefur róttæka afstöðu til múslima og kennir stefnu sína við „la reconquista“, hvorki meira né minna, en eins og kunnugt var „la reconquista“, „endurheimtin“, óralangt ferli á miðöldum sem fól í sér brottrekstur múslima sem höfðu yfirtekið Íberíuskagann (utan Galisíu sem alltaf var kristið svæði). Þessu ferli líkir Vox við innflytjendur á Spáni í dag.

Flokkurinn vill leggja niður moskur og reka öfgasinnaða imama úr landi; hann endurvekur gamalt hugtak um innri óvini Spánar og hefur ámálgað brottvísun múslima í þúsundavís.

Hvers vegna klauf Vox sig frá PP? Fyrir því eru margar ástæður. PP hefur goldið afhroð undanfarin ár vegna spillingarmála og helmingaðist í síðustu kosningum. Mörgum gömlum fylgismönnum PP þykir sem flokkurinn hafi svikið hugsjónir sínar. Vafalaust tekur Vox einnig frá öðrum flokkum en sívaxandi fylgi Vox verður mestmegnis skýrt út frá fylgistapi PP.

Meðal flokksmanna Vox mátti finna nasista sem nú hafa verið reknir úr flokknum. Leiðtogi Vox, Santiago Abascal, segir Vox and-fasískan flokk, and-nasískan og and-kommúnískan. Flokkurinn hafnar skilgreiningum fjölmiðla sem telja hann þjóðernissinnaðan, öfgahægrisinnaðan, harðan andstæðing fóstureyðinga, nýfrjálshyggjuflokk, kaþólskan og þar fram eftir götunum. Almennt hefur flokkurinn heldur fjandsamlega afstöðu til fjölmiðla. Flokkurinn er jákvæður í garð Donald Trump.

En gera fjölmiðlar Vox rétt til? Í raun er vandséð hvers vegna flokkurinn ætti að lúta skilgreiningum fjölmiðla á tímum þegar samfélagsmiðlar hafa fullt eins mikið vægi og formlegir fjölmiðlar. Eðlisfræðingar — ég læt hugann bara reika — gerðu með sér Kaupmannahafnarsáttmálann þegar í ljós kom að andinn hefur raunveruleg áhrif á efnið þegar kemur að tilraunum með atómin. Fjölmiðlar hafa ekki gert með sér neinn sáttmála um að best sé að freista þess að vera hlutlægur þrátt fyrir að það sé ekki hægt, þeir hafa bara áttað sig á að hlutlægni er útilokuð og ákveðið að vera þá blátt áfram hlutdrægir. Vox er einn þeirra flokka sem græða á neikvæðri umfjöllun fjölmiðla frekar en að tapa á henni. Hann græðir líka á einföldun fjölmiðla. „Ég er ekki kaþólsk,“ segir kvenkyns Vox-liði á götu í spjalli við dagblaðið El País, og hún bætir við að kærastan hennar sé kona. Hvers vegna ætti hún að samþykkja skilgreiningu fjölmiðla á Vox sem kaþólskum flokki sem ali á andúð á samkynhneigðum? spyr hún.

Vox, segir Santiago Abascal, leiðtogi flokksins, er í hlutverki hins nauðsynlega skrímslis, þess sem fólk gengur í takt við í laumi en afneitar opinberlega, með sómakæru fumi. Vinstriflokkarnir keppast við að lýsa því yfir að þeir starfi ekki með Vox en það eru ekki síður hinir hægriflokkarnir sem afneita flokknum. Því er Abascal svo smekklegur að líkja við Apartheid-stefnuna.

Vox var stofnaður 2013. Einn nýjasti meðlimurinn, Fernando Paz, gekk til liðs við flokkinn 2019, skömmu fyrir kosningar. Auk hugmynda sinna um ónáttúru samkynhneigðra hefur Paz dundað sér við sagnfræði, þá einkum og sér í lagi efasemdir um að helförin hafi verið eins slæm og af er látið og hvort Nuremberg-réttarhöldin hafi verið annað en farsi. Paz dró framboð sitt til baka á lokametrunum, að eigin frumkvæði og sjálfviljugur — sem vafalaust merkir sökum þrýstings og þvert gegn vilja sínum. Vox vill ekki að hinn seiðandi rómur flokksins sé fyrir alveg hvern sem er.

Umfram allt vill Vox einn miðstýrðan Spán. Spænski rithöfundurinn Javier Cercas kennir aðskilnaðarsinnum í Katalóníu beint um velgengni Vox og ber þá, aðskilnaðarsinna, saman við fasista fortíðar. Sú kenning fellur af skiljanlegum ástæðum í grýttan jarðveg hjá þeim Katalónum sem vilja gera upp lögregluofbeldi og mannréttindabrot, pólitískar fangelsanir. „Birtist eitt skrímsli í einu horni er óhjákvæmilegt að annað dúkki upp í hinu,“ segir Cercas. „Skilningur okkar á fasismanum er þakinn blekkingum og hræsni.“ „Fólk hefur gleymt því að fasisminn var aðlaðandi, hann var heillandi.“

Cercas liggur undir fyrirsjáanlegu ámæli fyrir nýjustu bók sína, tilraun til að fá einhvern botn í fasismann og borgarastyrjöldina út frá sögu fasista í hans eigin fjölskyldu. Hví hefur hann yfirleitt áhuga? Hvers vegna er þessi rithöfundur, gjarnan tengdur við vinstri, að ljá drepnum fasískum hugsjónapíslarvættisunglingi frá síðustu öld mennska mynd? Normalísera hann? Fyrir Cercas vakir ekki það heldur þörfin til að skilja.

Vox komst ekki í ríkisstjórn en flokkurinn er kominn til að vera, hefur nú fylgi upp á rúm 10% og fulltrúa í Evrópuráðinu. Sá sem skellir skollaeyrum við hinum hugljúfa og ástleitna rómi fasismans í Evrópu mun ekki átta sig á aðdráttarafli hans og ekki fá skilið hann. Sá sem skilur ekki fasismann mun ekki heldur nokkru sinni fá sigrast á honum.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni