Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

„Gleðin er bernsk“

Gleðigangan er gleðileg. Þær gerast víst ekki öllu augljósari en þetta, fullyrðingarnar, gerast varla öllu banalli. En þannig er það samt. Hún er gleðileg. Það þýðir ekki að reyna að koma auga á gleðina í sjónvarpi, maður verður að vera á staðnum. Gleðinni er ekki heldur beinlínis hægt að lýsa, hún skín úr augunum, liggur í andrúmsloftinu; hún inniheldur eftirvæntingu, fögnuð, einhvern hugsjónaneista. Hún er einhvern veginn alger, skilyrðislaus, fölskvalaus með öllu.

Ég gekk á eftir bókabílnum Höfðingja sem í fyrsta skipti tók þátt, smekkfullur af hinsegin bókum til útláns og skoðunar. Slæðingur af bókafólki fylgdi í kjölfarið. Ég hef aldrei áður verið innan girðingar, hluti af göngunni sjálfri; ég rölti bara út og gekk svo í kjölfar bókabílsins þegar hann kom, ég vissi af honum, það hafði verið auglýst eftir rithöfundum. 

Úlfhildur Dagsdóttir bókaverja gekk þar fremst meðal jafningja. Ég hef reyndar aldrei séð hana ganga öðruvísi en gleðilega.

Einhvern veginn laðar gangan fram það besta í öllum. Og nú er ég ekki maður sem kalla má lausan við tortryggni og ég kippi mér heldur ekki upp við að vera kallaður bölsýnn. Í mínum huga gæti öll réttindabarátta hinsegin allt eins fólks hrunið til grunna á fáeinum árum og þarf ekki mikið til, heimur er forgengilegur.

En ég kom auga á náunga sem ég hef lítið álit á í manngrúanum. Ekki að náunginn fylli mig neinu mannhatri, aðeins ... þið vitið, böli krítískrar hugsunar: Ég vænti ekki heilinda af honum.

Enda væri það fráleit vænting. Ég hefði helst átt von á að þennan mann myndi ég sjá dreissugan gefa hommunum brauð sem hann hefði fengið ókeypis þriggja daga gamalt í bakaríi.

Afsakið myndmálið.

Þessi maður einfaldlega hefur lítinn skammt af göfugum víddum í sér, eftir því sem ég best vissi. 

En fólk er alveg lygilega gott. Jafnvel hann var algerlega heill í augunum. Ekkert í fari hans nema þvottekta samlíðan og gleði. Jafnvel honum var ljóst að gangan gaf honum meira en hann gaf henni.

Gleðin er smitandi. Á einhvern hátt er stemmningin í gleðigöngunni af sama meiði og áður var — eða átti að vera — á sautjánda júní: Af meiði samstöðu og hugsjónar. Og ekki heldur alveg óskyld stemmningunni í búsáhaldabyltingunni. Því þar dansaði fólk og spilaði smitandi takta.  

Heimkominn sá ég að manneskja hafði verið handtekin og var engu líkara en að í loftinu lægi að einhver hefði viljað mótmæla göngunni sjálfri. Svo var ekki. Þar var göngumanneskja á ferð og handtakan tilefnislaus. Og sennilega ámælisverð.

Einhvers staðar eru jú samt vafalaust froðufellandi kandídatar í mótmæli gegn gleðigöngunni, uppteknir við að hlusta á útvarpsrásina sína, nærandi í sér hatrið en ekki gleðina. Einhvers staðar í stjórnmálaandrúmslofti samtímans felst möguleikinn á því að raðir þess fólks þéttist — og þéttist jafnvel enn frekar ef það einangrast og er undanskilið opinberri umræðu. Einhvers staðar á gleðin sér andstöðu.

En eigi að síður: Gleðin er bernsk og lætur ekkert halda aftra sér. Eða eins og Þorsteinn frá Hamri orti:

Gleðin er bernsk: hana brýtur
sí og æ
á sömu skerjunum,

kýs þó jafnan fleytuna fremur en brú

og nær að endingu
lífhöfn, lendingu

í mannsfjöru eins og minni, um nónbilið eins og nú.


Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni