Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Þetta eru allt helvítis óþverrar

Furðu oft verður mér hugsað til bókar sem kom út fyrir þremur árum, ber titilinn Hvað er eiginlega að þessu Alþingi? og er eftir Þór Saari. Ástæða þess að mér verður hugsað til bókarinnar er ekki sú að hún sé svo góð heldur eiginlega þvert á móti. Bókin er mér minnisstæð vegna þess hvaða bók ég hélt að gæti verið að finna undir góðum titli. Bókin sjálf er að minni hyggju ansi dæmigerð, nánast tákngervingur fyrir ýmis algeng viðhorf í stjórnmálahugsun eftirhrunsáranna. Hún er mikil syrpa með miklum látum og til marks um að enda þótt fólk hafi dregið lærdóm af hruninu er ekki endilega víst að sá lærdómur sé réttur.

Hvað er eiginlega að þessu Alþingi?

Menntaður, kjaftfor, róttækur náungi, andvígur kerfinu, með þingreynslu en þó utanaðkomandi, gerir upp setu sína á Alþingi í eitt kjörtímabil. Ýmislegt gæti bent til að þar færi bitastæð bók, full af greiningu og ferskum hugmyndum. Væntanlega hefur höfundur rýnt í lög og hefðir, reglugerðir og þingsköp, siði og ósiði, og hefur svar við spurningunni sem titillinn felur í sér. Hvað er eiginlega að þessu Alþingi?

Kenning Þórs Saari er sú að pólitísk yfirstétt hafi myndast í landinu og hugsjónalausir atvinnustjórnmálamenn, gersneyddir sannfæringu, tekið yfir. Þessir sjálfhverfu snatar tilheyra Fjórflokknum (hugtak sem Þór notar mikið en eldist nú hratt) og hygla fyrst og síðast sjálfum sér og frama sínum. Þeir eru í engum tengslum við lífið í landinu og almenning en gagnast vel sem senditíkur hagsmunaafla.

Þór virðist álíta að pólitísk yfirstétt hafi orðið til á Íslandi tiltölulega nýlega og líklega dottið af himnum: Söguleg sýn er lítil og kerfisgreining hverfandi. Öllu sennilegar hljómar að pólitísk yfirstétt hafi lengi verið við lýði á Íslandi, kannski alla tíð, og ef á þessu hefur orðið sértæk breyting á undanförnum árum eru lesendur engu fróðari um hana eftir lesturinn.

Höfundur segir illgerlegt fyrir nýtt blóð, nýjar hugmyndir og nýtt tungutak að komast inn í íslensk stjórnmál og hafi alla tíð verið illgerlegt, enda einkennist þau af innæxlun og samfélagið sjálft af furðu lokuðum stéttum. Heilmikið má vera til í því. Þó er höfundur sjálfur gangandi dæmi um hið gagnstæða og reyndar ansi margir stjórnmálamenn á allra síðustu árum: Nýliðun hefur sjaldan eða aldrei verið meiri.

 Rangur titill á rangri bók

Í bókinni sem ég hélt að ég væri að fara að lesa, þeirri sem ég ímyndaði mér af titlinum, var gerður samanburður á þjóðþingum margra landa og kannað hvaða áhrif alþjóðavæðingin hafi haft á stjórnnál og lýðræði. Kapítalið hefur alþjóðavæðst — hefði kannski staðið í þeirri bók — en stjórnmálin síður og verkalýðsfélögin alls ekki. Hið alþjóðlega fjármagn er eins og risastór fótboltavöllur með tveimur mörkum, hinna ríku og hinna fátæku, en inni á þessum fótboltavelli er aragrúi minni valla þar sem verkalýðsbaráttan á sér stað á vettvangi þjóðríkja. Sigrar geta unnist á litla vellinum en ekki á þeim stóra: Fjármagnseigendur skora alltaf í mark, eignamunur eykst stöðugt, prósentureikningur um þá sem eiga mest miðað við þá sem eiga minnst er orðinn ævintýralegur.

Sú bók hefði kannski komið inn á eftirminnilega ræðu portúgalska rithöfundarins José Saramago í Norræna húsinu um árið þar sem Saramago hélt því fram að lýðræði væri ekki til lengur í vestrænu samfélagi vegna ítaka alþjóðlegra stórfyrirtækja. Saramago komst upp með þvíumlíkt. Ekki aðeins vegna þess að hann færir góð rök fyrir máli sínu heldur er heimsmynd hans svo gersneydd öllu mannhatri.

Sú bók hefði kannski komið fram með ítarlega og kalda greiningu á þingræðiskerfinu sem og nákvæma áætlun um hvernig mætti breyta þingsköpum á Íslandi til að bæta starf Alþingis.

Ekkert af þessu er í bókinni. Margt er ágætlega athugað, fróðlegt og upplýsandi hjá Þór Saari, og þrátt fyrir þreytandi og þversagnakennda fullyrðingasemi er sumt beitt. Þegar upp er staðið er þó erfitt er að sjá annað en að helsti vandi þingræðis á Íslandi sé að mati höfundar hvorki kerfislægur né hugmyndafræðilegur heldur sú einfalda staðreynd að á Alþingi sitji tómir óþverrar.

Þannig er skautað rakleiðis frá hinu meinholla virðingarleysi við allt vald yfir í hreinræktaða og banala kýník.

Um óheilindi annarra

Hvatarýni Þórs á stjórnmálamenn er ósannfærandi útmálun. Ekki vegna þess að hún sé endilega röng, vel getur verið að íslenskir stjórnmálamenn séu fyrir einskæra tilviljun heilt yfir sérlega illa innréttaðir umfram aðrar stéttir. Það bara kemur engum kjarna máls neitt við og til lítils að hafa á því orð ef fyrir þessu er engin ástæða nema eðlislæg mannvonska.

Stundum verður höfundur beinlínis spaugilegur. Hann hneykslast á því að fjárlaganefnd veiti fé til jólasveina á Mývatni, skrímslaseturs í Bíldudal og sjóræningjaseturs á Patreksfirði á þeim forsendum að jólasveinar, skrímsli og sjóræningjar séu ekki til (49). Ha? Jólasveinarnir? Ekki til?

Og það eru ýmsar þversagnir í máli Þórs. Þingfararkaup er í senn hneykslanlega hátt og alltof lágt til að hæft fólk fáist til starfans; þingstarfið er bæði alltof lítið og letisamt og alltof annasamt með ofurmannlegu álagi. Engin leið er að vita hvort heldur er, oflaunað letilíf eða illa launað strit. Það er eins og höfundur vilji bæði hrækja á kökuna og snýta sér á hana.

 Kerfið ver sig sjálft

Ein meginhugmynd bókarinnar er að kerfið verji sjálft sig og því sé ómögulegt að koma neinum breytingum í kring. Ísland sé eiginlega ónýtt.

Ver kerfið sjálft sig? Auðvitað ver kerfið sig sjálft, það gera öll kerfi. Eiginlega gæti fátt verið augljósara. Og fyrir bragðið eru hugmyndir Þórs „gagnrýniheldar“. Sá sem bendir á augljósar þversagnir og ódýr mælskubrögð hlýtur að vera að „verja kerfið“.

Þór telur Fjórflokkinn hafa kæft nýju stjórnarskrána til að verja kerfið og að í því hafi falist valdarán. Af þessu „valdaráni“ stjórnvalda leiðir ýmislegt sem heitir svo mikið sem „að lýðveldið sem slíkt [sé] í raun ekki lengur til.“ (82) Aftur má vera eitthvað hæft í því. En niðurstaðan er án greiningar og kyndug: Lýðveldið er ekki til en þó er þjóðarsamkundan þéttsetin spilltu fólki — þetta er allt sama tóbakið, allt óheiðarlegir eiginhagsmunaseggir og óþverrar, hvort sem lýðveldið er til eða ekki — en innst í brjósti kýníkersins blundar alltaf einhver hugmynd um ómengað sakleysi. Það sakleysi er stjórnarskrá fólksins.

 „Dáið er allt án drauma“

Að öðru leyti er fremur draumlítið í hugmyndaheimi Þórs Saari. Hann er ekki einn um þetta draumleysi, þetta vonleysi um að hægt sé að láta hugsjónir sínar rætast, þessa vondeyfð um betri heim. Það er svo sem ekki hægt að álasa fólki fyrir slíkt.

En svo þegar öll von virðist úti kemur í bókarlok sundurliðuð áætlun um helstu atriði sem skipta sköpum að mati höfundar við að endurreisa íslenskt samfélag. Það er besti kafli bókarinnar. Höfuðatriðið þar eru stjórnarskrárdrögin frá 2012. Þór telur hana forsendu þess að bæta lýðræðið og starf þingsins. Gott og vel. Eftir situr sú tilfinning að stjórnarskráin í lokaorðum bókar Þórs Saari sé ekki annað en alibía: Með tilvist hennar þarf jú ekki að hugsa sjálfstætt og ekki færa fram neina greiningu, Það hlýtur jú að vera of seint að innleiða svikna stjórnarskrána og Þór Saari gerir sig ekki beinlínis líklegan til að vera til neinnar samræðu um hvort aðrar leiðir séu færar í því máli, eftirsjáin svífur yfir vötnum — þessi kennd sem mannskepnan ver tíma sínum verst í. Þar að auki er torséð hvernig ný stjórnarskrá geti breytt því ef tilfellið er að þingsamkundan er stútfull af fólki sem að eðli og náttúru er sjálfhverfir framagosar og óþverrar.

Rangur lærdómur af hruninu

Hví eyði ég hér orðum að ekki svo nýrri bók? Ég geri það vegna þess að bækur eldast ekki. Ég held að Þór Saari sé einn af mörgum sem hafi dregið rangan lærdóm af hruninu, þann lærdóm að fremur en að greina kerfin og dreyma ný og leyfa hugmyndum sínum að hafa vængi sé vænlegt til árangurs að færa fram súbstanslausar fullyrðingar og ódýr mælskubrögð og helst krassandi tilhneigingu til mannhaturs. Það má lengi orna sér við hugheila sannfæringu um mannvonsku náungans og eigið sakleysi. Það er bara ekkert alvöru bit í því. Það er ekki nóg að gelta hátt.

Bók Þórs Saari er afurð hrunsins þegar sérhver hugmynd virtist framkvæmanleg og ekkert útilokað. Ég sakna ekki þess tíma en ég sakna betri lærdóma af honum og ég sakna drauma — eða eins og Ingibjörg Haraldsdóttir orti:


„Nú þegar kólnar og dimmir
og bilið vex                                                                                                                                                    milli þess sem er
og þess sem átti að verða.“

 

Ég hef ekkert gaman af að fylgjast með hugsjónafólki kyngja vonbrigðum drauma sinna. Það er dapurlegt að horfa upp á hugsjónir súrna. Og ég ætla að gefa mér að Þór Saari sé hugsjónamaður. En hví þessi blaseraða heimsmynd að afstöðnu einu litlu hruni? Hefur einhver í alvöru áhyggjur af því, nú þegar loftslagsváin er í algleymingi, að það komi ekki fleiri tækifæri þegar allt samfélagið verður í uppnámi?

Það þarf að stokka öll spilin upp á nýtt og finna nýjar leiðir til að láta sig dreyma um betri heim og það þarf að greina almennilega og greina upp á nýtt.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni