Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Tortímingarplanið

Náttúra Reykjanesskagans er einskis virði nema undir orkuvinnslu. Hún er einskis virði til útivistar og nátturuskoðunar. Reykjanesskaginn er einskis virði fyrir ferðaþjónustuna. Annað er ekki hægt að lesa úr drögum að 3ja áfanga rammaáætlunar. 

Af 19 jarðhitasvæðum skagans hafa eingöngu þrjú verið sett í verndarflokk (grænu punktarnir) og þrjú önnur í biðflokk (gulu punktarnir). Öll hin eru annað hvort þegar virkjuð eða hafa verið sett í orkunýtingarflokk rammaáætlunar, eins og sést á meðfylgjandi yfirlitskorti, sem við getum kallað tortímingarplan rammaáætlunar.  Þetta gæti þýtt að í framtíðinni muni nær samfelld virkjanaröð liggja eftir endilöngum skaganum frá Reykjanestá að Þingvallavatni.


Athygli skal vakin á því að þrjú svæði af fjórum innan Reykjanesfólkvangs hafa hér með verið sett í orkunýtingarflokk. Já, þið lásuð þetta rétt – innan Reykjanesfólkvangs! 

Fólkvangurinn verður því líklega að einu samfelldu virkjanasvæði. Nú tala menn reyndar ekki lengur um virkjanasvæði heldur „auðlindagarða“ til að þessi sturlun hljómi betur í eyrum almennings.


Í drögum að lokaskýrslu fyrir 3ja áfanga rammaáætlunar segir:
„Forsendur flokkunar virkjunarkosta í orkunýtingarflokk er að verðmætaeinkunnir viðkomandi landsvæða gefi ekki tilefni til friðunar gagnvart orkuvinnslu og að faghópar hafi gefið viðkomandi virkjunarkostum tiltölulega lágar áhrifaeinkunnir.“

Af þessu má ráða að Reykjanesskaginn er greinilega ennþá sama ruslatunnan og hann var í 2. áfanga rammaáætlunar. Ekki verður séð að hlustað hafi verið á sjónarmið annarra en orkufyrirtækjanna í öllu því ferli.  Þetta viðhorf til Reykjanesskagans er óskiljanlegt. Ef við berum hann saman við þjóðgarðinn á Snæfellsnesi  er hægt að finna allt á Reykjanesskaganum sem finna má í þjóðgarðinum – nema jökul. 

Nýlega birist frétt í Viðskiptablaðinu þess efnis að Íslendingar ættu heimsmet í orkunotkun.  Landinn væri í algjörum sérflokki hvað þetta varðar. Samt skal haldið áfram endalaust að rústa náttúruperlum fyrir fleiri virkjanir.  Menn láta eins og Ísland eigi enn langt í land með að iðn- og rafvæðast til jafns á við önnur vestræn lönd.  Því fer auðvitað víðsfjarri. Það er eitthvað rangt við þessa mynd.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu