Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Þegar nóttin var bestuð burt

Þegar nóttin var bestuð burt

Skemmtistaður sem ég hef aldrei sótt á nú að víkja fyrir hóteli. Það er víst þegar búið að loka honum. Ef ég ber rétt skynbragð á bergmálið frá þessum samkomustað hefur hann orðið einn af þeim fágætu reitum þar sem menning er eitthvað gleðilegt, sveitt og stundum illa þefjandi. Tiltekinn staður sem skiptir fólk máli, að miklu leyti fólk sem ætla má að sé tekjulítið en þó ekki þar með sagt fátækt.

Samkvæmt skilgreiningu skipta hótel næstum aldrei neinn máli á þennan máta. Þau eiga helst ekki að vera tiltekin, heldur almenn: hrein og vel eða ekki lyktandi, áreitis og hávaðalaus. Hreint á rúminu. Það að hótelrými standi til boða er mikilvægt, en hvaða hótel er aukaatriði, enginn ætlar að gera sig heimakominn þar. Það sem gerir hótel eftirsóknarverðan fjárfestingarkost er að þar má hafa nokkurt fé af fólki fyrir að taka pláss hvert sem það fer, eins á meðan það gerir ekki neitt.

Verstun

Að reisa hótel er að besta lóðareign, hámarka ágóða per fermeter. Skemmtistaðir og önnur félagsrými eru, þegar best lætur, einhvers konar verstun: á góðum bar græðir enginn verulega peninga þó að eigandinn geti kannski haft það ágætt um hríð. Af góðum börum fer í þokkabót iðulega vont orðspor: þar lifir nóttin. Á daginn, sem er í skorðum, kunnum við ekki alltaf að tala vel um nóttina, sem er það ekki.

Félagsrými víkur fyrir hóteli, nóttin fyrir deginum, máðar kvittanir í rassvasa fyrir vandaðra bókhaldi, þetta óvænta og óstýriláta víkur fyrir bestu nýtingu sem er alltaf bundin viljanum til fyrirsjáanleika.

Í þessu tilfelli er það dagurinn sem arðrænir nóttina eins og aðra náttúru: allir vita að ferðamannaiðnaðurinn byggir á orðspori náttúrunnar og næturinnar. Ekki gistinátta sem eru alls staðar eins, heldur vökunáttanna vitlausu.

Lögmál þessarar framvindu er ekki nýtt en einmitt þessi birtingarmynd er frekar nýleg. Hvað er langt síðan Sirkus lokaði? Sirkus var svona staður, sem fæstir töluðu vel um á daginn óglottandi. Það fór af honum vafasamt orðspor. Hann var rekinn í litlum skúr í hliðargötu af Laugavegi. Björgólfur Thor, sem þá var vinsæll prins, var sagður eiga annað hvort skúrinn eða lóðina og ákvað stuttu fyrir hrun að loka staðnum til að rýma fyrir nýbyggingu: hóteli eða verslunarhúsnæði – dagbyggingu í öllu falli, dagbyggingu í dagrekstri. Svo hrundi og skúrinn stóð. Ef ég man rétt hýsir hann nú tölvuverslun.

Barir koma og fara, já, jafnvel þeir sem verða goðsagnakenndir um hríð. Ég þekki ekki til fólksins sem rak Sirkus – kannski höfðu þau góðar ástæður til að snúa sér að öðru hvort eð er. Ég heyrði því þó aldrei haldið fram að ákvörðunin hefði verið þeirra: hún kom að ofan og henni virtist að endingu fylgt næsta mótspyrnulaust. Hversu lengi megnar nokkur að tala máli næturinnar á daginn?

Verstun dauðans

Stuttu áður en kom að lokun hafði þó annað, jafnvel veigameira, komið fyrir skúrinn: á því herrans ári 2007 gekk í gildi reykingabann á samkomustöðum. Á öllum samkomustöðum, líka þessum illa þefjandi en stundum andríku búllum.

Ekki að ríkið hafi látið næturnar afskiptalausar til þessa: eftirlitsmenn þess hafa lengi framfylgt reglum um aldurstakmörk, það er bannað að slást og meiða og löggan reynir að bösta þá sem dópa. Samt. Fólki með aldur til, sem langaði hvorki að slást né meiða, leið um hríð eins og í næturskúrnum mætti það gera hvað sem það lysti til. Þau sem leika sér að eitri fallast almennt ekki á að krafa ríkisins um annað sé réttmæt, heldur svara áreitinu með einhvers konar samstöðu, einhvers konar mótspyrnu. Andspænis kröfu dagsins um bestun halda þau verstun sinni til streitu, og jafnvel boðorðin tíu fá að kúldrast í röðinni við dyrnar þar sem þeim er ýmist hleypt inn eða ekki eftir vinsældum meðal gesta og staðarhaldara. Boðorðin eiga ekki öll sama erindið við nóttina. Aðdráttarafl næturinnar er með öðrum orðum meðal annars sú hugmynd að í nóttinni hafirðu engu að hlýða.

Staðina sem verja nóttina fyrir ágangi ríkisins og daganna má líta á sem nokkurs konar æfingabúðir í sjálfræði. Slíkar æfingabúðir eru nýlunda á Íslandi og voru afar fágætar, er sagt, þar til eftir bjórbann. Að því leyti var afnám bjórbannsins árið 1989 samanburðarhæft við fall Berlínarmúrsins sama ár og heimsins regluföstustu ríkja í kjölfarið. Að breyttu breytanda.

Betrun

Átján árum síðar endurheimti ríkið, fulltrúi daganna í lífum okkar, ítök sín í nóttinni. Með ótal góðum rökum, næstum óhrekjanlegum, sýndi það fram á nauðsyn reglufestunnar þar inni: Reykingar eru verstun, verri en nóttin sjálf, verstun dauðans. Óháð heilsufari reykingafólks er hver sígaretta sem reykt er í almannarými eins konar rán: reykjandi manneskja tekur sér langtum meira pláss en hún á tilkall til. Í formi ólyktarinnar þrýstir nærvera hennar sér í hvern krók og kima þannig að jafnvel í vel loftræstum rýmum, þar sem ekki væri beinlínis hægt að tala um þungt loft, fá aðrir ekki undan því komist að álykta af þefnum: hér er einhver. Margt fleira mætti telja, eins og allir vita. Ef við bönnum ykkur ekkert munuð þið öll deyja, sagði ríkið. Og náttförum varð orða vant. Ríkið setti lög um nóttina og allir hlýddu. Allir koma nú betur lyktandi heim til sín á morgnana og takast hressari á við daginn eftir.

Reykingabannið var mikið framfaraskref fyrir lýðheilsu og lyktarskyn. Það var ekki síður framfaraskref fyrir lögmál vinnuseminnar: sá stóri hópur náttfara sem neytir tóbaks hefur síðan þá ekki losnað við þá tilfinningu að það að fara á barinn sé vinna, sem krefjist, eins og öll vinna, árvekni og skipulags: að færa sig út til að sinna einu erindi, finna drykknum stað á meðan þar sem fylgjast má með honum, færa sig aftur inn til að sinna hinu erindinu, gæta að því að missa ekki sætið á meðan, streða svolítið. Missa sig ekki. Líða ekki eins og heima hjá sér. Líða ekki eins og gestir og staðarhaldarar eigi staðinn. 

Við getum þó öll verið sammála um mikilvægi lýðheilsu

Óbestuð er nóttin ekkert nema taprekstur. Nóttinni verður ekki hæglega útrýmt með öllu en opinber rými voru þó að nokkru leyti afnáttuð árið 2007: frá sjónarmiði dagsins er því þar nú allt með nokkuð betra móti en áður var. Ábatasamara – í heildarsamhengi hlutanna. Hvað er, þegar allt kemur til alls, dýrmætara en heilsan? Ef einhverjum þykir að hugsanlega þarfnist skýringar við hversu greitt deginum gengur um þessar mundir að víkja nóttinni frá, hversu mótspyrnulaust taprekin félagsrými víkja fyrir heilbrigðum rekstrarforsendum daganna, hvarflar að mér að reykingabannið sé ákveðinn vendipunktur: þar hafi náttfarar vanist því að segja já við handhafa dagvaldsins. Já, frammi fyrir ykkur höfum við rangt fyrir okkur. Já, bestið burt lesti vora.

Kannski eru það ýkjur. Trúlega. Margt hefur verið bestað burt á síðustu árum, veigameira en vafasamir barir, hvað þá þessi illa lyktandi ósiður. Heilu bæirnir og byggðalögin hafa mátt sæta bestun og lagst í eyði á meðan önnur svæði eru bestuð föst með álveri eða öðru eins. Óþægileg listaverk hafa verið bestuð burt og óbestuð verk verið böstuð, svo ekki sé minnst á burtbestaðan verkfallsrétt eða allt fólkið sem bestar sig úr landi. Það má besta þig burt líka. Að horfa til reykingabannsins sérstaklega og gefa því eitthvert vægi er fáránlegt með aðra, raunverulega skaðlega, bestun til hliðsjónar. Og kannski er þetta ekki einu sinni neitt sérstakur bar sem var verið að loka. Fíklar eiga til að stunda hástemmdar varnir til réttlætingar á sínu versta, en það veistu auðvitað og tekur þessu því öllu, treysti ég, með hæfilegum fyrirvara.

Þessi undanlátssemi við tangarhald daganna, vinnuseminnar, laganna, bestunarinnar, bannsins og hlýðninnar á nóttinni hvarflaði þó að mér aftur þegar ég heyrði, frá mér nákomnum Grikklandsfara, að í Aþenu sýndi almenningur, þessi sem kann að segja nei, mikla samstöðu um réttinn til að reykja hvar sem er. Íslendingar eru meðvitaðri um lýðheilsu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu