Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Gildin okkar eru ekki til

Gildin okkar eru ekki til

Sigmundur Davíð segist hafa áhyggjur af því að tilfærsla valds til nýrra stjórnmálaafla gæti gert erfitt að "viðhalda þeim gildum sem við höfum þó verið að sækjast eftir og byggja upp um áratuga skeið.“ Hvaða gildum? Bannað að segja rasismi og þjóðernishyggja. Hvaða gildi eru þetta? Bannað að segja mismunun og forréttindi. Bannað að segja erfðaveldi og auðhyggja.

Lýðræði, jafnrétti, frelsi? Réttlæti, almennur velvilji, náungakærleikur? Þú mátt velja í hvaða röð. Var það eitthvað fleira? "Já, umhverfisvernd líka. Og sjálfbærni."  -- Þarf ekki einu sinni að nefna það. Höfum alltaf öll verið umhverfis og sjálfbær. Hvað sagði ekki Jón Sigurðsson í litlu fiskibókinni sinni? Og einkennislitur flokksins okkar? Við erum líka opin, einlæg, jákvæð, bjartsýn, hress og umburðarlynd gagnvart mannréttindum.

Ég gæti haft rangt fyrir mér en ég held að ef blaðamaður spyrði Sigmund hvaða gildum Píratar ógna þá gæti hann engu svarað. Ég held að hann gæti ekki nefnt eitt gildi. Hann yrði að leiða talið að öðru. Og ég held að þetta hugtak, gildi, sé um þessar mundir aðeins notað þannig - án allra aukaefna á við merkingu.

Hvaða tilgangi þjónar orðið þá? Í það minnsta getur það veitt hefðum jákvæða ásýnd. Gildi hljóma eins og markmið, eitthvað framundan sem stefnt skal að, gulrót, á meðan hefðir hljóma eins og svipa. Nútíminn í heilu lagi byggir á þeirri afstöðu til hefða að þær séu ekki næg ástæða fyrir neinu. Nútíminn, ekki bara síðustu ár heldur síðustu tvær aldir hið minnsta -- efnahagslegur nútími, tæknilegur og pólitískur -- grundvallast á þessu eina viðmiði: það hvernig þú ert vanur eða vön að gera hlutina er ekki næg ástæða til að halda áfram að gera þá þannig. Hér er ég með nýja aðferð, sjáðu. Og sá háttur á þá að láta í minni pokann, vægja, sem vitið hefur minna.

Þetta er ein af röksemdunum fyrir tjáningarfrelsi, til dæmis: að ef hugmyndir fá að takast á, þá vægi að lokum sú sem vitið hefur minna. Það, hins vegar, kæmi sér alltaf illa fyrir - bannað að segja Framsókn. Bannað að segja Sjálfstæðis. Bannað að segja landeigendur, yfirstétt og íhald. Bannað að segja erfðaprins, kapítalisti og fjórflokkur.

Svo þau segja gildi, meina hefðir og treysta bara blaðamönnum sem vita betur en að spyrja hver gildin séu, enda eiga þau sameiginlega hagsmuni með jarðýtum að þessu leyti: að orð verði aldrei svo merkingarbær að þau trufli framkvæmdina.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu