Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Áhorfsmælingar Mána

Áhorfsmælingar Mána

Hvað gerir vitur maður þegar fíflið bendir á tunglið? En ef sá sem bendir er harðstjóri? En þegar fjölmiðlafulltrúi harðstjórans bendir á tunglið, hvað gerir lærlingur vitra mannsins þá? Hvert horfir forsetinn þegar kjósendur benda? Hvað gerir tunglið á meðan allir aðrir ýmist benda eða góna á það?

Ég á í vandræðum með þetta máltæki þarna, að þegar vitur maður bendi á tunglið horfi fíflið á fingurinn. Internetið segir ýmist að það sé upprunnið í zen-búddisma eða komið frá Konfúsíusi. Ef máltækið á sér yfirleitt uppruna í Austurlöndum frekar en til dæmis Karate Kid eða Bruce Lee mynd, þá hlýtur það að tilheyra Konfúsíanisma. Zen-búddismi er, að ég best veit, ekki svona veikur fyrir mótþróalausri undirgefni. Ekki vélhjólaútgáfan, í það minnsta.

Allt um það líður mér eins og þessa dagana bendi æði margir á tunglið. Í síðustu viku virtist lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum gera það bæði af mestri festu og með svartasta leðurhankann á hönd. Þegar forsætisráðherra vill benda á tunglið er eins og hann sé klæddur í lúffur. En fleiri benda.

Á Íslandi er starfrækt ráðuneyti sem setur hugsanlega sterkari svip á tilveru landsmanna en öll hin: tunglbendingaráðuneytið mætti kalla það.

Opinbert heiti þessa ráðuneytis er Íslandsstofa. Og opinberlega er það ekki ráðuneyti. Bara … stofa. „Stofnuð er Íslandsstofa“ segja lögin. Stofan er rekin á fjárlögum og hefur haft úr um milljarði að spila á ári, að mestu leyti úr ríkissjóði. Yfir stofunni er hins vegar ekki ráðherra eða nokkur kjörinn fulltrúi, heldur sjö manna stjórn. Samkvæmt lögum eru fjórir þessara sjö stjórnarmanna tilnefndir af Samtökum Atvinnulífsins. Stjórnin, með tryggan meirihluta hagsmunasamtakanna einu, ræður framkvæmdastjóra ráðuneytisins. Afsakið, stofunnar.

Hið framúrskarandi starf sem Íslandsstofa hefur unnið á síðustu árum hefur ekki farið fram hjá neinum. Seinni hluta tuttugustu aldar var orðið peningalykt haft yfir lyktina af fiskverkun og síldarbræðslu. Nú liggur önnur lykt um landið. Að eldhræringum og listafólki undanskildu ber Íslandsstofa trúlega mesta ábyrgð á því hve ferðamannamyllurnar mylja. Hvernig þá? Hvað gera þau fyrir milljarð á ári?

Í ársskýrslu Íslandsstofu fyrir árið 2014 má meðal annars lesa: „Alls birtust í fjölmiðlum 1.513 greinar tilkomnar vegna almannatengsla Íslandsstofu á árinu 2014.“ Á eftir fylgir ítarlegri upptalning um tegundir umfjöllunar og sundurliðun eftir löndum. Fjöldi blaðamanna frá Bretlandi sem stofan bauð eða „aðstoðaði við skipulagningu ferðar“ á árinu: 242. Tónlistarhátíðir, ráðstefnur, listahátíðir, kvikmyndagerð — Íslandsstofa beitir öllum tiltækum ráðum til að senda samstillt, jákvæð skilaboð um Ísland til annarra landa. Það er hlutverk hennar, að lögum.

Nýleg rannsókn Önnu Andersen, fráfarandi ritstjóra Reykjavík Grapevine, gefur til kynna að allt að helmingur umfjöllunar um landið erlendis skili sér í endursögnum íslenskra fjölmiðla. Þannig skilar umfjöllunin sér, sú sem erlendir blaðamenn semja með aðstoð, eða jafnvel í boði, Íslandsstofu, aftur heim í stofu til Íslendinga sjálfra, sem hrifning og glóruleysi umheimsins. Fyrr en varir reynast fjölmiðlar sjálfir ruglast á þessu suði og fréttum, svo ef lækkar í fídbakk-lúppunni senda þeir sjálfir blaðamenn á stúfana og bæta í. Þú veist að „bresk stúlka sem kom til landsins með skólafélögum sínum“ segist „dýrka vegina á Íslandi“, en þú hefur ekki endilega heyrt hvernig gengur á Landspítalanum eftir að hjúkrunarfræðingar voru sviptir verkfallsrétti. Eða hvort við erum að spá í að fá okkur svona verkfallsrétt aftur, yfirleitt.

Að þessu leyti hefur ríkið yfir miklu fágaðri verkfærum að ráða en yfirvöld í lítilli byggð eins og Vestmannaeyjum. Ferli ríkisins til hliðrunar á fréttaumfjöllun er svo umfangsmikið og raffínerað að líklega væri enginn ráðamaður í landinu nógu klókur til að koma öðru eins upp í einmitt þeim tilgangi.

Nei, Íslandsstofu er aðeins ætlað að gera landið aðlaðandi í hugum útlendinga. Sem áróðursmálaráðuneyti er Íslandsstofa áreiðanlega ekki hugsuð til heimabrúks heldur til að færa gjaldeyri til Samtaka Atvinnulífsins. Ef skilaboðin rata aftur heim í nokkurs konar fídbakk-lúppu þegar innlendir miðlar endursegja umfjöllun erlendra – hvað þá þegar landsmenn eru sjálfir hvattir til beinnar þátttöku með sjálfboðastörfum í markaðsherferðum – ef viðvarandi ríkisvaxlitaherferð í fjölmiðlum gerir landið um leið aðeins bjartara en ella í hugum heimamanna, þá er það þó heppileg hliðarverkan. Og ráðamenn virðast upp til hópa vita betur en trufla reksturinn fyrst svona heppilega tókst til.

Með öðrum orðum ætti framkvæmdastjóri Íslandsstofu að geta kennt bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum nokkur trix fyrir næstu þjóðhátíð: Hvernig hvetja má fólk til að góna sem mest á tunglið, án þess að það komi auga á nokkurn fingur á lofti.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni