Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

,,You ain‘t seen nothing yet"

,,You ain‘t seen nothing yet"

 

Hugleiðing um hrun, kreppu, bólu, eða hvað sem skal kalla þetta!

Það hefur ekki dulist neinum að nú er haldið upp á, en eki fagnað, að áratugur er frá því að íslenska þjóðarskútan fór svo kyrfilega á hliðina að næstum ekki var aftur snúið. Já, það má líkja því sem gerðist á haustdögum 2008 við hrikalegan brotsjó sem keyrir dallinn næstum til botns, með manni og mús. Eða fellibyl, eða jarðskjálfta, þ.e.a.s krafta sem eira engu og skilja eftir sig hrikalega eyðileggingu.

Einnig má líkja tímanum fyrir hrun, það sem kallað er ,,góðærið“ við eiturlyfjasjúkling sem fær (og hefur) næstum ótakmarkaðan aðgang að dópi, í þessu tilfelli peningum. Í grein á Stundinni er haft eftir Norðmanninum Svein Harald Øygard, sem var bankastjóri Seðlabankans frá því í lok febrúar 2009 til júní sama ár, að honum hafi komið á óvart hve illa Íslendingar voru undirbúnir því sem gerðist haustið 2008.

,,Fíkillinn“

En hafa Íslendingar einhverntímann stundað slíkt? Það er að undirbúa sig undir kreppur? Ekki svo ég viti. Það var að minnsta kosti ekkert svoleiðis í gangi þegar síldin hvarf 1968 eða þegar hin svokölluð „dot.com-bóla“ sprakk um síðustu aldamót. Þá var mokað upp fiski, þar til hann hvarf. Kannski var svipað uppi á teningnum á árunum fyrir hrun, á meðan nægt fjármagn var í boði.

Það liggur í eðli fíkislins að ,,njóta“ bara augnabliksins og hugsa um næsta skammt. Markmið hans er að komast í vímu, halda svo vímunni og ekki vera t.d. að undirbúa sig undir að fara í fráhvörf, það sem kallað er ,,cold turkey“.

Íslenska þjóðin (að minnsta kosti hluti hennar) var nefnilega í vímu af óheftu aðgengi að fjármagni og hagstæðu, sterku, gengi krónunnar. Nokkuð sem opnaði fyrir ótakmarkaðan innflutning og mikla velsæld => ,,vímu.“ Hlutum var ,,potað“ að fólki, rétt eins ,,dílerar“ vinna (,,settu peningana í þennan sjóð“ – ,,keyptu þessi bréf“ o.s.frv.). Það var spilað, ,,vílað og dílað“ með fólk og fjármagn.

Hégómi og minnimáttarkennd

Hégómi og krónísk minnimáttarkennd spila einnig hér inn í. Litla eyríkið var búið að brjótast undan gamla haftasamfélaginu og hafði fengið frelsi sem hún hafði ekki þekkt áður (t.d. EES-samningurinn, aukin alþjóðahyggja). En kúnstin var að kunna að fara með frelsið og kunna sér hóf. En það kunnu hinir svokölluðu útrásarvíkingar ekki, enda linnulaust hvattir áfram að öllum æðstu mönnum hinnar ráðandi stéttar þess tíma. Þeir vildu líka ekki vera ,,minni menn“ en hinir stóru bissnesskallarnir og þurftu því að fljúga um á einkaþotum, eiga snekkjur og slíkt. Minna dugði ekki.

,,Hið svokallaða hrun“

Svo er það spurningin hvað á að kalla þetta allt saman. Það er athyglisvert að nýlega kallaði Viðskiptablaðið atburðina 2008 ,,fjármálabólu“. Er það í fyrsta sinn sem ég hef séð fjölmiðil kalla ástandið sem skapaðist þessu nafni. Spurningin er þá kannski hvað bóla þarf að vera stór til þess að kallast krísa – sérstaklega þegar hún gefur sig? Það sem kallast ,,efnhagsbóla“ er yfirleitt skilgreint sem ástand þar sem verð á ákveðnum hlutum, t.d. fasteignum verður hærra en það sem er ,,eðlislægt“ virði þeirra í raun. Er hægt að kalla þá atburði sem leiða til atvinnueysis þúsunda manna, fólksflótta, fyrirtækjaþrota, gengishruns og nánast allsherjarhruns á trausti á stofnunum samfélagsins bólu? Tæplega að mínu mati. En þetta er ef til vill tilraun Viðskiptablaðsins til þess að setja söguna í nýtt samhengi, ,,mýkja“ hana og ganga þannig um hnútana að það passi ákveðnum öflum á hægrivæng stjórnmálanna.

Sama má segja um þá aðila sem kalla þetta ,,hið svokallaða hrun.“ Fyrr á þessu ári birtist t.d. grein eftir Gísla Frey Valdórsson (fyrrum eiganda Viðskiptablaðsins og fyrrum aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttir, fyrrum ráðherra) en hann er nú ritstjóri tímarritsins Þjóðmál, sem er eitt helsta málgagn hægri-aflanna í íslenskum stjórnmálum, þar sem hann notar hugtakið ,,hið svokallaða hrun.“ Það er notað til þess að gefa lesandnum þá hugmynd að þetta hafi t.d. aldrei raunverulega gerst. Eða að þetta hafi bara verið eitthvað smámál (sem það var ekki). Þetta er í raun bara ódýrt áróðursbragð og það sem kalla má ,,afneitunarhyggju.“

Hið yndislega tungumál

Tungumál er yndislegur hlutur. Við getum notað það til þess að finna allskonar nöfn á allskonar hluti, einmitt til þess að opna á túlkanir og gefa í skyn ýmsar hugmyndir. Og hafa áhrif á hugsanir fólks. Það má því kalla atburði haustins 2008 ýmsum nöfnum; hrun, efnhagshrun, bankahrun, bankakreppa, fjármálakreppa, brotlending, strand, fárviðri, efnhagsdýfu, holskeflu, brotsjó, óveður, fellibyl og jafnvel niðursveiflu eða samdrátt.

En eftir stendur sú staðreynd að þegar orðin ,,Guð blessi Ísland“ bárust landsmönnum úr munni þáverandi forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, hófst mesta ,,undantekning“ eða ,,frávik“ í sögu íslensku þjóðarinnar (tvö ný orð!). Atburði sem ollu mestu fjárhagslegu og andlegu kreppu sem Íslendingar hafa upplifað frá upphafi lýðveldis.

Hvernig fór með fíkilinn?

Og hvernig fór með ,,fíkilinn“? Jú, það lokaðist skyndilega á allt ,,dópið“ (allar lánalínur lokuðust) og ,,dílerinn“ bara hvarf! Við tók mesta ,,fráhvarf“ í sögu íslensku þjóðarinnar (nýtt orð!) og þá þurfti þjóðin að herða sultarólina allhressilega.

Það væri áhugavert rannsóknarefni að heyra í forkólfum útrásarinnar að lýsa einmitt þessu ástandi fyrir okkur hinum; þ.e.a.s. hvernig það er að vera í peningavímu (,,high on money“) og vera í slíku rússi að finnast þeir vera ósigrandi og geta allt. Því það er einmitt það sem okkur var sagt: Að hinir djörfu útrásarvíkingar væru ósigrandi, eða eins og þáverandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson sagði árið 2005: ,,You ain‘t seen nothing yet.“

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu