Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Myrkrahöfðingjar í Hvíta húsinu?

Myrkrahöfðingjar í Hvíta húsinu?

Donald Trump ætlar að gefa skít í hinn fræga blaðamannadinner sem haldinn verður í lok apríl næstkomandi. En Trump er fórnarlamb eigin hroka og vitleysisgangs í málinu. Hvernig þá?

Jú, Trump tók nefnilega upp á því rugli á sínum tíma að ásaka Barack Obama fyrir það að vera ekki fæddur í Bandaríkjunum. Þetta var upphafið af því sem "tryllta-villta-hægrið" í Bandaríkunum, með Teboðshreyfinguna fremsta í flokki, kallar "fæðingavottorðsmálið" og var til þess eins fallið að draga í efa lögmæti þess að Obama gæti boðið sig fram til forseta. Þetta var gert óspart í aðdraganda kosninganna 2008 og eins eftir þær.

Auðvitað var málið byggt á sandi og í staðinn gerði Obama óspart grín að Trump vegna þess, eins og sést á þessu myndbandi. Trump var ekki skemmt og stökk hreinlega ekki bros á vör.

Sumir segja að augnablik hefndarinnar fyrir þetta hafi runnið upp þegar Trump var settur í embættí 45.forseta Bandaríkjanna þann 20.janúar síðastliðinn. Og það má vel vera. Hefnd er líka til í pólitík, rétt eins og annarsstaðar.

Frá embættistöku sinni hefur Trump verið í stríði við helstu fjölmiðla Bandaríkjanna, sem í raun er komið á mjög alvarlegt stig - svo alvarlegt að rætt er um að gerðir Trump ógni hreinlega lýðræðinu í landinu.

Undirritaður var staddur í Boston fyrir nokkrum dögum síðan, en einmitt á því svæði hafa margir mikilvægustu atburðir í sögu Bandarríkjanna átt sér stað. Meðal annars ,,the Boston Tea party" og orrustan við Bunker Hill, þar sem nýlendubúar börðust við Breta. 

Bandaríkin eru innflytjendaland og sambandsríki byggt í kringum hugmyndina um frelsi. Sú hugmynd á líka við um fjölmiðla og margir af helstu fjölmiðlum Bandaríkjanna eru (og hafa verið) þeir bestu í heimi. Frelsi þeirra er meðal annars byggt að fyrstu viðbót stjórnarskrárinnar, sem kveður á að ekki megi setja nein lög sem hefti þetta frelsi.

En hvert er Trump að fara með aðgerðum sínum, þ.e. að útiloka vissa fjölmiðla frá upplýsingum? Hann er með þessu kominn á MJÖG hálan ís og eru þetta klárlega það sem kallað er alræðistilburðir.

Trump er ekki vitlaus og hann hlýtur að átta sig á því að þetta er barátta/orrusta/stríð sem hann getur ekki unnið. En að hann geri þessa tilraun sýnir og segir mjög mikið um hverskonar "karakter" hann hefur að geyma og hverskyns ráðgjafa hann er með í kringum sig. Því má ekki gleyma að í innsta hring hans eru einstaklingar sem  hafa "lofsamað mykrið"og þá spyr maður sig: Eru alvöru myrkrahöfðingjar komnir til valda í landi frelsisins?

Ps. Myndin með grein þessari er að sjálfsögðu hinn eini sanni Svarthöfði (Darth Vader) úr Star Wars kvikmyndum George Lucas.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni