Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Stera-KIM er með stæla

Stera-KIM er með stæla

Fyrir þá sem hafa áhuga á alþjóðamálum er "þriller" í gangi í kringum Kóreu og á Japanshafi.

Þar er furðulegasti furðufugl alþjóðastjórnmálanna að hegða sér sérstaklega furðulega í furðulegasta landi heims. Og furðufuglinn í Washington svarar.

Ekki veit ég hvort "unglingurinn" Kom Jong Un er á sterum, en hann hegðar sér þannig. Næstum eins og hann sé búinn að taka heilt töfluglas af anabólum.

N-Kórea er að fagna því um þessar mundir að 85 ár eru liðin frá stofnun hers landsins. En um er að ræða eitt einangraðasta ríki heims, sem lifir við stöðuga vænssýki af hendi leiðtogans og er stöðugt gírað inn á gereyðingarstríð að hætti kalda stríðsins.

Mestmegnis er her N-Kóreu, þar sem ein milljón manna er undir vopnum, byggður upp í kringum gamalt sovéskt drasl frá tímum kalda stríðsins og er ég efins um margt af því virki eins og til er ætlast. Þetta sér maður á heræfingunum hjá þeim og marseringunum í Pyonyang, höfuðborginni. Enginn vill selja þessu ríki alvöru, nútímaleg vopn. Um 25% af útgjöldum N-Kóreu fara þó til hernaðarmála. Á meðan sveltur stór hluti íbúanna og á ekki fyrir mat.

Allar þær eldflaugatilraunir sem þær  gera, enda yfirleitt þannig að þessar flaugar enda í Japanshafi, ef þær ná þá þangað. Fyrir nokkrum dögum skutu þeir upp einni þokkalegri rakettu, sem flaug 50 km (c.a. loftlínan frá Mosó og út á Keflavík) og sprakk þar. Kannski yfir litlu, sveltu N-kóresku þorpi? Hver veit? Ekki við, því það koma aldrei svona fréttir frá þessu sérkennilega og súrrealíska einræðisríki en kostulega heimildarmynd er að finna hér á krækjunni.

Ef til alvöru stríðs kæmi, ætti her N-Kóreu sennilega tæknilega ekki roð við herjum S-Kóreu, Japan eða Bandaríkjanna. Það sem þeir gætu hinsvegar gert er að senda milljónir varaliða út í opinn dauðann, svona rétt eins og Sovétmenn gerðu gegn Þriðja ríkinu í seinni heimsstyrjöld (fimm saman, með einn riffil, sem var með einni kúlu) eða álíka. Stera-Kim munar ekkert um nokkrar milljónir (af 25 talsins).

Endalaust með kjaft og derring

En hvað á að gera við gaur sem endalsaust rífur bara kjaft, er með derring og stæla? Í venjulegu íbúðarhverfi myndu menn sennilega að lokum sameinast um að lækka rostann í viðkomandi með einhverjum hætti. "Banka" svolítið í viðkomandi og gefa honum þannig viðvörun um að halda sig nú á mottunni og vera ekki endalaust með þetta f...ing vesen! 

Gallinn er bara sá að Stera-Kim hefur yfir einhverskonar kjarnorku að ræða, eða eitthvað í þá áttina. Þá er það orðið stórhættulegt.

Sennilega er bara best að bíða, bíta á jaxlinn og hugsa sem svo; "Fer fulli og leiðinlegi kallinn í partýinu ekki að koma sér heim að sofa, svo hinir geti haldið áfram að skemmta sér." 

Stera-Kim hlýtur að fara að slaka á, setja mynd í tækið eða álíka. Fá sér bara popp og kók með Bond og blása út um nasirnar. Þetta er orðið ágætt.

Myndin er fengið að láni á: http://kimjongunlookingatthings.tumblr.com/ og á myndinni er Kim sennilega að skoða eina strafandi fiskmarkaðinn í N-Kóreu.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu