Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Ríkisstjórn hinna ríku – fyrir hina ríku

Ríkisstjórn hinna ríku – fyrir hina ríku

Eftir aðeins rúmar þrjár vikur tekur 45. forseti Bandaríkjanna við völdum. Donald J. Trump, auðkýfingur og "silfurskeiðungur" frá Nýju Jórvík.

Síðustu vikurnar hefur Trump verið að setja saman ríkisstjórn sína, ,,kabinettið“ – sem á að stjórn með honum. Svo er það spurning hvort og hvernig það gangi, því sú mynd sem maður hefur af Trump er sú að hér sé ekki á ferðinni maður sem deili miklum völdum með sér.

Og það fólk sem Trump hefur valið nú þegar eru engir bótaþegar beint eða fjárhagslegir aumingjar. Talið er að samanlagður auður þeirra sem þegar hafa verið valdir sé um 35 milljarðar dollara, samkvæmt vefnum Politico.com og þetta ókláraða kabinett er nú þegar það auðugasta í sögu Bandaríkjanna.

Bara viðskiptaráðherrann, Wilbur Ross, er metinn á 2,5 milljarða dollara, eða um 280 milljarða íslenskra króna. Þá er talið að fjölskylduauður Betsy DeVos, verðandi menntamálaráðherra sé allt tvöfalt meiri, eða um 5 milljarðar dollara = 560 milljarðar íslenskar.

Verðandi utanríkisráðherra, Rex Tillerson getur einnig borgað reikninga sína um hver mánaðarmót, en þessi nú fyrrum forstjóri Exxon Mobil olíufyrirtækisins er metinn á um 150 milljónir dollara og var með um 24 milljónir í árslaun árið 2016. Þegar hann verður ráðherra mun hann fá um 200.000 dollara í árslaun og mun því taka á sig umtalsverða launalækkun. Það harðnar því í ári hjá Rex.

Langflestir ráðherranna hafa eignast auð sinn með því að erfa hann, eins og kemur fram í umfjöllun The Week um málið.

Meðaltekjur í Bandaríkjunum í fyrra voru um 55.000 dollarar, eða um 6.6 milljónir og árið 2014 lifðu um 47 milljónir þegna landsins, eða einn af hverjum sex, undir fátæktarmörkum.

Þá er það spurningin; ætlar þessi hópur ríka fólksins að gera eitthvað fyrir þetta fólk? Jú, Trump hefur lofað skattalækkunum, en þær eiga að vera fyrir alla, hina ríku líka. Þó hefur einnig verið bent á að fyrirhugað ,,skattaplan“ Trumps muni koma hinu ríka 1% mjög vel, eins og hér sést í The Guardian.

Málið er að Trump er enginn jafnaðaramaður og verður sjálfsagt aldrei. Hann hefur til dæmis sagt að hann ætli að bakka með eða ógilda stóra hluta af því sem kallað er ,,Obamacare“ og miðar að því að ALLIR þegnar Bandaríkjanna fái lagmarksaðgang að heilsugæslu. Þetta hefur mætt andstöðu, meðal annars frá kristnum í Tennesee

Það hlýtur að reynast erfitt fyrir þá sem taka við völdum þann 20.janúar næstkomandi að setja sig í spor hins venjulega Ameríkana. Obama gat það, enda kominn af alþýðufólki og ekki fæddur með silfurskeið í munni eins og eftirmaður hans.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu