Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Lúkasjénkó sýnir klærnar þegar Hvít-Rússar rísa upp

Lúkasjénkó sýnir klærnar þegar Hvít-Rússar rísa upp

Einræðisherrar eru alveg sérstök tegund manna að því leyti að þeim er skítsama um alla aðra en sjálfa sig og völd sín. Eitt besta dæmið um það er Adolf Hitler, sem undir lok seinni heimsstyrjaldar vildi í raun draga alla þýsku þjóðina með sér í hyldýpið. Örlög hans voru sjálfsmorð.

Í litlu landi í Evrópu, Hvíta-Rússlandi, berst nú síðasti einræðisherra Evrópu, Alexander Lúkasjénkó fyrir (pólitísku) lífi sínu, eftir að hafa svindlað með stórkostlegum hætti í forsetakosningum sem haldnar voru þar fyrir skömmu.

Viðbrögð Lúkasjenkó eru nánast eins og út úr kennslubók í einræðisherrafræðum; kúgun og ofbeldi eru þar helstu leiðarljós og þúsundum ,,svartklæddra“ manna beitt gegn almenningi.

Kosningafarsi

Forsetakosningarnar þann 9. ágúst síðastliðinn voru farsi, Lúkasjenkó hefur sagt að hann hafi fengið um 80% atkvæða og mótframbjóðandinn, Svetlana Tíkanovskaja, hafi fengið um 10%. Enginn trúir því og hafa aðeins tvö ríki viðurkennt úrslitin, Rússland og Kína. ESB hefur lýst kosningarnar ógildar og hótar viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum.

Svetlana bauð sig fram vegna þess að eiginmaður hennar (Siarhei Tsikhanouski – Sergei Tsíkanúskí) – sem ætlaði að bjóða sig fram, var handtekinn í lok maí og bannað að skrá sig til kjörs. Hann er bloggari og mannréttindafrömuður, en það er einmitt eitt helsta einkenni einræðisherra að þverbrjóta öll mannréttindi.

Ofbeldi er meðalið

Það hefur verið gert í kjölfar kosninganna; nokkrir hafa beðið bana í mótmælum, þúsundir hafa verið handtekin og fjölmargir þeirra lýst barsmíðum og ofbeldi af hendi öryggissveita Innanríkisráðuneytisins (hinar alræmdu OMON-sveitir) og öryggislögreglunnar, KGB, sem starfar enn í Hvíta-Rússlandi.

Hún ber enn það heiti, rétt eins og öryggislögregla gömlu Sovétríkjanna, sem Hvíta-Rússland var hluti af frá 1922-1991, þegar landið lýsti yfir sjálfstæði. Árið 1991 gliðnuðu hin kommúnísku Sovétríki svo í sundur í einum mestu samfélagsbreytingum síðustu aldar. Hvíta-Rússlandi er þó enn stýrt í anda kommúnisma, með mikilli ríkiseign á fyrirtækjum, samyrkjubúum og öðru slíku.

Hræðslan hverfur

Ýmsir fræðimenn telja að einn þátturinn í hruni Sovétríkjanna hafi verið sá að sovéskur almenningur hafi fengið kjark til að mótmæla kröftuglega óþolandi ástandi; kúgun, spillingu, skorti á lífsgæðum og almennum mannréttindum, að einskonar sameiginlegt hugrekki hafi myndast. Ýmislegt bendir til þess að núna sé það sama uppi á teningnum í Hvíta-Rússlandi, þ.e. að almenningur í landinu sé fullkomlega kominn með upp í kok eftir meira en tveggja áratuga setu Alexanders Lúkasjenkó á valdastóli, en hann er búinn að vera forseti landsins frá forsetakosningum árið 1994.

Hræðsla Pútíns

Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, hefur stutt Lúkasjenkó undanfarið, enda talið að Pútin hræðist ástand eins og nú er til staðar í Hvíta-Rússlandi, þ.e. að almenningur rísi upp. Töluverð mótmæli hafa verið í Rússlandi á undanförnum árum, stjórnarandstæðingar myrtir, beittir handahófskenndum handtökum og fleiru slíku. Jafnvel er talið að leyniþjónusta Rússlands, FSB, hafi verið með menn í Hvíta-Rússlandi og hefur Pútín heitið Lúkajsenkó hernaðaraðstoð.

Pútín vill nefnilega ekki að Hvíta-Rússland fái frelsi og halli sér ef til vill til Vesturs, rétt eins og Úkraína gerði og er meðal annars ein ástæða stríðsins á landamærum ríkjanna, sem staðið hefur frá árinu 2014.

Fellur hann?

Hvort Lúkasjenkó fellur að þessu sinni, er erfitt að segja, en ljóst er að það hefur molnað verulega undan honum og valdastöðu hans. Mótmælaldan, sú mesta í landinu hingað til, sýnir að almenningur hefur fengið nóg. Lúkasjenkó hefur hinsvegar sagt að öll mótmæli muni verða brotin á bak aftur. Lykilatriði fyrir hann er stuðningur annarra örygisstofnana; hers, leynilögreglu og slíkra aðila. En siðferðilega er tíma Lúkasjénkós liðinn og það fyrir löngu.

Höfundur er stjórnmálfræðingur.

Frétt Radio Free Europe um ofbeldið gegn almenningi í Hvíta-Rússlandi.

Myndband frá The Daily Telegraph sem sýnir ofbeldið á götum Minsk.

Uppfært: Frétt Morgunblaðsins um viljayfirlýsingu Vladimírs Pútíns forseta Rússlands, sem býður fram aðstoð Rússa til að berja til baka mótmælin: https://www.mbl.is/frettir/erlent/2020/08/27/putin_reidubuinn_ad_senda_logreglulid_yfir_landamae/

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum.

Mynd: Samsett/skjáskot úr fréttaklippu á YouTube, en undanfarið hefur sést til Lúkasjénkó í Minsk, höfuðborginni, þar sem hann veifar AK-47 árásarriffli. Skýrari geta skilaboðin ekki verið frá einræðisherra, sem virðist tilbúinn til að beita öllu afli til að halda völdum.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni