Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Kabúl, stjórnarherinn og Afganistan hrundu sem spilaborg

Kabúl, stjórnarherinn og Afganistan hrundu sem spilaborg

Yfirtaka Talíbana á Afganistan í ágúst árið 2021, á sennilega eftir að fara í sögubækurnar sem ein mesta snilldaraðgerð hernaðarsögunnar, því miður.

Ég vil taka það strax fram að ég tek með engu undir þá hugmyndafræði sem Talíbanar aðhyllast og vilja innleiða í Afganistan og óska þeim sem stystrar dvalar við völd í landinu.

Ég skrifaði um daginn pistil um málefni Afganistan, ekki vegna þess að ég er sérfræðingur, heldur vegna þess að ég er áhugamaður um alþjóðastjórnmál.

Í pistlinum sagði ég að það væri sennilega ekki langt að bíða þess að Talíbanar myndu ráða öllu landinu og nú er það raunin og gerðist mun hraðar en menn létu sér detta í hug og kom þetta alþjóðasamfélaginu í opna skjöldu.

Það var hinsvegar mjög ,,áhugavert“ að fylgjast með hvernig Talíbanar tóku hverja héraðshöfuðborgina á fætur annari og mynduðu einskonar hestaskeifu utan um Kabúl, höfuðborg landsins.

Síðan féll hún með slíkum hraða að erlend ríki hafa átt í mesta basli með að koma sínu fólki frá borginni. Talíbanar tóku Kabúl á aðeins 10 dögum, sem er með ólíkindum.

Afganski herinnn féll eins og spilaborg og það sýndi sig að allir þeir milljarðar dollara sem eytt hefur verið á undanförnum árum í að ,,byggja upp“ stjórnarherinn, þeim var nánast ,,hent út um gluggann“ eins og sagt er.

Stór þáttur í samanbroti hans er talið vera ákvörðun Bandaríkjamanna að yfirgefa herstöð sína í Bagram, rétt fyrir utan Kabúl, nánast yfir nótt og án þess að láta ráðamenn Afganistan vita, og þar með skrúfa fyrir stuðning úr lofti við afganska stjórnarherinn.

Þetta virðist vera svolítið stíll Bandaríkjamanna, en það má rifja það upp að Bandaríkjamenn kvöddu Ísland og herstöð sína á Keflavíkurflugvelli nánast með einu símtali haustið 2006. Aðstæður hér og í Afganistan eru að sjálfsögðu í engu sambærilegar, en aðferðafræðin kannski ekkert svo ólík því sem gerðist fyrir nokkrum vikum í Afganistan.

Fall Kabúl nú kemst á söguspjöldin sem mjög dramatískur atburður og má til samanburðar nefna fall Saigon, eftir Víetnam-stríðið vorið 1975 og yfirtaka Rauðu Kmeranna á höfuðborg Kambódíu, Pnom Pen, sama ár/sama vor, en þar hafði geisað blóðugt borgarastríð, sem tengist Víetnam-stríðinu órjúfanlegum böndum.

Eftir fall Saigon komust kommúnistar til valda í Víetnam (og eru enn) og við fall Pnom Pen hófust Rauðu kmerarnir, undir stjórn hins morðóða Pol Pot, til við að tæma borgir landsins og reka alla út í sveit.

Árið 0 var sett á og var þetta upphafið að grimmdarstjórn, sem tókst að myrða 2 milljónir manna á næstu fjórum árum. Valdatíð Pol Pot er talin vera með þeim grimmustu sem vitað er um, t.d. var fólk myrt fyrir það eitt að vera með gleraugu (það benti til þess að það kynni að lesa og væri menntað).

Óskarsverðlaunakvikmyndin ,,The Killing Fields“ segir frá þessari hræðilegu sögu og byggir á sönnum atburðum.

En hvað gera Talibanar nú, mennirnir hvers nánast eina vopn er afdankaður AK-47 rifill?  Nú þurfa þeir að sjá um rekstur þess lands sem þeir hafa tekið yfir, land sem er í raun misheppnað ríki (,,failed state").

En þeir hafa áður verið við völd í Afganistan, frá 1996-2001 og þá viðurkenndu aðeins fjögur ríki tilvist ríkis þeirra; Pakistan, Túrkmenistan, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Sádí-Arabía.

Hugmyndafræði Talíbana verður best lýst með orðinu alræði, en þeir viðurkenna enga andstöðu og gagnrýni og þeir kúga íbúa landsins, karlmönnum verður t.d. sennilega skylt að láta sér vaxa skegg, en hlutskipti kvenna og stúlkna verður að öllum líkindum mun verra og verða þær það sem kalla mætti ,,þriðja flokks þegnar“ – ekki leyfta að afla sér menntunar, eða taka þátt í þjóðlífinu með því að við myndum kalla ,,eðlilegum hætti.“

Hugmyndafræði Talíbana (,,sá sem leitar að þekkingu“/,,nemandi“) er samkvæmt rithöfundinum Ahmed Rashid öfgafyllsta og afskræmdasta form á íslam, sem hugsast getur.

Frá þessu segir hann í bók sinni ,,Taliban“ sem kom út í endurskoðaðri útgáfu árið 2010 og er talin vera ein besta bókin sem til er um þennan sérkennilega hóp manna, sem talinn er vera allt frá 75.000-200.000 manns að stærð.

Og að öllum líkindum mun á næstu vikum hefjast flóttamannastraumur frá Afganistan, en nú þegar er talið að um 3 milljónir flóttamanna frá Afganistan séu t.d. í Pakistan, vegna þeirra átaka sem geisað hafa á undanförnum árum.

Afganistan hefur veið kallað ,,grafreitur stórvelda“ og urðu bæði Sovétríkin (innrás þeirra 1979-1989) og Bretland (um miðja 19.öld) illa fyrir barðinu á Afgönum. Sjálfir lýsa margir Afganir þjóð sinni sem ,,stríðsþjóð“ og það kannski skýrir hvernig komið er fyrir þeim í dag.

Nú hafa Bandaríkin fengið alvöru kjaftshögg frá Talíbönum og í raun bæði bandarísk stjórnvöld og NATO-löndin verið niðurlægð af þeim.

Ljóst er að þeir voru gríðarlega vel skipulagðir og gengu fumlaust til verks, gegn andstæðingi, sem þegar upp var staðið sprakk eins og blaðra. Þrátt fyrir eina mestu hernaðaraðstoð í sögu mannkyns!

Mynd: Samsett mynd, sú efri er frá Kabúl og Getty Images, en sú neðri er eftir franska ljósmyndarann Roland Neveu, sem var einn af fáum vestrænum ljósmyndurum sem urðu eftir í Pnom Pen þegar Rauðu Kmerarnir tóku yfir landið um miðjan apríl árið 1975. Fjórum árum síðar réðust  Víetnamar inn í Kambódíu og boluðu Pol Pot frá völdum, en hann lést árið 1998.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu